11.04.2010 21:37

Árshátíð sauðfjárbænda.*****

 Þrátt fyrir háan aldur og nokkra skemmtanafíkn hef ég aldrei haft mig í að sitja árshátíð okkar sauðfjárbænda.

 Nú var bætt úr því og borg óttans sótt heim á föstudag og árhátíðin setin um kvöldið.

Þetta var reyndar 25 ára afmælishátíð.

Já aldarfjórðungur síðan Jói á Höfðabrekku lagði undir sig landið og miðin og hóaði sauðfjárbændum saman í breiðfylkingu.

 Þetta var annars frábær hátíð og fær 5 stjörnur af 5 mögulegum.

Guðni Ágústs. stóð sig frábærlega sem veislustjóri. Greinilega góður í því!

 Maturinn var með því besta sem ég hef kynnst og skemmtiatriðin voru vægast sagt hvert öðru betra.

Eina sem skyggði á þetta, var að það varð býsna notalegt í Súlnasalnum og væri full þörf á því að Snorri Sigurðs. endurhannaði loftræstinguna í þessu húsnæði okkar bændanna.

 Þarna hitti ég alveg aragrúa af liði sem ég þekkti misvel.
 
Svona eftir á að hyggja uppgötvaði ég hinsvegar það, að umræðuefnið við þessa vini og kunningja þessa kvöldstund, á milli þess sem ég sinnti minni heittelskuðu, var hundar.

 Það var eiginlega nokkuð sama hvar ég settist eða hverjir settust hjá mér alltaf endaði umræðan með ýmsum tilbrigðum um hundamál.

Svosem ágætis umræðuefni.

Ég hefði alveg getað selt nokkra tamda hunda þessa kvöldstund eða bókað á eitt  til tvö námskeið en það var hvorugt í boði.

 Það er þó rétt að taka fram að við Ari á Hrísum minntumst ekkert á hunda og ekki við Aðalsteinn á Vaðbrekku heldur.

 Í hvert skipti sem ég hitti Aðalstein ítreka ég við hann gamalt loforð um að gæda mig á hreindýraveiðar. 

 Hann trúði mér held ég ekki, þegar ég sagði honum að ég hefði sleppt tarfi sem mér var úthlutað á heiðina hjá honum fyrir 3 árum.

 Ég fullvissaði hann hinsvegar um að nú myndi ég sækja um árlega þar til ég fengi tarf aftur, því við þyrftum að klára þetta áður en við verðum " gamlir".

 Hvað sem hreindýraveiðun líður held ég að  það yrði mikil upplifun að eyða einum til tveim dögum með þessum sagnaþul og fjallamanni á heiðinni hans.

 En árshátíðin var semsagt alveg rosalega fín og það sást ekki nokkur einasti maður sauðdrukkinn.

 Að vísu voru vinir mínir á Austurbakkanum ekki sjáanlegir í morgunkaffinu þegar við yfirgáfum morgunverðinn um tíuleitið á laugardagsmorguninn.emoticon 

 Enda klukkan ekki orðin hálfellefu.emoticon

Myndir af hátíðinni hér .

 
Flettingar í dag: 33
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 164
Samtals flettingar: 424510
Samtals gestir: 38748
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 02:52:21
clockhere