12.12.2012 21:37

Ræktunarkúrsinn.- Og klessukeyrslurnar.

 Þó ræktunarmarkmiðin séu nokkuð ljós verður ferðin aldrei hnökralaus né greiðfær.

 Þar skiptir engu hvort það eru kindur , kýr, hross eða hundar.

 Allir almennilegir ræktendur eru svo með allskonar sérvisku og trúa á, - ja kannski ekki stokka og steina en allt annað.

 Hjá sumum ganga svo hlutirnir stundum upp meðan aðrir berjast með minni árangri.

 En ég held samt að allir, sama hversu snjallir þeir eru , lendi alltaf, í einhverjum hliðarskvompum sem ekki var stefnt að.
Sem betur fer, því annars myndi búfjárræktin örugglega enda með enn meiri ósköpum en útlit er fyrir 
í augnablikinu.

 Nú eru sauðfjársæðingar á fullu í Dalsmynni en vegna lítils áhuga bændanna að lengja sauðburðinn óhóflega er ekki byrjað fyrr en hæfilegt er að gefa hrússunum lausan tauminn í lok sæðinga.


 Þriðji sæðingadagurinn var í dag og hér eru þær sem til voru í tuskið.
 
 Það er alltaf sama lotteríið með hversu margar kindur gefa kost á sér í sæðingar og sum árin er sáralítið að hafa meðan önnur eru einstaklega gjöful á fullt af góðum ræktunarám sem ganga á réttum tíma.

 Í fyrra var tekinn topphópur og samstilltur, þannig að sætt yrði á öðru gangmáli. Það gekk fínt að öðru leiti en því,  að hrútlömb voru í miklum meirihluta þrátt fyrir eindregna pöntun á því gagnstæða. Ég held að það hafi allt verið Lárusi að kenna.

  Sem betur fer tókst ekki að endurtaka leikinn í ár vegna byggingarframkvæmda.

 Nú ganga ærnar hinsvegar eins og enginn sé morgundagurinn og  eftir 3 daga eru þær orðnar yfir 30 sem er ekki lítið miðað við kotbúskapinn hér.
  Og þá fer ekki hjá því að séu í hópnum ein og ein nothæf ræktunarær.

 Fyrir margt löngu gaf ég nú skít í þetta sæðingakjaftæði og taldi hollastan heimafenginn bagga.

 Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og ég er fyrir löngu búinn að læra að það borgar sig enganveginn að vera sjálfur að finna upp hjólið.

 

 Það er svo alveg ólýsanleg breyting að vera kominn í almennilega aðstöðu til að dútla í þessu en það er nú seinna tíma mál að fara rækilega yfir það.



 Nú er bara að halda stjórnarfund og ákveða hvenær verður svissað yfir í náttúrulegu aðferðina.

Og bara nokkuð spennandi nýliðar í boði fyrir dömurnar .
Flettingar í dag: 103
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 745
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 420848
Samtals gestir: 38381
Tölur uppfærðar: 30.4.2024 07:22:48
clockhere