24.08.2008 23:14

Landbúnaðarsýningin.



       Það hefði alveg mátt viðra betur fyrir dótafyrirtækin sem voru búin að koma upp veglegum sýningum á svæðunum sínum á Gaddstaðaflötum. Það var þó mun skárra í dag en mér fannst þó aldrei mikið af fólki þarna vélamegin, enda lá vélasvæðið einhvernveginn illa við hinum hluta sýningarinnar. Maður fékk á tilfinninguna að þarna væru tvær sýningar í gangi. Ég hef það svo eftir áreiðanlegum heimildum að mun færri hafi komið á sýninguna en verið er að tala um. Þetta var samt verulega yfirgripsmikil sýning og  kvöldvakan  fín.

  Sýningarrollurnar mínar voru verulega erfiðar til að byrja með. Þegar ég ræddi við bóndann fyrr í vikunni sagðist hann hafa verið hundlaus í sex ár. Þegar mér hafði tekist með miklum harmkvælum að þvæla tveim tvílembum uppá kerruna sagði hann mér hinsvegar að fyrir nokkrum árum hefðu komið til sín hundamenn að fá kindur fyrir svipaða sýningu en hefðu gefist upp á rollunum. Hann bætti því svo við að á næsta bæ væri hundur sem væri stundum notaðu þarna. Sá legði umsvifalaust á flótta ef kindurnar væru eitthvað að bögga hann. Þetta slapp þó til og í dag voru þær orðnar
þjálar og fínar svo ég gat farið með þær úr hólfinu í sýningunum.


          Það kom að því að sú svartbotnótta sneri réttum enda að félaga Vask.

  Ég hef stundum haldið því fram að íslenskir bændur væru ekki mikið inni í hundaræktinni en það afsannaðist rækilega þegar þeir fóru að leggja mat á hvolpana mína um helgina. Álitið hjá öllum sem börðu þá augum var samdóma og greinilega þekkingarfólk á ferðinni( eða þannig   ). Það var síðan yfirlýst markmið hjá mér að selja einungis hvolpana á sauðfjárbú, enda sagði ég einum  þéttbýlisbúanum það, að hann yrði að fá sér jörð og nokkrar rollur  svo ég seldi honum hvolp. Hann sá við mér og setti konuna sína í samningamálin, svo nú er "Snillingur" litli kominn með lögheimili á Selfossi.


    Það er vel hægt að hafa dálítið fyrir því að eignast svona hvolp.




  Og nú á  ég  enga hvolpa lengur.

22.08.2008 19:53

Landbúnaðar og hundasýning!




             Nei, það verður ekki boðið upp á sex hunda sýningu núna.

 
Það er mikil hundahelgi framundan hjá mér, því til að lyfta upp stemmingunni á dótasvæðinu á Landbúnaðarsýningunni hafa þeir hjá Jötun Vélum fengið mig til að vera með extra prógramm við sýningarsvæðið þeirra.

  Það verðu því brunað austur  í bítið ,komið upp  kindahólfi og sóttar rollur á nærliggjandi bæ. Það er þó dálítil óvissa í kortunum því kindurnar eru á hundlausum bæ og enginn tími til æfinga sem er þó alltaf forsenda fyrir öllum góðum sýningum með allt dýrakyns.

  En er það ekki áhættan sem gefur sumum hlutum sérstakt gildi?? 
   

20.08.2008 21:14

Hvolparnir..





  Við erum svona spekingslegir á svipinn því það er verið að leggja okkur lífsreglurnar fyrir landbúnaðarsýninguna.

 
Hvolparnir hafa dafnað vel og án þess að ég geri upp á milli gota hjá mér, get ég sagt með góðri samvisku að þetta er jafn og skemmtilegur hópur í daglegri umgengni. Þó er farið að koma í ljós að þarna eru misjafnir einstaklingar á ferðinni eins og alltaf í þeim gotum sem ég þekki.
 Þeir eru misfrakkir, mishlýðnir og misskemmtilegir en samt er enginn útúr og eins og fyrr segir er hópurinn ótrúlega jafn.

 Nú er það spurningin hversu margir skila sér til móðurhúsanna eftir helgina?
Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere