27.09.2015 20:04

Styttist í lokatölur sauðfjárársins.

  
  Nú er mesta fjáramstrið að baki.

 Aðalleitum lokið en þar sem vantar enn 6 samstæðar tvílembur og 2 veturgamlar með lömbum verður eitthvað dólað um fjöllin þá daga sem gefur. 




Þessar heimtur eru einstaklega slæmar og verður einmuna góðri tið og sprettustigi fjallanna kennt um.

 Búið að taka frá líflömb og fara gróflega yfir sláturfé sem verður allt tekið   8 okt . 

 Það er alltaf smáspenningur í gangi við vigtun og ómskoðun í líflambavalinu .

Þá fara línurnar að skýrast um afkomuna þetta árið.

 Vænleikinn var nú ekki eins og maður vonaði en samt skárri en í fyrra sem var vonandi svona botnár í framleiðslunni.

 Við ásetninginn á gimbrunum er markið sett á að bakvöðvinn sé yfir 30 og lærin 18 + , vigtin yfir 37 kg. síðan er farið yfir ætternið áður en dæminu er lokað.


               Allt á fullu við lambadómana.

 Bakvöðvamarkmiðið er farið að nást nokkuð örugglega ( mætti hækka það ) en það stendur aðeins útaf borðinu með lærastigin En þar sem 18,5 og 19 stiga lærin eru mun fleiri en þau sem ekki ná nema 17.5 ber maður harm sinn í hljóði. Það verða svo væntanlega samþykkt afbrigði fyrir eina mislita sem er undirmáls í bæði baki og lærum, enda við harðskeytt barnabörn að etja þar.


                           Þarna er sú mislita , fjarska falleg .emoticon

 Það náðust líka ásættanlegir ásetninghrútar þó maður sé nú aldrei ánægður með úrvalið á þeim. 


                Þessi, að vísu undan Ássyni sló sæðingana út.

 Og eins og alltaf þegar uppskera  sauðfjárársins fer að skýrast þá heitir maður sér því að standa sig nú betur næsta ár. emoticon

 

25.09.2015 22:00

Nákvæmnisvinnan í eftirleitarharkinu .

 Upptíningur í Þverdalnum.


  Það getur verið nákvæmnisverk að senda hunda langar leiðir eftir fé og láta þá koma því til manns, án þess að ganga fram af því eða klúðra einhverju, þannig að það verði að fara og aðstoða þá.



 Þá er eitt af  grundvallaratriðunum að þeir haldi sig frá því og gefi fénu kost á að koma sér áfram án of mikilla afskipta. 

 Þarna er byrjað á að taka þær frá gilinu til vinstri og síðan er þeim haldið frá því áleiðis niður.

Slóðin á nákvæmnisvinnuna .  HÉR




 Nú er bara að dóla  heim .

24.09.2015 08:37

Alveg fáránlegt verð á hundkvikindi ;)

 Þetta er bara rugl ! 500.000,  hver heldurðu að kaupi hundkvikindi á það  ? spurði viðmælandinn, - og meinti það held ég :

Hann hafði hringt í mig til að velta vöngum yfir hvolpum annarsvegar og frumtömdum eða mikið tömdum hundum hinsvegar.

 Ég velti staðhæfingunni aðeins fyrir mér og ákvað svo að taka þennan náunga og valta rækilega yfir hann emoticon .

 Hvað hefur þú keypt marga hvolpa síðustu tíu árin spurði ég ?

Það kom verulegt hik á viðmælandann, svo sagði hann gætilega, aa svona 4 - 5 held ég.

 Ok  sagði ég, (og hugsaði með mér að þeir hefðu örugglega verið fleiri) og hvað varstu að borga fyrir þá ?

 Svona 30 - 50. 000  kall.

Já, og gefurðu þeim þurrfóður spurði ég ?

 Já , sagði náunginn og var trúlega að velta fyrir sér hvað djöf. þvælu hann væri kominn í  emoticon .

 Ok sagði ég og hefur enginn hvolpanna  orðið nothæfur .

Neei svaraði náunginn dræmt, ekki almennilega .

Ég ákvað að velta því ekkert upp hverju það væri að kenna, enda kom það málinu ekki beint við.


 Já sagði ég, þú  ert þá að eyða um 120 -140. 000 kalli á ári í fóður.

 Það þýðir að þegar þú afskrifar hvolpinn um tveggja ára aldur eins og þú virðist hafa verið að gera , ert þú kominn með útlagðan kostnað uppá um 300. 000 ,- og stendur í sömu sporum og tveim árum áður . Búinn að vera hundlaus þennan tíma og verður það næstu tvö árin þangað til þú afskrifar næsta hvolp.

 Náunginn svaraði þessari ádrepu ekki.

En ég var bara rétt að byrja.

 Ef þú hefðir keypt þér góðan taminn 2 ára hund, engan 10 stjörnu en kannski ágætan vinnuhund á 400. 000 fyrir tveim árum, hefðirðu fengið hann tilbúinn í vinnuna.

 Hann hefði þá átt að eiga  6 - 8 góð ár eftir og þú hefðir losnað við fullt af vandamálum og leiðindum.

Þyrftir bara að fara að huga að endurnýjun við 8 -9 ára aldurinn.

  Þetta er nú ekki svona einfalt, maldaði náunginn í móinn. 

Hann rökstuddi þá staðhæfingu sína samt ekkert frekar .

 Ég ákvað að sauma ekki frekar að honum, óskaði honum góðs gengis við að að koma sér upp góðum fjárhundi  og kvaddi.

Hinn ánægðasti með símtalið emoticon .




Flettingar í dag: 2678
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 650776
Samtals gestir: 57960
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:13:56
clockhere