23.06.2008 21:07

Grenjavinnslan.

 
      Halla Sif enn lítil og saklaus og gamli Remingtoninn enn í notkun. Maður hitti nú oftast  í öðruhverju skoti. Já mikið er langt síðan.
 Þegar ég byrjaði í grenjavinnslunni var vetrarveiðin stunduð grimmt. Þá var veiðin fín og uppí 4 st. lágu eftir nóttina. Nú er maður góður að hafa eitt dýr eftir 4 nætur.


Við reyndum að fara eins hljóðlega og mögulegt var síðustu metrana upp brekkuna að hraundranginum en þaðan sást á grenið sem var í 200 m. fjarlægð. Ég bölvaði fuglunum í huganum sem sveimuðu yfir okkur með aðvörunarhljóðum rétt eins og þeir væru í liði með rebbunum. Það er gott að hafa þá í eftirlitinu þegar legið er á greni en þær eru orðnar þó nokkrar tófurnar sem hafa sloppið  vegnaþessara aðvarana þeirra um að eitthvað varhugavert sé á ferðinni. Grenið var aðeins inni í hraunkantinum og sást raunar ekki í munnana sjálfa. Þarna er læðan og hún veit af okkur hvíslaði sá yngri, og eitthvað af hvolpum líka. Hún hafði greinilega tekið mark á fuglunum og hvarf öðru hvoru en kom alltaf aftur í ljós og leit ákveðið í áttina til okkar. 200 m færi er langt fyrir sveitamennina sem eru aðeins að skjóta nokkrum tugum skota á ári.  40 metrum nær greninu var hæð sem ég leiðsagaði Atla  að, þegar lágfóta lét sig hverfa. Og færið slapp til.
 Við skiptum okkur og hófum svo biðina eftir rebba. Reyndar höfðu fallið í valinn 2 refir af þessu svæði snemma í vor en beðið skyldi samt. Um miðnætti kom demba og í framhaldin dropaði á okkur til kl 3.Og okkur varð kalt að liggja rótlausir í vikrinum þar sem minnsta hreyfing  framkallaði það sem okkur fannst yfirþyrmandi hávaði. Það er á slíkum nóttum sem maður veltir því fyrir sér hvern djö. maður sé eiginlega að gera í þessu djobbi? Uppúr kl  3 færði ég mig til  Atla og við íhuguðum hversu lengi skyldi liggja þarna. Það var ákveðið að þrauka sem lengst og um fjögurleitið sáum við útundan okkur hvar Móri kom með hraunkantinum undan vindi aftan/ til hliðar við okkur og skellti sér inní hraunsprungu sem lá að greninu. Þar kom hann í ljós og þaut þar fram og aftur í sporunum okkar frá því fyrr um kvöldið svo krókloppnir bændurnir áttu fullt í fangi með að ná honum í kíkinn á rifflunum. Það tókst samt. Og fimm hvolparnir náðust næstu tvær næturnar.

  Í Eyja - og Miklaholtshreppnum eru þekkt um 70 gren. Í vor var einungis ábúð á þremur og hefur ekki verið svo slakt ástandið svo lengi sem elstu menn muna. Það er síðan a.m.k. eitt óþekkt gren í gangi núna ,kannski fleiri. Níu " hlaupadýr " hafa fallið í valinn í vetur og vor sem mér er kunnugt um(og eitt hross) . Og vitað er um nokkur dýr, trúlega gelddýr sem hugsanlega eru í hættu í bjartri sumarnóttinni.

   Þeir eru til sem ætla alveg að ærast ef tófa sést á hlaupum en ég er fyrir löngu kominn á þá skoðun að markmiðið sé það að halda fjöldanum hæfilegum svo ekki sjái verulega á mófuglinum. Meira um það síðar.

21.06.2008 08:59

Heyskapur og fuglalíf!


     
         Ósamkomulag á tjörninni hvar yfirborðið er í lágmarkshæð, samt ekki sögulegu.
Hvort það er dóttir eða tengdadóttir sem er mætt á svæðið og hvor aðilinn veldur áreitinu verður hver og einn að spá í. Fleiri myndir í albúmi.


  Ég var löngu hættur að hafa tölu á ungunum sem spruttu út úr óslægjunni og hlupu eins og þeir ættu lífið að leysa á undan sláttuvélinni.Yngri bóndinn sem sló Vallarfoxið með knosaravélinni slapp greinilega mun betur útúr fuglaflórunni.  Stelksungarnir voru mun hlaupalegri en hrossagaukarnir sem kúldruðust áfram og voru skæðir með að fela sig í grasinu þegar átti að fjarlægja þá af túninu. Ég fór gætilega með fyrstu ungana, fór ofaní skurðinn og lagði þá á bakkann á rýgresisakrinum. Þegar stoppin voru orðin nokkur í hverjum hring fengu þeir sína fyrstu flugferð yfir skurðinn og þessir litlu hnoðrar lentu mjúklega hinumegin skurðarins. Það var gaman að sjá að viðbrögðin voru nánast nákvæmlega eins hjá þeim öllum. Þeir hlupu af stað í átt frá mér og skurðinum en voru fljótir að átta sig á því að rýgresið var skammt á veg komið og veitti þeim ekkert skjól . Þá var tekin vinkilbeygja og þeir stungu sér síðan inn í graskragann sem var á skurðbakkanum.  Fuglalífið í sveitinni er með meiri blóma en gerst hefur á háa herrans tíð og stokkendurnir á tjörninni hjá mér eru nú tvær með sinn flotann af ungunum hvor.
 Þeim lendur stundum saman með miklum látum eins og góðum nágrannakonum sæmir.
 Það tókst að rúlla fyrsta heyskapnum samkvæmt áætlun þrátt fyrir að beltalás gæfi sig í rúlluvélinni og eftir að búið var að umstafla fyrningunum var farið að keyra rúllunum heim í gær. Í þeim er þvílíkt gæðafóður að það slær út því fyrsta í fyrra, sem sló út gæðin frá árinu áður o.sv.frv.  Enda forsendan fyrir því að kýrnar mjólki til að standa undir dótakaupunum og náttúrulega rollubúskapnum. Nú er spáð í langtímaspána og velt vöngum yfir hvenær rétti tíminn er að taka restina af fyrri slætti af kúaheyinu.
 Það á aðeins inni í þroskanum en tapist það í viku óþurrk er bóndinn í slæmum málum.
   Reyndar er regnleysið aðeins farið að slá á sprettuna en ég er illa svikinn ef að rætist ekki duglega úr því áður en lýkur.  Rigningarsumarsspáin er nefninlega enn inni hjá mér þó hún rætist vonandi ekki.

     Nú verður reynt að komast á bak um helgina og grenjavinnslupistillinn er væntanlegur á síðuna þegar síðasta grenið hefur verið kannað.   

18.06.2008 20:21

Kýrnar út . Bangsi???

                 Ekki bangsi.Bara hún Emilía að hefja sig til flugs. (Sjá myndir í albúmi.)


  Hvernig er það með þessa heimasíðu, Er ekkert skrifað þar nema um hunda og hross spurði yngri bóndinn og reyndi að gera sig eins önugan í málrómnum og hann mögulega gat.

         Kýrnar eru náttúrulega löngu komnar út þó að þær fái enn  hey að éta eins og þær mögulega geta. Rýgresið sem komst ekki nógu snemma í jörðina í vor,þökk sé bygginu er dálítið langt frá því að gleðja munn þeirra og maga en það er þó á réttri leið.
         Búið að slá hér heima það sem borið verður á aftur og verður það rúllað á morgun. Vallarfoxið hefði þolað nokkurra daga sprettu í viðbót en ekki marga.
 Og stefnt er að því að fara langleiðina með grenjavinnsluna um helgina en þar er það bóndinn sem ákvarðar en tilviljunin og tófan sem ræður. 

  Og bangsi no.2 ákvað að stíga á land og nú voru engin mistök gerð . "Kaffielítan" og þau hin sem elska dýrin og náttúruna öðrum fremur og vita nákvæmlega hvernig þetta virkar alltsaman eru dálítið hrygg yfir málalokum en þessum 5- 10 millj. sem aflífunina kostaði var náttúrulega  ágætlega varið. Það sem bjargaði deginum endanlega hjá mér, var þó kassinn sem settur var uppí fraktflugvél úti í Kaupin. og fluttur til Akureyrar. Það hefði örugglega tekið tvo smiði á Króknum 6- 8 klukkutíma að reka saman svona kassa og staðfesti endanlega hve veruleikafirringin er alger þegar fjölmiðladansinn er stiginn af fullum þunga. Svo er það spurning hvort rétti sótthreinsistimillinn hafi verið kominn á græjuna við lendingu??
 Þegar bangsi no. 3 kemur verða menn reynslunni ríkari og hafa nokkur varðskip fyrir utan til að stugga dýrinu aftur  í land.
  Þá sleppur Björgólfur ekki við að taka upp veskið.

Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere