01.12.2010 23:52

Litlu skrípin á fullu og útrásin framundan.

 Björgvin dýralæknir var á ferðinni fyrir helgina og heilbrigðisskoðaði, örmerkti og  ormahreinsaði hvolpana.
 Hann var fullur efasemda þegar ég setti hendina í hrúguna kom með hvolp og sagði honum hvaða bæjarnafn ætti að setja í sjúkrabókina. Honum fannst þeir allir eins.
Ég hafði ekki varað mig á því að þeir verða að vera orðnir 8 vikna fyrir pavrosprautuna svo hún bíður þar til 7. des. Í framhaldi af því gæti farið að koma los á einhverja þeirra.

 Nú eru þeir alveg meiriháttar skemmtilegir og sem betur fer er tíðin góð svo þeir eru settir út tvisvar á dag a.m.k.
 Hér eru þeir að leggja af stað út í veröldina í fyrsta sinn.

 Litla daman fremst er sú sem á lengstu ferðina fyrir höndum á nýtt heimilið.  Það er næstum þvert , eða svona á ská yfir landið. Þar bíða hennar krefjandi verkefni og ég hef fulla trú á því að hún muni standa sig, hvort sem hún lendir í kröppum dansi í Sauðdrápsbotni eða Fossdalshnútu.

 Mamman var sett afsíðis en þeir fylgdu húsbóndanum hiklaust út.



 Hér er það hinsvegar langamman hún Skessa sjálf að heilsa upp á ungviðið sem sýndi henni heldur óviðurkvæmilegan áhuga.

 Þessar vikurnar er ágætt að hafa  fullorðinn hund með þeim í uppeldislegum tilgangi og pabbinn og Dáð eru góð í það.

 Hér sýnir Bangsi föður sínum hóflega virðingu.


 Hér er það hinsvegar afastelpan sem leiðir þá um refilstigu lífsins.


 Þessi hér er sérvalin sem einstaklega ferðaþjónustuvænt eintak.

Já þrælskemmtileg fyrirbrigði en það verður samt ákveðinn léttir, þegar sá síðasti verður kvaddur.

Fullt af hvolpamyndum .  Smella HÉR.
Flettingar í dag: 284
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 1053
Gestir í gær: 39
Samtals flettingar: 423733
Samtals gestir: 38565
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 23:39:23
clockhere