13.05.2008 03:43

Akuryrkjan er lottó.

Þyrftum að eiga einn svona.                       Þyrftum að eiga svona græjur hér á Nesinu.



Því verður seint breytt að akuryrkja hér á skerinu verður alltaf áhættusöm. Þegar verið er að samnýta sérhæfð tæki  sem gert er ráð fyrir að komist yfir tiltekinn hektarafjölda í úthaldinu geta komið upp vandræði ef dagarnir verða of fáir haust og vor sem hægt er að vinna við sáningar og uppskerustörfin. Upphafið að hrellingum okkar byggræktenda í Eyjarhreppnum sáluga voru miklar rigningar allt síðastliðið haust. Þær urðu til þess að ekki náðist að plægja akrana fyrir veturinn. Þetta hefði vel sloppið á góðu vori eins og átti að koma núna. Góða vorið hvað akuryrkju varðar kom hinsvegar ekki og kemur ekki héðanaf . Þetta er í fyrsta sinn síðan byggræktin varð alvöru hjá okkur sem við erum að berjast við klaka í ökrunum vel fram í  maí. Við hefðum tekið sénsinn á að sá  bygginu þrátt fyrir frost í jörð ef plægingin hefði verið fyrir hendi og náð að ljúka sáningunni á ásættanlegum tíma. En það eru ekki alltaf jólin og nú er róinn lífróður við að ljúka vinnslu og sáningu og sést ekki til lands enn.  Þó rigningin sé góð og nauðsynleg á þessum árstíma, sérstaklega ef hún er í hófi, virkar hún ekki vel á akrana við þessar aðstæður.
 Það liggur því fyrir að fara verður tvær umferðir(sáð í allt sem fært er ) um svæðið við sáninguna vegna bleytu og ásamt því að við erum þegar orðnir 10 dögum seinni en hollt er, verður ljóst að uppskerumetið verður ekki slegið þetta árið.  Að þessum skelfingum slepptum lítur ágætlega út með vorið ,allt að grænka en kalið kom aðeins við sérstaklega í nýræktunum þar sem allar lægðir sem vatn náði að sitja í lungann af vetrinum munu ekki skila uppskeru. 

  Það liggur svo við að maður fari að vorkenna sér við að lesa þetta yfir.

12.05.2008 04:27

Að loknu orlofi.

 

Nú er dótturdóttirin mætt úr orlofinu, kotrosknari sem aldrei fyrr og hefur lært fullt af nýjungum sem sumar hverjar munu auka vandræði afans og var þó ekki á bætandi.
 Það kom strax í ljós þegar afinn fór að þvo sér um hendurnar fyrir matinn að nú voru breyttir tíma. Sú litla gætir þess að missa ekki af handaþvottinum og var vön því að fá svona tvær salíbunur með puttana undir kranann og síðan þurrkuðum við okkur vandlega. Nú brá svo við að þegar ljúka átti hefðbundnum handþvotti með hraði, því afinn orðinn svangur og steikin komin á borðið, að þetta dugði ekki lengur. Nú var seilst í sápuna og handaþvotturinn framkvæmdur af mikilli alvöru og ljóst að þetta hafði verið gert að mikilli helgiathöfn hjá ömmu í Snartartungu. Þar sem bakið á afanum hefur sín takmörk er ljóst að nú verður að hafa meðferðis stól næst þegar dömunni dettur handaþvottur í hug.
 Ekki fer heldur milli mála að dansæfingarnar hafa verið stundaðar grimmt í fríinu því það eru komin ný spor í gagnið og sýnileg hraðaaukning á steppinu. Þarna hafa líka aukist vandamálin, því nú dugar ekki að slökkva á útvarpinu að áliðnum fréttunum. Það hefur nefnilega einhver kennt dömunni það, að nóg er að grípa einhvern nálægan , draga hann að útvarpinu og benda á starttakkann. Þegar gripið var til þess neyðarúrræðis að stilla á gömlu gufuna svo minna yrði úr dansmússikinni tók ekki betra við. Þá kom nefnilega á daginn að útvarpið var ekkert nausynlegt lengur þegar taka þurfti nokkur spor. Norður í Bitrufirði syngja menn bara "dansi dansi dúkkan mín" með dansinum og fljótlega varð öllum ljóst að það myndi verða raunin í Dalsmynni líka.
  Og enn og aftur er afinn í vondum málum því það er alls ekki fyrr en á tíunda glasi sem hann reynir sönglistina og verður ekki farið nánar út í þá listviðburði hér.

10.05.2008 05:28

Slæmur dagur.

  Það hvessti sífellt þegar leið á daginn og um hádegisleiti var komin slydduóþverri sem ágerðist frameftir degi. Ég ætla nú ekki að lýsa því nánar en þetta var allavega ógeðslegt veður og jörð orðin hvít á tímabili. Byggsáningin var stopp um hádegi og varahluturinn í traktorinn sem beðið var eftir með póstinum(tölvukubbur) kom ekki í póskassann. Þar sem það var föstudagur og löng helgi framundan (nema fyrir traktorinn og bændurna) var öllu póstkerfinu snúið við(þegar ég sleppi mér,sleppi ég mér almennilega) í leit að sendingunni sem sett var í póst á Selfossi daginn áður.  Það var því mikill léttir þegar hringt var frá Jötun Vélum og sagt að vegna mannlegra mistaka væri sendingin enn í póstbílnum og yrði komin til mín eftir hálftíma.

 Til að flýta sáningunni(ef veðrið skánar einhverntímann) var ákveðið að taka tætarann undan sáðvélinni og láta aðra dráttarvél sjá um tætinguna. Þá kom í ljós að farin var lega í enda á rúllukeflinu á tætaranum sem er 4 m. breiður Pöttinger og kl. orðin1/2 fimm á föstudegi.
 Þrátt fyrir að búið væri að loka dótabúðinni á Selfossi náðist í varahlutamann sem var að ganga frá þar. Hann fann legu og svo heppilega vildi til að Bessi (Skagfirðingur) var í dótaflutningum og greip leguna með sér áleiðis. Nágranninn sem var að koma úr bænum lauk svo verkinu og legan var komin á eldhúsborðið hjá mér um  áttaleitið.
  Gærkvöldið var svo tekið í að marka og númera helling af lömbum og magasýrurnar sem höfðu farið á fullt í þessum skelfingum öllum róuðust niður, en það er nú sem betur fer oftast hefðbundinn endi á slæmum stressdögum.

     Já það sýnist svo bara stefna í rólega helgi framundan, eða þannig.
 
Flettingar í dag: 2678
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 650776
Samtals gestir: 57960
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:13:56
clockhere