13.04.2008 23:21

Vorstressið.

  Nú fer í hönd gamalkunnur tími þegar manni finnst allt þurfa að gerast á nokkrum dögum og ekkert gangi. Svona hefur þetta verið og svona verður þetta trúlega meðan verið er að reyna að halda sjó í búskaparbaslinu. Alltaf hefur þó vorið komið og farið misgott eða miserfitt og veturinn varla byrjaður þegar farið er að hlakka til þess á nýjan leik. Og nú brestur það á í vikunni.(Enginn heyrt þennan áður). Dagurinn í dag var síðan eyðilagður með tilgangslausum fundi(skyldumæting) og  trúlega tveir framundan í vikunni en þeir munu væntanlega skila einhverju. Ótrúlegt hvað menn sína einbeittan brotavilja í að setja alla fundi á apríl. Það var fullyrt við mig á dögunum að þetta væri arfleifð frá þeim tíma sem fjósaskóflan var aðaláhaldið við snjómoksturinn á afleggjurunum og aðalvegirnir voru opnaði tvisvar til þrisvar í viku. Ekki verri skýring en hver önnur. Reyndar veit ég hver skýringin er, en held henni fyrir mig, enda ekki vanur að slengja einhverju fram sem gæti sært einhverja viðkvæma sál. Þó hreinskilni sé góð er hún eins og annað best í hófi.

12.04.2008 22:57

hundadagur í dag.

 Það er a.m.k. 1/2 mán. síðan eitthvað hefur verið gert í hundatamningum hér og óhætt að segja að þessi vetur hefur ekki verið góður í þeim efnum. Nú var rolluhópurinn settur út og staðan tekin. Það átti ekki vel saman að hundarnir voru strekktir eftir fríið og ærnar náttúrulega þungar á sér  og varla hæfar í svona hark. Það var sett upp sama prógrammið og í snjónum í vetur. Kindurnar sem mest kyrrstæðar en hundarnir unnu í kring um þær.Þeim finnst það nú ekki mjög spennandi svo það var tekinn stuttur tími á hvern. Systir hennar Snilldar minnar hún Rúna kom í heimsókn í dag og stoppar í örfáa daga. Hún er enn fallegri en Snilld ,loðin og þegar hún hefur þreknað aðeins verður hún akkúrat eins og ég vil hafa hunda í vextinum, og fæturnir eru auðvitað upp á tíu. Þetta er hálfgerð malbikstík enn, en fór samt flott í kringum hópinn og er komin með fínan áhuga.
 Ég fór síðan með alla hundana í 2 km. fjórhjólaferð til að koma henni inn í hópinn með hraði. Það gekk upp og hún þurfti mikið að skoða sig um, þegar hún fékk að vera laus með föðursystir sinni í 2 tíma á eftir. Þar sem ég er á skilorði vegna hænsanna á efri bænum gekk ég nú úr skugga um að þær væru  örugglega lokaðar inni. Og fyrsti rebbarúntur vetrarins var tekinn í kvöld svona til að koma sér í  stuð.

11.04.2008 19:52

Afadagur.

  Það var rennt í morgunkaffið niður í hestamiðstöð. Að því loknu var sturtuvagninn okkar Einars græjaður fyrir skeljasandsflutningana sem Atli og hann voru að dunda við í dag. Við Kolbrún Katla fórum hinsvegar heim því nú var afadagur fram á hádegi  en þá tók ömmudagur við. Sem sagt góður dagur fyrir litlu dömuna.
 Þær bókmenntir sem eru inni í dag eru myndasögur þar sem eitthvað kvikindi er falið í hverri mynd. Nú var farið yfir myndabókina með gula andarunganum og kanínunni.
 Það þýðir ekkert að fletta þessu í einhverju kæruleysi því sú litla hefur mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig á að fara með þessar bókmenntir.Til þess að ná upp réttu stemmingunni á að fletta ofurhægt og afinn á að spyrja með mikilli eftirvæntingu ,"Hvar er litla greyið?" og þó sú litla þekki þetta allt nákvæmlega lítur hún með spurnarumli fram og aftur um myndina og rekur síðan upp mikið fagnaðaróp og bendir á andarungann sem kíkir framfyrir eitthvað. Þá er eins gott að afinn sé klár með sín fagnaðarlæti í framhaldinu því annars fær hann mjög alvarlegt augnaráð og í versta tilviki verður að fletta til baka og endurtaka gjörninginn. Þegar afinn er búinn að fá sig fullsaddan á þessum leikrænu tjáningum finnur hann myndasögu sem farið er að lesa uppúr fyrir hana. Með því að stilla öllu rétt upp og biðja fallega þykist hún vera að lesa sjálf. Þetta fer  fram á mjög trúverðugan hátt ,augunum rennt fram og aftur um síðuna og þulið eitthvað hrognamál sem er að vonum óskiljanlegt en það er þó greinilegt að hún er mun hraðlæsari en faðirinn og tal og framburður minnir óneitanlega á afa hennar þegar hann er kominn á sjöunda glas. Að öðru leiti er ljóst að foreldrarnir þurfa að fara að sinna aganum betur , enda bersýnilegt að afinn og amman eru töluvert frjálslynd í agamálunum.
Flettingar í dag: 3062
Gestir í dag: 117
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 651160
Samtals gestir: 57993
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:36:02
clockhere