06.04.2010 22:55

Hundarnir í heimavinnunni.

 Stundum hitti ég fólk sem segir mér það í fyllstu einlægni að það borgi sig ekkert að vera að leggja vinnu í að temja hunda til að nota þá í kindavinnu.

 Þetta séu hvort sem er ekki nema örfáir dagar á ári sem verið sé að nota þá.

 Ég virði að sjálfsögðu þessar skoðanir enda er ég löngu hættur að boða fagnaðarerindið í þessum efnum, til vantrúaðra.

 Ég kom einu sinni til dansks fjárbónda sem m.a. sýndi okkur lömb í innifóðrun sem áttu að fara í slátrun fljótlega.

 Hann sagði okkur það, að flutningabíllinn sem flytti lömbin, væri á tímakaupi og því væri brýnt að það gengi hratt að lesta bílinn. Danskir bændur voru þá löngu búnir að læra það sem margir íslenskir kollegar þeirra eiga eftir tileinka sér, að fara vel með peningana sína.

 Sá danski átti tvo hunda og þeir sáu um að koma lömbunum hratt og örugglega á bílinn.

Mér þótti það dálítið merkilegt að þessi hagsýni bóndi keypti hundana fulltamda. Annan þeirra sem hann átti þá, fékk hann í Hollandi en hinn var breskur.

Ég er hinsvegar eins og sá danski að nota hundana mína nokkuð marga daga á ári.


 Hér sjá Assa og Vaskur um að halda lömbunum að rekstrarganginum.



 Hér eru það Snilld og Dáð sem halda kindunum frá rúllugrindinni meðan sett er rúlla í hana fyrir næstu 3 dagana.



 Tækifærið er notað til að kenna þeim að troða sér meðfram veggnum inn fyrir kindurnar. Hér vippar Dáð sér yfir en Snilld lendir verr í því.



 Hér fara þær vinstra megin inn í hornið hvergi bangnar.



 Þessar eru nú ekki á leiðinni upp á sláturbíl en trúlega væru þær stöllurnar snöggar að rusla þeim út með smá hvatningu.



 Já, það styttist svo óðfluga í að sauðburður hefjist og þurfi að koma lambfénu niður fyrir veg.

Þá kemur sér vel að hafa aðstoð við að virða biðskylduna.
Flettingar í dag: 467
Gestir í dag: 78
Flettingar í gær: 255
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 420467
Samtals gestir: 38316
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 13:57:04
clockhere