17.05.2012 23:52

Flas er ekki til fagnaðar.

Já. Það vorar hægt og örugglega þessa dagana.

 Ef eitthvað er svo að marka málshættina, sígandi lukka er best, góðir hlutir gerast hægt og flas er ekki til fagnaðar, þá lítur þetta alveg meiriháttar vel út.( Eða þannig).

 Það passaði nákvæmlega að þegar vistarverur sauðkindanna voru farnar að bólgna út vegna þrengsla var hægt að fara að setja út lambfé í gær ( 16 Maí) með góðri samvisku.



 Þetta var fyrsta lambærin í Dalsmynni út þetta vorið. Smá saga á bakvið hana sem ekki verður færð til bókar núna.



   Slatti af gemlingum yfirgáfu dekrið sitt í dag. Þeir fengu sérmeðferð og fá gæðatún í nokkra daga.



 Hún Korka " litla"  aðstoðar mig ásamt Dáð í þessu stússi  og þó hún komist trúlega aldrei með tærnar þar sem Tinni faðir hennar hafði skottendann er henni nú ekki alls varnað.



 Og svona litu tún og fjöll út í þessum sælureit í dag og mesta furða hvað túngrösin læðast upp þrátt fyrir ríkjandi næturfrost síðustu vikuna.



  Hvort sem það er svo nauðsynlegt eða bara fullkomnun fáránleikans að brenna sinu líta " brunarústirnar " svona út í dag og bjóða féð velkomið til snæðings. Sinuflóarnir verða hinsvegar heldur óárennilegir til beitar frameftir sumri.



 Hér skutla svo Dáð og Korka nokkrum á eftir mér yfir þjóðveginn þegar kom lag  fyrir umferðinni.




 Mjór er mikils vísir hugsaði ég svo, þegar kíkt var á byggakurinn sem fyrst var sáð í þetta vorið.
Samkvæmt félaga Jónatatan eiga þessar frostnætur ekki að hafa áhrif á uppskeruna á þessum akri þar sem ekki er lengra liðið frá sáningu en það að plantan er enn að taka næringu úr sáðfræinu.



 Nú verður bóndinn á flækingi á morgun, en svo verður haldið áfram að róta út lambfénu þar til stóra lægðin kemur askvaðandi með úrhellið sem annaðhvort verður í föstu eða fljótandi  og allt fer í klessu.

Jahá , tóm gleði framundan.


Flettingar í dag: 859
Gestir í dag: 90
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 414507
Samtals gestir: 37257
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 21:37:56
clockhere