28.04.2008 20:04

Hágangssonur fæddur.



  Það blés  kalt um litla Hágangssoninn þegar hann kom í þennan harða heim í morgunsárið. 12- 15 m/sek.. og hiti neðan við núllið þó sólin væri komin upp.
  Hann var þó bara látinn skjálfa sér til hita og þornaði fljótt enda hlýnaði vindurinn með hækkandi sól. Eftir að fylgjan náðist síðan með smá utanaðkomandi aðstoð slakaði merareigandinn loksins á. Folaldseigandinn sem er heimasætan á bænum var löngu búin að  fá sms ið sitt og myndirnar eru komnar  í albúm svo hún geti síðan að lokinni skoðun, aftur farið að snúa sér að próflestrinum. 

  Og plógurinn var settur við. Það gekk að plægja (næstum) frostlausu akrana en þeir með frostskáninni verða geymdir því ekki var hægt að bylta jarðveginum almennilega ofan á klakaskáninni þó það hafi stundum virkað á köldu vori. Það var svo alveg dj. napurt að spúla sandinn/saltið af sturtuvögnunum eftir skeljasandsaksturinn.

 En það hlýnar um helgina.

   

27.04.2008 23:06

Nú andar suðrið sæla!!!!!

   Já kuldagallinn er aftur  kominn á sinn stað í fatahenginu og allt orðið aftur eins og það á að vera hér á Nesinu á þessum árstíma.. Þar sem Hestamiðstöðvarfólkið fór í Skagafjörðinn um helgina,annarsvegar til að vita hvort þar væru enn til nothæfir hestar  og hinsvegar( trúlega) til að kanna hvort einhverjir gætu sungið þrátt fyrir áburðarverðshækkanir og aðra óáran, var ég settur hestahirðir um helgina. Það var létt verk og löðurmannlegt að gefa þessum 30 og eitthvað hrossum með þessa aðstöðu enda ekkert gert annað þar neðra .

  Það var síðan rennt á akrana og skoðuð frostalögin því nú vilja menn að fari að styttast í sáningu. Á flestum ökrunum var um 10 cm.+  niður á klakaskánina sem er misþykk. Nokkur stykki voru samt orðin klakalaus að mestu. Þar höfðu hálmstönglarnir sem stóðu eftir þreskinguna verið í lengra lagi ,safnað í sig snjó og frostið ekki farið eins niður. Þannig að á morgun verður vendiplógurinn settur við og málin könnuð frekar.
 Á túnunum sem tekin verða í endurræktun virtist klakinn hinsvegar eilítið þykkari.

  Ég stóðst svo ekki freistinguna og laumaðist með Týra í nokkrar kindur þó hann sé ekki alveg tilbúinn í það.

26.04.2008 16:40

Reykjavíkurhreppur.

  Ég var búinn að fresta þrisvar nauðsynlegri höfuðborgarferð og nú var hún drifin af áður en aðalvorverkin byrjuðu. Þetta var tiltöluleg stresslaus ferð í  þetta sinn, frúin með til að stjórna mér í umferðinni sem var ekki stresslaus frekar en fyrri daginn en nú fannst manni vera löggur á öllum götuhornum.  Ég er farinn að tala um það af mikilli alvöru að fjárfesta í leiðsögutæki í bílinn en þangað til það kemst í verk er fínt að hafa frúna með, sem að segir hægri/ vinstri með rétta tóninim með hæfilegum fyrirvara. Þegar hún sér að ég átta mig ekki á rauðu ljósi segir hún, kyrr.  Nú var farið á alvörubíl heimilisins því verið var að versla stórt og hann er fyrirferðamikill þarna í þrengslunum, kann betur við sig í sveitinni eins og ég. Það bezta við Rvíkurferðirnar er þegar maður er kominn fyrir Kollafjörðinn á heimleið,laus úr bensín og svifmenguninni.
 Þegar við dóluðum (náttúrulega á löglegum hraða) framhjá Ystu Görðum benti ég mæðgunum á (yngri dóttirin tekin með í sveitina) að þarna væri Þóra vinkona mín fyrir utan húsið sitt og veifaði mér.
Þær mótmæltu því hver sem önnur og fullyrtu að hún væri að dusta eitthvað. Þegar ég spurði hvort það væri Andrés (svona til málamiðlunar) þverneituðu þær því og fékkst ekki frekar úr þessu skorið því Ystu Garðar voru komnir úr augsýn. Ég vona svo að Þóra staðfesti það seinna að hún hafi verið að veifa mér. Nú eða dusta Andrés til, sem væri ekki verra að fá staðfest. Reykjavíkurferðin var jafnframt notuð til að koma Rúnu til síns heima en Asi var farinn norður fyrir nokkru. Þá áttu nú einungis heimahundarnir að vera eftir og frí í tamningum.  Hér er nú samt gestkomandi hann Týri frá Daðastöðum, undan Dan og Pílu, og sannast þar enn og aftur að lengi er von á einum.
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere