20.12.2012 21:28

Grunnskólaþjónustan og baklandið.

Fyrir margt löngu var ég í allskonar aukadjobbi með brauðstritinu.

 Mér eru m.a. minnistæð frá þessum tíma 3 símtöl sem ég átti við óskylda aðila sem áttu það sameiginlegt að vera búsettir á svoköllum jaðarsvæðum þess tíma. Eiga ung börn komin eða að verða komin á skólaaldur og sættu sig ekki við nýorðna eða fyrirsjáanlega breytingu á grunnskóla sveitarfélagsins. Í öllum tilvikunum  sættu þau sig fyrst og fremst ekki við fjarlægðina í skólann.

Og erindið var að spyrjast fyrir um jarðnæði sem ég vissi skil á og grunnskólaþjónustu svæðisins..

 Það kom nú ekkert útúr þessum fyrirspurnum  en öll þessi býli sem um ræddi eru löngu komin í eyði og nágrenni þeirra.

  Síðan hef ég verið vel meðvitaður um það að sé  grunnskólaþjónustan ekki viðunandi að mati foreldranna, vantar langöflugustu stoðina undir lífvænlegt samfélag.

 Eyja-og Miklaholtshreppur rekur sinn grunnskóla að  Laugargerði og selur Borgarbyggð þjónustu fyrir börn úr Kolbeinsstaðarhrepp.

  Þar eru í vetur 23 nemendur  auk 8 barna í leikskóla.

 Þetta er að sjálfsögðu nokkuð þung rekstrareining og eins og velþekkt er í svona strjálbýli er nemendaframboðið nokkuð sveiflukennt eftir meðalaldri íbúanna.

 Þá er mikilsvert að menn snúi bökum saman um það hvernig skólahaldinu sé best háttað fyrir svæðið í heild.

 Á líðandi ári hafa skólanum borist myndarlegar gjafir sem sýna stórhug og velvilja viðkomandi til skólans og skilning á mikilvægi hans.



 Hér er Eggert á Hofstöðum mættur í skólann fyrir hönd Múlavirkjunar og færði skólanum að gjöf borð og stóla fyrir 9 og 10 bekk ásamt ýmsu fyrir leikskóladeildina.

 Og á dögunum mætti Bryndís á Miðhrauni fyrir hönd þeirra Sigurðar bónda og Fiskverkunarinnar  á Miðhrauni og færði skólanum að gjöf 15 vandaðar spjaldtölvur.


 Bryndís að afhenda Kristínu Björk skólastjóra gjöfina. 

 Þess má til gamans geta að bæði Bryndís og Eggert sóttu sitt grunnskólanám í Laugargerði.



 Nú er verið að vinna í því að koma námsefni inná tölvurnar svo þessi nemendahópur sem er hér með gefandanum geti nýtt sér þær við námið.


 Í þessum skemmtilega hóp eru töluð 4 tungumál.

 Svo er það spurningin hver staðan í grunnskólaþjónustunni verður þegar þessi leikskólabörn eru komin á fullt í náminu.
 

 

15.12.2012 21:55

Spámennirnir og himnaförin.

 Það höfðu nokkrir orðið spámannlegir þegar þeir virtu fyrir sér rampinn sem ætlaður var fyrir uppgöngu nautgripanna upp í nýju vistaveruna sína.

 Og voru nokkuð samdóma í spánum.


Þetta yrði mikill hasar.



 Ég viðurkenni fúslega að hann var ekki mjög gæfulegur  hér í upphafi,.

Býsna brattur.



 Svo var 90 gr, beygja upp og hækkunin samtals um 3 m.

Það eru til mikil vísindi um hönnun rekstrarganga svo gripir gangi þá greiðlega og ég hafði stúderað þau fræði nokkuð , bæði með sauðfé og nautgripi í huga.
 Reyndar er  hann nokkuð frábrugðinn teikningunni sem við fengum í hendurnar.

 Eina sem ég hafði áhyggjur af var að það sást niður milli rimla hér á efri hlutanum.

Það voru óþarfa áhyggjur.

Við tókum þá í 3- 4 gripa hollum og þetta gekk hratt og vel. Enda snúa stórgripir helst ekki við í bratta ef þeir komast hjá því.



Ég held bara að þeir hafi fundið nokkuð til sín svona hátt uppi.



 Það er öxuljárn sem steypt var niður í burðarbitann sem heldur þilinu og er helmingur þess á lömum á því.


 Þessi aðstaða er fyrst og fremst hugsuð fyrir kvíguuppeldið.



 Hér erum við á hinni flatgryfjunni en undir þessar plötu sem er fóðrunaraðstaða og kannski geymsla fyrir hin ýmsustu verðmæti, verða smákálfarnir á hálmi.



 Og ég held að skipti engu hvort það eru kindur, hross kálfar , nú eða jafnvel hundar. Öllum líður jafnvel á hálmi, eigi þau kost á því.



  Nú gæti verið skynsamlegt að fara að leita til spámannanna um það, hvort þeir telji ekki algjörlega útilokað að koma gripum niður þennan óhugnanlega ramp.

12.12.2012 21:37

Ræktunarkúrsinn.- Og klessukeyrslurnar.

 Þó ræktunarmarkmiðin séu nokkuð ljós verður ferðin aldrei hnökralaus né greiðfær.

 Þar skiptir engu hvort það eru kindur , kýr, hross eða hundar.

 Allir almennilegir ræktendur eru svo með allskonar sérvisku og trúa á, - ja kannski ekki stokka og steina en allt annað.

 Hjá sumum ganga svo hlutirnir stundum upp meðan aðrir berjast með minni árangri.

 En ég held samt að allir, sama hversu snjallir þeir eru , lendi alltaf, í einhverjum hliðarskvompum sem ekki var stefnt að.
Sem betur fer, því annars myndi búfjárræktin örugglega enda með enn meiri ósköpum en útlit er fyrir 
í augnablikinu.

 Nú eru sauðfjársæðingar á fullu í Dalsmynni en vegna lítils áhuga bændanna að lengja sauðburðinn óhóflega er ekki byrjað fyrr en hæfilegt er að gefa hrússunum lausan tauminn í lok sæðinga.


 Þriðji sæðingadagurinn var í dag og hér eru þær sem til voru í tuskið.
 
 Það er alltaf sama lotteríið með hversu margar kindur gefa kost á sér í sæðingar og sum árin er sáralítið að hafa meðan önnur eru einstaklega gjöful á fullt af góðum ræktunarám sem ganga á réttum tíma.

 Í fyrra var tekinn topphópur og samstilltur, þannig að sætt yrði á öðru gangmáli. Það gekk fínt að öðru leiti en því,  að hrútlömb voru í miklum meirihluta þrátt fyrir eindregna pöntun á því gagnstæða. Ég held að það hafi allt verið Lárusi að kenna.

  Sem betur fer tókst ekki að endurtaka leikinn í ár vegna byggingarframkvæmda.

 Nú ganga ærnar hinsvegar eins og enginn sé morgundagurinn og  eftir 3 daga eru þær orðnar yfir 30 sem er ekki lítið miðað við kotbúskapinn hér.
  Og þá fer ekki hjá því að séu í hópnum ein og ein nothæf ræktunarær.

 Fyrir margt löngu gaf ég nú skít í þetta sæðingakjaftæði og taldi hollastan heimafenginn bagga.

 Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og ég er fyrir löngu búinn að læra að það borgar sig enganveginn að vera sjálfur að finna upp hjólið.

 

 Það er svo alveg ólýsanleg breyting að vera kominn í almennilega aðstöðu til að dútla í þessu en það er nú seinna tíma mál að fara rækilega yfir það.



 Nú er bara að halda stjórnarfund og ákveða hvenær verður svissað yfir í náttúrulegu aðferðina.

Og bara nokkuð spennandi nýliðar í boði fyrir dömurnar .
Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere