10.07.2008 10:19

Fimmti göngudagur Múlaskáli-Stafafell


Fyrst ýta til baka og fá smá pláss.

Jibbý, það tókst.

Þá rann upp þriðjudagur 1. júlí lokadagur. Það var greinilega kominn ferðahugur í mannskapinn því upp úr kl 7 voru flestir komnir á stjá. Morgunmaturinn tók langan tíma, menn sátu og spjölluðu, buðu óspart af nestinu sínu. Allt rusl fer með manni til baka, lífrænt verður eftir og er urðað en allt annað þarf að bera upp. Búið var að skipta því nokkra poka sem menn áttu að skipa á sig. Áætlun dagsins var gönguferð um Gjögur, ca 2 tímar. Lýsingin var: Tæp gata í brattri skriðu , ekki fyrir lofthrædda. Amen. Gunnlaugur var búinn að segja okkur frá Sigurjóni útgerðarmanni í Stykkishólmi (Sigurjóni í Langadal)  sem hafði verið þarna á göngu. Hann hafði sagst vera lítið hrifinn af göngum en á Gjögurleið er foss með fallegri steinþró/hyl og þegar hann sá það svipti hann síg klæðum, (tókst að stöðva hann áður en síðasta flíkin fauk) og skellti sér í ískalt bað. Þetta sagði hann að væri það eina sem vit hefði verið alla gönguferðina.

Menn voru misspenntir fyrir Gjögurleið þrátt fyrir loforð um að mega baða sig. Veðurguðirnir voru okkur hliðhollir og það fór að rigna svo ákveðið var að sleppa gönguferð, og flýta aðeins heimferð. Gott að hafa veðurfræðinginn með. Nú hófst mikið pakk, reyna að troða öllu í bakpokann, við máttum skilja eftir mat sem geymist eins og kaffi, haframjöl og þannig. Einnig var von á landverði með rútunni og við máttum skilja eftir álegg, kex og brauðmeti handa henni. Rútan átti að vera á Illahrygg klukkan 1 og labbið þangað svona 40-60 mín eftir gönguhraða. Mér tókst að troða öllu í bakpokann, meira að segja svefnpokanum og dagpokinn komst þangað líka. Ég greip einn ruslapoka og Sif annan og svo var tölt af stað. Við ætluðum að gefa okkur góðan tíma. Það var aðeins sest niður áður en lagt var í Illakamb og m.a. teknar myndir sem gætu kallast:"Svona á ekki að útbúa sig í gönguferð" Það var par með kælibox og stórar íþróttatöskur á bakinu en ekki bakpoka. Svo var lagt í hann. Ég tók tímann, ég var 15 mínútur upp, en það voru erfiðar mínútur. Ekki af því að ég væri hrædd, (kannski pínu) en þetta var bara svo ansk... bratt. Síðastur upp var svo fararstjórinn, ekki að undra með gaskút á bakinu. Rútan mætti svo á tilsettum tíma og það var ákveðið spennufall þegar sest var inn og framundan tveggja tíma bílferð í Stafafell. En það kom smá babb í bátinn. Rútan fór EKKI Í GANG. Menn litu hver á annan minnugir þess að það þurfti að gefa henni start í Eskifellsskála. Karlmennirnir fóru út og kíktu spekingslegir á allt sem gæti valdið þessu.  Eftir allmikiklar spekúlasjónir var ákveðið að reyna að ýta rútunni í gang.  Hugsa sér að ýta rútu í gang á smá plani efst á Illakambi. Menn röðuðu sér framan á rútuna til að fá aðeins meira svæði og svo eftir það að aftan. Jú hún tók aðeins við sér. Önnur tilraun, hún hrökk í gang en drap strax á sér aftur. Ég get alveg viðurkennt að þetta var bæði brjálæðislega fyndið en um leið var maður kvíðinn því hvað ef hún færi nú ekki í gang?

Í þriðju tilraun gekk það,  rútan hrökk í gang í svörtum reykjarmekki. Þá var lagt af stað og ég held að þessi heimferð yfir Kjarrdalsheiðina hafi verið skelfilegasti hluti allrar ferðarinnar. Snarbrattar brekkur, oft þurfti að bakka til að ná beygjunum og svo er þetta ansi hreint hátt (yfir 700 metrar) og þess vegna langt niður. Oftast var maður utan í hlíðunum og þá sást vel niður. Ég hélt mér fast, var ekki við glugga sem betur fer, og augun voru lokuð stóran hluta leiðarinnar. Ég veit vel að þetta var ekkert hættulegt en tilhugsunin um að vera í rútu sem væri kannski ekki alveg í lagi og á svona leið var mér bílhræddri manneskjunni ekki þægileg. En við komumst heil í Eskifellsskálann, þar var tekið dót og svo þurfti að fara yfir Skyndidalsána sem er alls ekki neitt smábíla-fljót. Minnti mig á Krossá í Þórsmörk. Það var góð tilfinning að keyra heim að Stafafelli og sjá bílinn minn þar. Nokkrir ætluðu í sund á Hornafirði en aðrir knúsuðust bless og lofuðu að senda myndir á milli. Við Sif brunuðum af stað í átt til Rvk. Veðrið versnaði eftir því sem vestar dró og meira segja okkur vönum snæfellsku roki var steinhætt að lítast á blikuna. Við stilltum á útvarp og heyrðum um hviður upp á 40 m/sek í Öræfum (komnar fram hjá því og já þar var sko hvasst) og eins undir Eyjafjöllum. Í Freysnesi var jafn vindur upp á 25 m/sek en á veðurskiltum þarna sjást ekki hviður. Við bitum á jaxlinn og héldum áfram, lentum í leirfoki svo ekki sást handa skil en hvíta línan sást. Í Vík ákváðum við að stoppa, fá okkur kaffi  og hringja til að fá upplýsingar. Ég talaði við Svan sem hélt að það væri að lagast. Ég hringdi líka í þau á Vatnsskarðshólum og þau bönnuðu mér að halda áfram. Það væru bílar/fellihýsi að fjúka þarna rétt ofan við Vík og hviður í 39 hjá þeim. Sif átti frænku í Vík og við þangað. Reyndar var frænkan ekki heima en tvær gamlar frænkur (föðursystir Sifjar og mágkona hennar held ég) tóku vel á móti okkur. Fyrst ætluðum við bara að bíða e-ð þarna en eftir myndir af fjúkandi tjöldum á hestamóti og slæmu veðri undir Eyjafjöllum var ákveðið að gista. Því miður gátum við ekki komist í sturtu þar því verið var að taka baðið í gegn.

Eftir að hafa skilað Sif til síns heima fór ég til foreldranna, dreif mig í sturtu, fór yfir ferðasöguna um leið og ég fékk mér smá næringu áður en stefnan var sett heim.

Þetta var frábær ferð, ekki of erfið en reyndi samt á. Skemmtilegur hópur sem hristist vel saman og frábær fararstjóri. Ég fékk engar blöðrur eða harðsperrur, eina sem ég fann fyrir var hnéð sem lét svona aðeins vita að því þætti nóg komið. Jú og nöglin á vinstri stórutá blánaði. Hefur e-ð nuddast illa við skóinn.

Þannig að við Sif ætlum að hittast í sumar, ganga á Hrútaborg og ákveða ferð næsta sumars. Einhverjir sem vilja vera memm?

10.07.2008 07:09

Hundasjó og heyskapur.

 

         Hversvegna er íslenska lambakjötið svona dýrt í Danmörku spurðu danirnir??

Það var staddur hjá mér 35 manna hópur af dönskum ferðamönnum og eftir að Vaskur hafði leikið fyrir þá listir sínar, endaði heimsóknin i nærri klukkutíma spjalli.
 Spurningin kom eftir að ég hafði haldið yfir þeim tölu um frjálsræðið á kindunum yfir sumarið,  uppi á fjöllum. Þar gengi það sumarlangt algjörlega laust við eftirlit og lyfjagjafir öfugt við fé í Evrópu og Nýja Sjálandi!!!  Ég ætla svo ekkert að upplýsa ykkur nánar um hvernig ævintýralegum smalamennskunum var lýst!

       Gædinn  með hópinn,dani sem talaði reiprennandi íslensku, kom með álíka hóp til mín í fyrra. Þá urðu miklar umræður um það hvort heilu fjöllin gætu virkilega verið í eigu einstakra bænda. Nokkrar ungar konur í hópnum trúðu því ekki. Reyndar vissi ein þeirra til þess að ríkið væri reyndar að koma skikk á hlutina og taka fjöllin og hálendið til sín hvort sem bændunum líkaði betur eða verr.
  Heimsókninni lauk svo með því að ég ætlaði að sýnu yngstu dönunum hvolpana mína en þeir eldri létu ekki hafa það af sér og endaði þetta því með sýningu á allri ættinni.
 Það var stafalogn og kvöldsólin var á síðustu metrunum. Gædinn heldur örugglega að svona séu kvöldin á Nesinu, því þetta var alveg eins í fyrra.

 Það er ekkert lát á þurrkunum og grasinu/heyinu var komið í plast, vel þurru eftir sólarhring án þess að vera nokkurntímann snúið. Aðeins múgað nokkrum klukkutímum fyrir rúllun sem dugði til þess að fersku tuggurnar þornuðu . Rúllurnar voru svo drifnar heim því það er allskonar brambolt  framundan næstu dagana.

   Já það mætti alveg rigna í nokkra daga.

 

 

09.07.2008 15:01

Fjórði dagur Leiðartungur-Tröllakrókar-Víðidalur


Stórihnaus

Leiðin niður meðfram Stórahnaus
Þá var runninn upp mánudagur, frekar kaldur og nú voru dregnar upp síðu ullarnærbuxurnar hans Svans. Farið var af stað fyrir kl.10 og gengið sem leið lá inn Leiðartungur, víða kjarri vaxnar og eftir svona tveggja tíma labb var tekin góða pása því framundan var tæplega tveggja tím ganga upp á við, samt ekkert voðalega bratt. Það blés köldu enda skriðjökull þarna framundan og allir fegnir þegar pásunni lauk og hægt að fara að ganga sér til hita. Þegar upp var komið var gengið inn með gilinu og að tröllakrókum. Það  eru 7 km langir og nokkuð hundraðmetra háir móbergsveggir, allir mótaðir af vindi, vatni og jökli í alls konar form. Verulega stófenglegt. Ég gætti þess að fara ekki of nálægt brúninni! Þegar allir höfðu myndað nóg var gengið þvert yfir hásléttuna í átt að Víðidal. Ekki var tími að fara niður í hann að þessu sinni. Þar var búið fram undir lok 19 aldar, langt þaðan í næsta kaupstað. Gunnlaugur fararstjóri hafði látið brúa ána, við það meðal annars notuð þyrla, en brúin hafði farið fyrir 2-3 árum. Ofan í dalnum töldum við vel á annaðhundruð hreindýr. Einn ferðafélaginn átti veiðileyfi á hreindýr á þessu svæði og var held ég strax farinn að kvíða burðinum á tarfinum sínum úr dalnum til byggða. Vonandi verða dýrin kom nær vegasambandi í ágúst. Gunnlaugi langaði að fá GPSmælingu á gömlu leiðina upp úr dalnum og fékk Ingvar með sér. Þeir skokkuðu niður í dalinn að brúarstæðinu og svo varðaða leið til baka. Við hin gengum af stað eftir stikuðu leiðinni og þeir voru ótrúlega fljótir að ná okkur. Þarna var klukkan farin að ganga sex og til stóð að grilla lambalærin um kvöldið. Gunnlaugur fékk 2 léttfætta karlmenn (karlar grilla) með sér og ætluðu þeir að hraða för til skálans og kveikja upp og undirbúa grill. Á leiðinni höfðum við tínt einiber, blóðberg og birki til að krydda með. Grillmeistaranir töltu af stað og sást síðast til þeirra renna sér fótskriðu niður skriðurnar. Við hin gengum hvert á sínum hraða eftir vel merktri slóðinni. Síðasti hálftíminn var eftir flottri giljaleið með svipuðum þiljum og í Þilgili enda beint á móti þeim. Einnig var þarna ægifagur hvítgráblár kambur sem ég held að heiti Stórihnaus. Svolítið var þetta bratt á köflum, verst þegar eru brattar klappir með steinum oná. Þá væri gott að hafa eitthvað til að halda í. En við vorum farin að sjóast og gengum þetta tiltölulega óhikað, kannski ekki eins og fjallageitur en í áttina.

Menn voru duglegir að ljúka öllu hjartastyrkjandi þegar heim kom, gengu tappar með ýmsum "meðala"tegundum milli manna. Læri og meðlæti smakkaðist vel, dregnir voru upp rauð/hvítvínskútar, ótrúlegt hvað borið hafði verið niður Illakamb. Þegar uppþvotti og tiltekt lauk hófst kvöldvaka. Gunnlaugur stjórnaði og kynnti menn til leiks. Naut hann aðstoðar þjóðþekktra landsmanna við það, enda mikil eftirherma. Þegar kvöldvöku lauk komu í heimsókn gestir úr hinum skálanum, útvarpsfólk sem ætlaði að vera 2-3 daga á svæðinu. Sif varð verulega lúmsk og náði í hitt og þetta úr matarpokunum og bauð gestum. Sá fram á að þá þyrfti ekki að bera eins mikið upp næsta dag. Ein skálareglan hljóðaði upp á að ró skyldi vera komin um miðnætti og voru gestir farnir um það leyti. Önnur regla segir að skálaverði sé heimilt að vísa mönnum úr skála, neyti þeir áfengis UM OF. Hvað nákvæmlega þetta um of merkir vissi samt ekki  skálaverjan hún Katrín. En sem sagt allir komnir til kojs um miðnætti og ég get alveg viðurkennt að heiti potturinn og rúmið mitt voru farin að leita töluvert á hugann.
Tröllakrókar

Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere