07.12.2008 23:23

Mannlíf á folaldasýningu.




  Það var talsvert á annað hundrað manns á sýningunni á hestasmiðstöðinni í dag og 72 folöld skráð.

Þetta er nú bara í þriðja sinn sem ég mæti á svona sýningu og mér er minnistæð sú fyrsta. Folöldin voru fín en tvennt fór í pirrurnar á mér . Annað var hve þetta gekk seint því alltaf var bið milli sýningahollanna. Hitt var mismununin sem sýnendurnir virtust sæta , því meðan það voru kannski 3 folöld í holli voru sum folöldin sýnd  eitt í einu , sem var heldur ekki til að stytta sýningatímann.

  Hestamiðstöðvarliðið sem var einnig þarna leit þetta sömu augum og þegar folaldasýningin var í hestamiðstöðinni í fyrra var þetta tekið föstum tökum, alltaf tvö folöld í sýningu í einu og sýningin gekk viðstöðulaust eða einungis nokkrar sekundur milli holla. Svona gekk þetta líka í dag en það var Hrossaræktarsamband Vesturlands sem sá um keppnina.



   Meðan bóndinn afgreiddi áríðandi símtal fylgdust betri helmingurinn og tengdadóttirin áhugasamar með sýningunni.



  Og það var verslað. Fáskrúðarbakkabóndinn( t.h.) kom með 7 st. þar af 5 skjótt undan Guðfinni Glymssyni og seldi a.m.k. 3.  Ég held nú samt að hann eigi það besta eftir óselt og þarf að skreppa í kaffi til hans. Þessi í jakkanum er orðinn áskrifandi því hann keypti líka í fyrra.


 Það komu til sýningar folöld frá 11 bæjum í Eyja- og Miklaholtshrepp og Hrísdalsbóndinn lék á alls oddi  frá upphafi til enda, mættur með 7 st. hvert öðru álitlegra.



  Afastelpunni leist alveg rosalega vel á verðlaunin- en hún átti ekkert folald.(Skil ekkert í mömmu hennar.)


 Þá er bara að bjarga sér sem best maður getur.



 Þessi lagði á sig lengsta ferðalagið og hlýtur að hafa verið nokkuð sáttur við úrslitin um það er lauk.

  Þar sem ég er í fréttabanni( harður heimur bloggheimurinn) bíða flottu folaldamyndirnar betri tíma.
En kíkið á Söðulsholtssíðuna, þau sem hafa áhuga á hinni hlið sýningarinnar.

Svo tek ég þetta næsta haust.emoticon








07.12.2008 00:16

Aðventukvöld.


   Það var vel mætt á hið árlega Aðventukvöld sem að þessu sinni var haldið í Lindartungu í umsjá  sóknarnefndar Kolbeinstaðarsóknar.
  Og hafi einhverjir borið kvíða í sinni vegna kreppunnar, hvarf hann sem dögg fyrir sólu .þegar séra Guðjón sem er að mæta til starfa eftir löng og erfið veikindi, fullvissaði okkur um að hann og umbjóðandi hans myndu beita sér fyrir því að margumrædd kreppa myndi allavega sneyða framhjá öllum bæjum í hans sóknum.



 Börnin í kór Laugargerðisskóla sungu eins og englar en  þetta eru vonandi eðlileg börn og eru kannski ekki alltaf eins og englar þess á milli.



 Kirkjukórinn okkar söng svo af mikilli innlifun og kom okkur í endanlega jólaskapið.

 Hafi svo vantað uppá réttu stemminguna hjá einhverjum, var Diddú mætt á svæðið og fór á kostum eins og henni einni er lagið.



  Já það var greinilega eitthvað í gangi.



  Og jólasveinninn var mættur og hlustaði líka á Diddú.



  Þegar að söngveislunni lauk tók við mikil kökuveisla sem var mikil og góð æfing fyrir komandi jólavertíð.


  Ég vil svo þakka margar góðar kveðjur til mín og heimasíðunnar minnar.
Þær eiga eftir að hressa við egóið hjá mér þegar ég sit við tölvuna með ljóðlínur snillingsins frá Skáholti í kollinum.

 Ég sit hér einn, með sjálfstraustið mitt veika. o.sv. frv.emoticon




05.12.2008 20:34

Ársgömul heimasíða.



  Nú er heimasíðan mín ársgömul í dag.emoticon 

 Ég hafði gengið með það í maganum nokkurn tíma að koma upp heimasíðu en netsambandið bauð ekki upp á það hér á sunnanverðu nesinu. Þegar svo það átti að verða alvöru samband, var látið vaða á þetta en því miður er sambandið ekki alvöru enn og þessvegna fer verulegur tími í úthaldið sem annars myndi ekki taka langan tíma eins og ég vinn þetta.

  Þegar lagt var upp var stefnan vægast sagt óljós, enda hefur orðið ákveðin þróun á síðunni þennan tíma. Mesta spurningin var hvernig standa ætti að blogginu. Þeirri spurningu er reyndar ekki svarað enn.

  Mér finnst mjög notalegt þegar ég fæ comment og kvittun í gestabók og þakka öll slík á árinu. 
Allt slíkt hleypir ákveðnu lífi í hlutina og gerið lífið skemmtilegra.

  Þeir eru svo orðnir þó nokkrir sem taka mig tali og segjast kíkja hér reglulega inn þó þeir einhverra hluta vegna kvitti ekki hér. 
  
 Og ég hafði gaman af því þegar kunningi minn á malbikinu, hringdi óvænt í mig í fyrradag og spjallaði lengi við mig um landsins gagn og nauðsynjar. Ég var svo farinn að velta því fyrir mér hvern þremilinn hann væri nú að vilja mér, þegar hann sagðist nú bara hafa hringt til að  þakka mér fyrir heimasíðuna sem hann fylgdist reglulega með. Fallega gert af honum.

 Helsta breytingin í farvatninu er sú að ég mun bæta við vefsíðu (vafraðu um listinn.) hér til hliðar sem mun  tilheyra sveitarfélaginu mínu, Eyja- og Miklaholtshrepp. Þar munu verða fréttir af því sem þar er á döfinni , birtar fundargerðir eða útdráttur úr þeim o.sv.frv.  Laugargerðisskóli mun að sjálfsögðu falla undir þann lið með sama hætti enda verður seint skilið þar á milli.

 Þetta mun væntanlega verða  virkt með nýju ári.

  Já, og takk fyrir þetta fyrsta ár. emoticon  


 

 
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere