25.11.2011 22:47

Í tómu tjóni ? Ja, eða ?

   Ég er enn blautur á bakvið eyrun í byggræktinni hafandi ekki stundað hana nema í nokkur ár.

 Þessi ár hafa þó verið býsna lærdómsrík og staðfest rækilega þá skoðun mína að lífið sé lotterí og sérílagi byggræktin. Ræktun olíujurtanna mun að sjálfsögðu falla undir þann flokk líka og reyndar öll akuryrkja yfirhöfuð.

 Að sjálfsögðu á þessi skoðun mín við þennan unaðsreit hér, þar sem ég hef kosið að þreyja þorrann og góuna enda læt ég mér í léttu rúmi liggja annarra manna lotterí.

 Síðasta ár (2010) var metár í bygginu þar sem saman fór gott vor, sumar (fyrir mýrarakrana). og haust.



Mikil úrvalsuppskera náðist í hús m.a. gott sáðkorn  sem nýttist vel í vor,  enda spírunin yfir 90 %.

  Þó uppskera vel yfir 4 t/ha þyki kannski ekki mikil í góðhéruðunum brosum við á Nesinu hringinn þegar það næst.

 Ég hef gefið mér það í bygginu að slæmu árin muni verði fleiri en þau góðu og fyrrnefnd þroskasaga mín hefur staðfest það rækilega.

 Árið 2011 var svo akkúrat í hina áttina, slæmt vor og fyrripartur sumars og haustið skelfilegt.

 Uppskeran var eftir því ákaflega mögur bæði að magni og gæðum.



 Þessi akur sem var þresktur 23 sept. var að skila um 3.5 t/ha en það vantaði töluvert á að úrvalsflokkurinn næðist.



 Þessi akur sem meistari Jónatan er að kryfja til mergjar, lenti í einhverjum ótilgreindum hremmingum og þrátt fyrir að verða mikill að vöxtum þegar fór að líða á sumar reyndist í honum mikið af geldfræjum sem er nýlunda hér. Hann skilaði um 1 t/ha. af nýtanlegu korni um það er lauk.



 Og þessir 21 ha. sem Dalsmynni sf. sáði til í vor skilaði um 55 t. ( um 2.5 t/ha.) sem er kannski svipað og verið er að gefa á búinu yfir árið.

  Það gerir tilveruna samt léttbærari að  nú var ekkert innflutt sáðbygg notað og búfjáráburður notaður að hluta á akrana.

 Fyrstu árin í ræktuninn var þetta ekki eins  áhættusamt  því bæði sáðbygg og áburður var margfalt ódýrara að maður tali nú ekki um olíuna.

 Og þó hagnaðarvonin  ef vel gengur, sé talsverð  í dag vegna hærra fóðurverðs er áhættan orðin umtalsverð og ekki þýðir að sökkva sér ofan í of nákvæma útreikninga, ef koma á meðaltalinu af góðu og slæmu árununum  réttu megin við strikið.

 Já, en það styttist í vorið og nú er rigningin sem er búin að gera akuryrkjuna alveg hundleiðinlega þetta haustið að breytast í fastara form.



 Plógurinn var því loksins settur við í gær og nú er plægt og plægt.

 Já,já, spennandi að vita hvoru megin striks tölurnar lenda næsta árið.

 

Flettingar í dag: 227
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 406
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 417752
Samtals gestir: 37913
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 08:54:22
clockhere