18.02.2014 08:05

Púkarnir ráðagóðu.


 Veist þú ekki allt um hunda Svanur minn sagði gamli maðurinn í símanum.

 Ég tók að sjálfsögðu ákaflega vel í það.

Sagðist vita heilmikið um hunda.  Það væri nú samt miklu meira sem ég vissi ekki um þá , því miður.

 Gamli maðurinn, kunningi minn lét þetta ekki slá sig útaf laginu. 

Hann fór að segja mér að hann, eða þau hjónin ættu " íslenskan "  hund.

 Ég vissi nú reyndar allt um það, því þó það væri langt á milli okkar þekkti ég vel til og reyndar hafði ég heyrt slæmar sögur af þessum hundi. Sígeltandi næstu nágrönnum til mikilla leiðinda og svo flæktist hann milli bæja í tíma og ótíma.

 Hann fór síðan að lýsa hundinum fyrir mér og segja mér ýmsar sögur um ágæti hans.

 Ég hlustaði þolinmóður þó ég gætti þess vel að ýta nú ekkert undir frásagnagleðina svo þetta tæki nú einhverntíma enda.

 Þannig að það gengur bara vel með hundinn spurði ég þegar ég komst að milli sagna hjá honum.

 Það dró snögglega niður í gamla manninum við spurninguna og það varð smá þögn í símanum.

 Svo sagði hann mér að það væri nú reyndar eitt smávandamál með hundinn.

 Hann hefði átt það til leggjast í smáflakk milli bæja en þau hefðu nú vonast til að það myndi eldast af honum.

Það hefði ekki gert það . Síður en svo.

 Nú væri orðin svo mikil óánægja með þetta í sveitinni að þetta gengi ekki lengur.

Þau væru  eiginlega búin að ákveða það að láta svæfa hundinn. 

Svo hefði þeim dottið í hug að tala við mig  og vita hvort ekki væri einhver leið til að venja hann af þessu.

Það var semsagt erindið  Svanur minn, sagði gamli maðurinn og var orðinn átakanlega dapur í málrómnum.

 Nú varð löng þögn í símanum.

Púkinn á hægri öxlinni  hvíslaði í eyrað á mér að nú skyldi ég stappa stálinu í gamla manninn og málið væri dautt  og allir ánægðir í sveitinni.

Púkinn á þeirri vinstri sagði mér að nú yrði ég að duga gömlu hjónunum og þeim "íslenska "
svo hann gæti lifað lengur, jafnvel þó nágrannarnir yrðu að umbera gjammið í honum einhver ár í viðbót.

 Það var vor í lofti, sólin skein og dagurinn hafði verið góður þar til síminn truflaði mig.

Þegar þögnin var orðin dálítið þrúgandi í símanum tók ég af skarið og sagði gamla manninum að ég kynni tvö ráð til að venja hundinn algjörlega af þessu.

Annað væri alveg 100 % öruggt. Að láta svæfa hundinn.

Hitt væri svona 97.5 % öruggt.   Að láta gelda hundinn.

 Og ég ítrekaði það til að firra mig ábyrgð að seinni aðferðin væri ekki alveg örugg.

 Ég skynjaði alveg gegnum símann hversu gamla manninu létti.

Við látum gelda hundinn sagði hann strax og spurði mig ekkert frekar út í vafatriði við þá framkvæmd. 

Við prófum þetta.

Og nú mátti hann ekkert vera að því að tala við mig lengur.

Hefur væntanlega viljað flýta sér að segja konunni sinni frá þessari vonartýru í myrkrinu.

Ári seinna var ég á ferð í þessari fjarlægu sveit og droppaði inn í kaffi hjá nágrönnum gömlu hjónanna.

Þar var tekið vel á móti mér að venju, drifinn í eldhúsið og gefið kaffi.

Síðan kom skammarræðan. Loksins þegar hafði tekist að tala gömlu hjónin á að drepa þetta helv. hundfífl hafði ég eyðilagt allt saman.


Ég reyndi að verja mig en tókst það illa sem von var en spurði þó hvort hundurinn hefði ekki hætt öllu flakki.

 Jú reyndar en það var ekki nóg.

Og húsbóndinn opnaði eldhúsgluggann og benti mér yfir til nágrannans.

Þar stóð gulur hundur í hlaðinu, í svona 400 m. fjarlægð og gelti upp í austangoluna.


11.02.2014 08:06

Blindrahundurinn.

  Það var farið að líða á blótið.  Sem var búið að vera aldeilis frábært að vanda.


 Stöðugt rennerí við Brjánslækjarborðið og margt spjallað. Þar sem ég og fjárbændur hittast, leiðist umræðan stundum, einhverra hluta vegna að blessuðum hundunum og öllu sem þeim fylgir.

 Þá skiptir ekki máli hvort það er þorrablót eða jarðarför. Rétt er þó að taka fram að sjaldnast er það ég sem fitja uppá hundaumræðunni í þessum tilvikum.


  Sem ég sit þarna og spjalla við gamlan kunningja sem ég hafði ekki séð lengi, birtist klappstýra borðsins ásamt einhverri vinkonu sinni og sest andspænis okkur félögunum.


 Þar sem kunningjanum var kunnugt um botnlausan hundaáhuga minn sagði hann mér að vinkonan væri blind og ætti einn af fáum blindrahundum á landinu.


 Eitt af því sem ég hafði fyrir margt löngu velt fyrir mér, var hvernig þjálfun slíkra hunda færi fram og ekki síður hvernig eigendum þeirra á síðari stigum málsins tækist að nýta sér þjálfunina.


 Fötlun getur verið með ýmsum hætti og í stað þess að láta kynna mig fyrir konunni og ræða við hana um þetta ,örugglega sameiginlega áhugamál okkar féll ég á prófinu og bað klappstýruna að spyrja konuna hver hefði þjálfað hundinn hennar.?


 Sem hún og gerði, eftir að hafa gert stuttlega grein fyrir mér sem " miklum " hundamanni.


 Eftir að hafa upplýst um þjálfarann spurði konan hvort ég kannaðist við þjálfarann ? Já, ég vissi heilmikið um hana og hún örugglega sitthvað um mig eins og fleiri sem eru í allskonar hundamálum hér á skerinu. En við hefðum trúlega aldrei hist.

 Var ekkert að flækja málin með því að upplýsa, að trúlega væri það sú sem ég talaði við fyrir mörgum árum vegna námskeiðs sem ég vildi koma á vestra.

Sú hugmynd dagaði uppi svo ég hef ekki enn myndað mér skoðun á því hvort slíkt námskeið hefði hentað okkur BC villimönnunum.


 Það var talsverður hávaði í salnum og við borðið svo ekki varð meira úr samtali að sinni.


 Nokkru seinna átti ég leið um andyrið og hitti þar beint á vinkonurnar. Og reynslunni ríkari kynnti ég mig sjálfur í þetta sinn og gerði grein fyrir forvitni minni um hvernig gengi með samskiptin við hundinn.


 Eins og mig grunaði þótti henni þetta ekki leiðinlegt umræðuefni.


 Hún lýsti fyrir mér hvað svona hundur væri henni ómetanlega mikils virði.

Hvernig hann kæmi henni leiðar sinnar á þeim götum sem þau þekktu, af fullkomnu öryggi. Hvaða stikkorð hún gæfi honum um áfanga á leiðinni. Hvernig óvænt vandamál sköpuðust ef einhver legði bílnum sínum á gönguleiðina o.sv. frv..


 Hvernig hún skynjaði gleði og eftirvæntingu hundsins gegnum snertingu þegar hún setti tauminn á hann .


Þetta varð drjúglangt samtal.


 Og  situr fast í mér..


Þó var það einungis um pínulítið brotabrot af veröld sem ég hef ekkert velt fyrir mér á langri leið.


26.01.2014 08:07

Afskriftirnar !

 Ég horfði ýmist íhugandi tíkina sem sótti að kindunum fyrir framan mig, eða konuna við hliðina á mér.

 Mér leist miklum mun betur á konuna.

 Hún hafði hringt í mig nokkrum dögum áður, sagðist vera komin í hálfgerð vandræði með tík sem hún var að temja.

 Hún byggi í þéttbýli en væri úr sveit, færi þangað í leitir  og ætlaði að koma sér upp góðu smaladýri.

 Tíkin hélt sig alveg utaní kindunum og sótti ákaft í að bíta aftaní þær.  Skellti skollaeyrum við umvöndunum eigandans , í orðsins fyllstu merkingu.


 Aðspurð vildi konan nú ekki meina að tíkin hefði verið svona frá upphafi. Kannski aðeins meira frá þeim og ekki svona æst,  en kindurnar verið óþjálar og svona væri þetta orðið.


 Eftir að hafa reynt að koma dýrinu í eðlilegan vinnugír í nokkurn tíma setti ég upp gáfusvipinn sem notaður er í " faglegu " ráðgjöfinni.


 Niðurstaðan var sú að ég gæti ekki metið hvort þarna vantað þessi smalagen sem ég vildi hafa í tíkinni, eða hvort þarna væru áunnin vandamál sem þá yrði hugsanlega hægt að vinna sig útúr.

  Áhuginn væri þarna og kannski nægur kjarkur ef hægt væri að beina honum að réttum enda á kindunum.

 Þar sem hluti af þessum pakka hjá konunni var að hún vildi temja sinn hund sjálf, varð niðurstaðan sú að hún kæmi nokkrum sinnum í einkatíma hjá mér til að sjá hvort hægt væri að snúa tíkinni af villu síns vegar.

Það yrði samt hellingsvinna og barningur en eigandanum óx það ekkert í augum.


 Eftir að hafa heimsótt mig í  2 vikur, 6 - 7 skipti var  búið að ná tíkinni frá kindunum og stoppa skæruliðaárásirnar svona að mestu. Konan var orðin full bjartsýni og ég hafði ekki hjarta í mér til þess að sýna einhverja neikvæðni í málinu enda ekki spurður álits á þróuninni eða beðinn um framtíðarspá.


 Nú liðu nokkrar vikur þartil konan hringir í mig til að ræða við mig um stöðu mála.


Hún hafði aðgang að kindum nærri sér og hafði verið dugleg að halda áfram tamningunni en gekk ekki vel.


 Hélt að tíkin væri komin í nákvæmlega sama farið og þegar hún kom til mín í upphafi.


 Eftir að hafa upplýst um stöðu mála spurði hún mig umbúðarlaust hvað ég myndi gera við tíkina ef ÉG ætti hana.


 Þetta fannst mér vond spurning.

 Ég fór hálf vandræðalegur að útskýra það að ég gerði nú gríðarlegar kröfur til hundanna minn, væri að nota þá í erfið verkefni sem ég yrði að treysta þeim fyllilega í.

 Þessi týpa sem hún væri með hentaði nú kannski ekki í það,  þó tækist að temja hana.


Ég vil líka eiga þannig hund sagði konan og var orðin mjög ákveðin í röddinni, er ekki útilokað að gera tíkina þannig ?


 Ég taldi nú kannski engar líkur á að það tækist, en benti á að það gengi enginn að neinu vísu í gæðunum hjá BC ræktendum.


 Ég afskrifa hana þá bara sagði konan og var nú  orðin óhugnanlega ákveðin í röddinni.


 Mér sýndist að mínum ráðgjafastörfum væri lokið í bili og slitum við talinu.


Síðan eru liðin tvö ár og ég hef ekkert heyrt frá konunni,sem er í sjálfu sér gott mál.


 Trúlega hefur hún ákveðið að afskrifa mig um leið og tíkina sína.


En sem betur fer með öðrum hætti. emoticon

Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere