24.10.2008 20:00

Lægðirnar.


  Nú dynja á okkur lægðirnar, hver á fætur annarri , bæði af náttúrulegum völdum og mannavöldum.
Þessar náttúrulegu eru í lagi enn, en  efnahagslegu lægðirnar eru vondar. Góðu fréttirnar eru þó að olían lækkar og hluti áburðarverðsins fylgir henni  niðurávið. Svo verðum við að trúa því að krónuræfillinn hressist fyrir vorið ( helst fyrr).

  Sauðfjárbændurnir sem ég heyri í þessa dagana eru ekki mjög kátir. Þeir sem voru ákveðnir í að kaupa ekki áburð í vor og hætta næsta haust eru hugsi,  því að hverju er að hverfa á Íslandi í dag? 
 
Einn þeirra benti mér á það í dag, að þegar meira en helmingurinn af tekjunum, færi í áburð, plast og olíur væri þetta orðið dálítið vonlaust. Annar velti því fyrir sér hvort ekki væri rétt að láta bara allt fara á hausinn sem gæti farið á hausinn og vita hvað gerðist í framhaldinu. Þetta var nú reyndar fyrrverandi austurbakkamaður, en austurbakkamenn eru eins og allir vita, ráðsnjöllustu og framsýnustu menn á töluvert stóru svæði og þótt víðar væri leitað.
 
 Það er ótrúlega hljótt um það, hve mikil tregða er á öllum innflutningi. Þeir sem t.d. sjá um varahlutaþjónustu fyrir allt dótasafn landans, bæði þetta nauðsynlega og allt hitt, ná engu inn og hlýtur að stefna í veruleg vandræði þar. Eins gott fyrir bændavarginn að hábjargræðistíminn stendur ekki yfir í dag.
 En nú er það útflutningurinn sem gengur. Hrossasalan takmarkast af útflutningsgetunni í fluginu og það sem snýr að okkur dótafíklunum er að ákveðnar notaðar dráttarvélar seljast út á þvílíku verði. Það nýjasta í bíssnisnum er sú hugmynd að flytja út tiltölulega nýlegar vélar og endurnýja þær síðan þegar krónan verður orðin stór og sterk á ný.

  En ætli sé ekki rétt að byrja á því að flytja  útrásarliðið út eins og það leggur sig??? emoticon
Flettingar í dag: 281
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 1053
Gestir í gær: 39
Samtals flettingar: 423730
Samtals gestir: 38565
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 23:18:05
clockhere