10.12.2008 08:53

Útigangur og olíuþefarar.


 Helgin og það sem af er vikunni hefur snúist um hrossin.  Mánudagurinn fór í að keyra út úr stíunum  í Hestamiðstöðinni sem voru orðnar vel fullar. Hálmurinn/skíturinn er keyrður í safnhaug sem er látinn brjóta sig í 1-2 ár svo er honum ekið í akrana og plægður niður. Reyndar er hefð fyrir því víða í sveitum að slíkir haugar verða að hólum í landinu.

 Í gær var stóðið síðan rekið heim og skipt niður í gjafahólfin. Reyndar á eftir að taka tryppin úr merarhópnum. Nú er semsagt allt komið á gjöf.
       Bakkus, Funi, Hrímfaxi og Háfeti voru   orðnir langeygir eftir þjónustunni.

 Tittirnir sem eru hér upp frá, fengu fyrstu rúlluna sína í gær. Þessir skrautlegu, eru hugsanlega falir ef menn, sem vanta gott reiðhestefni eða e.h. skrautlegt í ræktunina, hitta Einar í prúttstuði.



   Það er svo ekkert vandamál að láta Funa sýna réttu hollninguna ef því er að skipta.

Og rollurnar sem hafa haldið sig uppí klettum í haust og verið látnar óáreittar að mestu ákváðu allt í einu að nú væri nóg komið, og  fyrst Þorleifur sótti þær ekki væri best að koma sér sjálfar til byggða.
.


  Skýringin gæti þó legið í því að lambið sem var talið vera með kúlur reyndist kúlulaust og til lítils gagns að sinna þörfum ánna á þessum árstíma.

 Á mánudeginu mættu svo í Dalsmynni opinberir embættismenn til að kanna hvort bændurnir ækju hér um allar sveitir á litaðri olíu. Ekki hefur liðið átt von á góðu því þau komu 4  á tveimur bílum sem sýnir að það er ekki kreppusparnaður í þessum málaflokki.

  Sem betur fer fyrir þau, var eldri bóndinn í skítakstri á næsta bæ, en hann getur átt það til að vera afspyrnuleiðinlegur við svona fólk, sem er nú bara að vinna vinnuna sína.
 Þau sluppu því við að vera rukkuð um húsleitarheimildir og dómsúrskurði fyrir því, að vaða í annarra manna bíla, enda yngri bóndinn annálað prúðmenni með engilhreina samvisku, allavega hvað litaða olíu varðar.

 Já, við munum því ganga lausir enn um sinn,  Dalsmynnisbændur.emoticon

 
Flettingar í dag: 1434
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 2486
Gestir í gær: 103
Samtals flettingar: 448735
Samtals gestir: 41424
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 20:57:49
clockhere