15.04.2010 00:07

Skeljasandskeyrsla, og óhemju umhverfisvæn náma.

 Það er stefnt að því að ljúka skeljasandsakstri frá Skógarnesi á morgun.

 Það voru farnar 3 ferðir á fjörunni í gær en ekki náðist nema 1 ferð í dag vegna ýmissa frávika frá alvörunni.



 Þó ég sé náttúrulega mikill  umhverfissóði og landníðungur eins og flestir sem eru að nýta fósturjörðina sér( og öðrum)  til framfæris, finnst mér alveg sérlega skemmtilegt hvernig hægt er að ná skeljasandinum án nokkurra varanlegra ummerkja.

 Farið er af góðum vegi beint niður í fjöruna og dólað eftir henni suðurfyrir Skógarnesið þar sem sandurinn er tekinn í fjöruborðinu.

 Farið er þvert yfir nesið eftir sandgeil þar sem sjávarmöl er í botninum og öll för horfin eftir næsta sandbyl.



 Sandurinn er tekinn úr flæðarmálinu og eftir nokkur flóð eru öll ummerki horfin . Bæði eftir sandtökuna og förin eftir vélarnar á fjörunni.

 Ég reikna með að ef einhver umhverfisvænn kæmi að mér við þetta akstursbrölt utanvegar yrði ég í slæmum málum, en sem betur fer er háttvirtur umhverfisráðherra algjörlega upptekin við að upphugsa lög svo öll nýju hraunin verði ekki " eyðilögð " um leið og þau verða til.
 
Reyndar finnst mér að hún mætti nú líka hafa í huga öll gömlu hraunin sem hljóta að vera í stórhættu víðsvegar um landið ef svo heldur sem horfir.

 En ég vona það að verða svo heppinn í sumar, að geta einhverntímann lagt á með Skóganesbóndanum  og riðið þarna um nesið.

 Þá verða öll  verksummerki eftir níðingsverkið örugglega á bak og burt.emoticon

Og kannski kominn nýr umhverfisráðherra.emoticon

13.04.2010 06:27

Ný borholudæla við Laugargerðisskóla.


 Það var allt brjálað að gera hjá undirrituðum í gær og m.a. var skotist niður í Laugargerði og skipt um dælu í orkuveri skólans.

 Þetta gekk fljótt og vel enda vanir menn á ferðinni og þegar við Atli yfirgáfum svæðið átt Hilmar rafvirki eftir að setja upp og tengja hraðastýringuna en forverar nýju dælunnar hafa fengið að snúast án slíkra tæknifyrirbrigða.


 Hreppstjórinn á Þverá er greinilega að sannfæra rafvirkjann um hvað þetta sé alveg dj. góð dæla.

 Það hefur gengið á ýmsu í dælumálum skólans gegnum tíðina en síðast þegar ný dæla fór niður í holuna gekk hún ekki nema í tæpt ár.

 Söluaðilinn úrskurðaði bæði dæluna og mótorinn ónýt og þar með taldi hann sínum hlut að málinu lokið.

  Nú var sem sagt dælunni sem reddað var til bráðbirgða þá, skipt út og ný sett niður.

Seljandi ónýtu dælunnar sem átti hér góða viðskiptavini, mun að öllum líkindum ekki fá meiri viðskipti hér á svæðinu, enda hafa menn fundið annan aðila til að þjónusta borholurnar, en hin hitaveitan var búin að gefast upp á viðskiptum við hann áður.

 Það var keypt dæla af ungu fyrirtæki, Ásafli ehf. sem er m.a. að hasla sér völl í þessum geira og nú er bara að vona að þeir standi sig, en þetta er önnur dælan sem þeir selja hingað vestur.


Megi svo sá sem öllu ræður láta dæluna ganga, sem lengst.emoticon


11.04.2010 21:37

Árshátíð sauðfjárbænda.*****

 Þrátt fyrir háan aldur og nokkra skemmtanafíkn hef ég aldrei haft mig í að sitja árshátíð okkar sauðfjárbænda.

 Nú var bætt úr því og borg óttans sótt heim á föstudag og árhátíðin setin um kvöldið.

Þetta var reyndar 25 ára afmælishátíð.

Já aldarfjórðungur síðan Jói á Höfðabrekku lagði undir sig landið og miðin og hóaði sauðfjárbændum saman í breiðfylkingu.

 Þetta var annars frábær hátíð og fær 5 stjörnur af 5 mögulegum.

Guðni Ágústs. stóð sig frábærlega sem veislustjóri. Greinilega góður í því!

 Maturinn var með því besta sem ég hef kynnst og skemmtiatriðin voru vægast sagt hvert öðru betra.

Eina sem skyggði á þetta, var að það varð býsna notalegt í Súlnasalnum og væri full þörf á því að Snorri Sigurðs. endurhannaði loftræstinguna í þessu húsnæði okkar bændanna.

 Þarna hitti ég alveg aragrúa af liði sem ég þekkti misvel.
 
Svona eftir á að hyggja uppgötvaði ég hinsvegar það, að umræðuefnið við þessa vini og kunningja þessa kvöldstund, á milli þess sem ég sinnti minni heittelskuðu, var hundar.

 Það var eiginlega nokkuð sama hvar ég settist eða hverjir settust hjá mér alltaf endaði umræðan með ýmsum tilbrigðum um hundamál.

Svosem ágætis umræðuefni.

Ég hefði alveg getað selt nokkra tamda hunda þessa kvöldstund eða bókað á eitt  til tvö námskeið en það var hvorugt í boði.

 Það er þó rétt að taka fram að við Ari á Hrísum minntumst ekkert á hunda og ekki við Aðalsteinn á Vaðbrekku heldur.

 Í hvert skipti sem ég hitti Aðalstein ítreka ég við hann gamalt loforð um að gæda mig á hreindýraveiðar. 

 Hann trúði mér held ég ekki, þegar ég sagði honum að ég hefði sleppt tarfi sem mér var úthlutað á heiðina hjá honum fyrir 3 árum.

 Ég fullvissaði hann hinsvegar um að nú myndi ég sækja um árlega þar til ég fengi tarf aftur, því við þyrftum að klára þetta áður en við verðum " gamlir".

 Hvað sem hreindýraveiðun líður held ég að  það yrði mikil upplifun að eyða einum til tveim dögum með þessum sagnaþul og fjallamanni á heiðinni hans.

 En árshátíðin var semsagt alveg rosalega fín og það sást ekki nokkur einasti maður sauðdrukkinn.

 Að vísu voru vinir mínir á Austurbakkanum ekki sjáanlegir í morgunkaffinu þegar við yfirgáfum morgunverðinn um tíuleitið á laugardagsmorguninn.emoticon 

 Enda klukkan ekki orðin hálfellefu.emoticon

Myndir af hátíðinni hér .

 
Flettingar í dag: 2678
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 650776
Samtals gestir: 57960
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:13:56
clockhere