19.04.2008 23:28

123.is

 Þetta 123.is dæmi er ekki að virka eftir uppfærsluna um daginn. Öll vinna á heimasíðunni gengur fádæma rólega og þegar heilu eðalbloggin( bestu bloggin náttúrulega ) hverfa þegjandi og hljóðalaust þá !!  Myndirnar sem ég var að setja inn áðan verða kannski komnar inná heimasíðuna á morgun o.sv.frv.

  En það er ekkert lát á góða veðrinu. Nú er ég steinhættur að taka eftir því þegar tjörnin er spegilslétt þó ég sæi að vísu Álftahjónin sem voru þar í morgun.
Það var lokið mykjuakstri og dreifarinn þrifinn  í dag. Kindur settar út og tekin myndasería af tamningahundunum til að eiga stöðuna á þeim .Það eru þær sem eru tíndar úti á netinu.
Lukka frá Hurðabaki var ekki viðlátin, en hún mun ekki sleppa við myndartöku.
 Megnið af útihrossunum á Hestamiðstöðinni rekið heim og fyrsta tilfærsla milli hólfa framkvæmd. Fara þarf með girðingum eftir veturinn áður en endanleg skikkan fæst á þau mál. Nú fer að styttast í að fyrstu tvær hryssurnar kasti, þær Von (mín) og Arna hans Einars.
 Þar sem yngri dóttirin er með Von að láni í folaldsframleiðslunni er spenna í loftinu, en það er Hágangsafkvæmi á leiðinni þar.


 

18.04.2008 23:38

Mótþróaskeiðið.

   Það var ekki slegið slöku við í Dalsmynni í dag (frekar en hina 364 dagana). Atli var að keyra skeljasand fyrir nágrannann en við Katla vorum framundir  hádegi að gera sturtuvagninn okkar kláran í skeljasandinn. Það kostaði símtöl og spæjaravinnu að finna afturhlerann og síðan þurfti að græja hann til svo allt passaði. Það var svona stórsleggjuviðgerð. Þetta varþví engin bókmenntadagur hjá Kolbrúnu Kötlu því hún var svo fegin að komast inn og í dótið sitt að ekki var minnst á bókalestur. Þetta minnti mig á að Móðir mín minnist oft á það(samt ekkert of oft), að ég hafi verið alveg einstaklega þægt barn. Ekkert verið til vandræða fyrr en ég komst á "mótþróaskeiðið".  Reyndar hef ég aldrei spurt hana að því hversu lengi það stóð. Eflaust halda nokkrir(örfáir) því fram að ég sé á " mótþróaskeiðinu" enn og verði um ókomna tíð.. Það var síðan keyrður skeljasandur frá Skógarnesi eftir hádegi.
  Í gær lauk ég við að hræra upp í haughúsinu við gamla fjósið sem tekur síðan dagpart að tæma . Meðleigjandi minn að mykjudreifaranum kláraði í dag  svo morgundagurinn fer í mykjuslúttið þetta vorið. Síðan var rebbarúntur no.2 tekinn og nú sáust 2 mórauð álengdar en kvöldrökkrið  bjargaði þeim í þetta sinn.

17.04.2008 23:29

Veðurfræðingarnir.

    Gömlum kunningja mínum (blessuð sé minning hans) leið alltaf hálfilla þegar gerði góða tíð. Honum varð tíðrætt um að okkur myndi nú hefnast fyrir þetta, hvað skyldi þetta nú kosta okkur o.sv.frv.?. Lengi vel maldaði ég í móinn taldi veðurkerfin ekki sett upp með þetta í huga og færði fram ótal skynsamleg rök gegn þessum fullyrðingum en allt kom fyrir ekki. Þá breytti ég um stíl og fór að hafa miklar áhyggjur. Færði þær jafnvel í tal að fyrra bragði og var uppfullur af bölsýni ef ég hitti kunningjann og það var eindreginn þurrkur á heyskapartíma, eða bara bongóblíða svona óverðskuldað.
 Þá gerðist það að því formyrkvaðri sem ég var af áhyggjum yfir þessu óverðskuldaða tíðarfari þá reyndi kunninginn að slá á mestu áhyggjurnar hjá mér. Þetta yrði nú kannski ekki svo slæmt og óþarfi að hafa áhyggjur svona fyrirfram og honum tókst nú oftast að róa mig niður og við gátum farið að tala illa um náungann eða fara í eitthvað enn skemmtilegra umræðuefni. Nú velti ég því fyrir mér hvernig stóð á því að ekki var glaðst yfir vondu veðurköflunum sem hlytu samkvæmt þessari kenningu að leiða af sér góðviðriskafla sem væntanlega yrðu því lengri og betri sem veðrið hefði verið leiðinlegra.Það er ekki í fyrsta skipti sem góðu rökin uppgötvast ekki fyrr en umræðunni er lokið. Nú held ég að sé rétt að taka upp trú á þetta veðurkerfi kunningjans  með áorðnum breytingum og velta því fyrir sér hversu lengi þessi góðviðriskafli verður.
Flettingar í dag: 3062
Gestir í dag: 117
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 651160
Samtals gestir: 57993
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:36:02
clockhere