07.01.2009 23:07

aukakílóin og kreppan.



                Eftir óvanalegt annríki hjá mér í haust og vetur, var slakað á um jólin.
 Reyndar fer  ég í fjós flesta daga og ekki er féð svelt, en öllu öðru er haldið í lágmarki.
Aukakílóið + frá fyrri jólum náðist aldrei til baka og trúlega fer eins með það sem bættist við núna.

 Og  þó, kannski þau hverfi í kreppunni.emoticon 

 Það tekur svo alltaf góðan tíma að koma sér í gírinn aftur, en þó var drifið í því í dag að keyra út undan fénu í gömlu fjóshlöðunni. Það hafði verið ákveðið að fresta því í haust vegna lágrar stöðu taðgólfsins en nú horfði til vandræða hjá þeim veturgömlu.
 Þetta er létt verk og löðurmannlegt eftir að Sjeffer hestamiðstöðvarinnar mætti til starfa í sveitinni, en hann læðist um allt án mikilla forfæringa á milligerðum.



  Þetta skotgekk og ég minntist þess þegar maður bar taðið á sjálfum sér í gamla daga og munaði náttúrulega ekkert um það.



  Þessi tekur samt aðeins meira í ferð og ótrúlegt hvað þetta kríli réði við.
Það rigndi svo alveg stanslaust í allan dag, og gerir enn. Það væri komið gott snjósleðafæri ef þessi úrkoma væri öll í föstu formi. Jörð er að verða klakalaus á ný og vélamaðurinn á bænum hyggur á skurðgröft á morgun og ýtuvinnu eftir helgina.

  Ég mun hinsvegar bregða mér norður yfir heiðar á morgun með hestakerru meðan hálkuleysið varir.

    Ætli sé eitthvað til sölu, af efnilegu á tamningaraldri í húnaþingi?emoticon 

 

06.01.2009 20:28

Hvítþvottur og pólitík.

 
        Nú eru þeir, háttvirtur forseti vor ásamt honum Bjarna  Á. búnir að lýsa iðrun sinni yfir því að hafa ekki séð í gegnum plottin í tíma. Þeir eru samt sem áður algjörlega saklausir af þessum skelfingum öllum saman og enginn minnist á fjölmiðlalög né viðtölin við Bjarna þegar hann varði þetta allt vasklega, þegar erlenda umræðan var í gangi í fyrravetur.
  Og pólitíkusarnir sem létu allar viðvaranir sem vind um eyru þjóta eru enn saklausari, þó geislabaugarnir  þeirra séu nú úr sama efni og nýju fötin keisarans.
  Seðlabankastjórinn sem vissi þetta auðvita allt fyrir löngu, hefur marglýst því yfir, að enginn hafi tekið mark á honum þegar hann benti á  hvað væri að gerast, situr náttúrulega sem fastast líka, þó nú sem aldrei fyrr þurfi að hafa seðlabankastjóra sem tekið er mark á.
  Það sem er grafalvarlegt í málinu er að þrátt fyrir hvað hefur gerst er ekkert breytt. Sömu pólitíkusar, fjármálaeftirlit o.sv.frv.  Næstum sama fólkið í bönkunum. Topparnir hætta að vísu en næstráðendur eru færðir upp um eitt þrep í stjórnuninni. Nú er bara að afskrifa skuldir og koma þessu síðan í sömu hendur í rólegheitum. 

  Og svo er allt að gerast í pólitíkinni. Ég hef trúað því, að nú hljóti að koma fram framboð sem móðurleysingjar eins og ég, í pólitíkinni geti kosið. ( Ekki e.h. ruglframboð, heldur alvöru.)
 Eina sem gæti komið í veg fyrir það yrði veruleg uppstokkun í gömlu flokkunum.

  Og viti menn . Frammararnir ríða nú á vaðið og þó atburðarrásin sé að vísu nokkuð tilviljunarkennd er greinilega mikið fjör framundan. Framagosarnir hafa greinilega áttað sig á því, að takist að koma gamla flakinu á flot og á nokkra siglingu, gæti verið  til mikils að vinna. Það er nefnilega nokkuð ljóst að moldarkofaflokkurinn verður ekki talinn vænlegur til samstarfs að loknum kosningum, hvenær sem þær verða.


Og þegar að þessu dimmviðri lýkur, munu menn sjá að daginn er loksins tekinn að lengja.emoticon 


 

04.01.2009 20:04

Brennan mikla.


  Það er komin hefð á brennuna í Söðulsholti og þó Einar láti í það skína árlega að nú verði þetta síðasta brennan,  er fyrr en varir kominn mikill spýtuhaugur á holtið hjá honum.

 Gærkvöldið var tekið í brennuna sem er því sambland af áramóta og þrettándabrennu.
Þetta er í leiðinni hálfgert ættarmót hjá Einari og Ingu, því börnin og barnabörnin mæta gjarnan og slútta jólunum í sveitinni.



  Það hefði alveg mátt vera aðeins minni hreyfing á súrefninu en þetta var þó í lagi enda hlýtt í veðri.
Hrossasmalarnir hafa í nógu að snúast því bóndinn splæsti auðvitað í alvöru flugeldasýningu enda á þetta að sjálfsögðu að vera síðasta brennan.
 Hrossunum var því öllum smalað heim í þetta sinn og síðan verður sú smölun endurtekin á þrettándakvöld  vegna reynslunnar frá því í fyrra.



  Flugeldasýningin  var meiriháttar og litlu munaði að við fengjum að sjá kerruna hjá Atla loga til viðbótar við sjóið, þar sem hún var höfð sem skotpallur.




  Þessi unga snót sem var langt að komin í heimsókn hjá afa og ömmu í Söðulsholti, þótti þetta mikil upplifun.




 Já þetta var mjög fínt og kakóið hjá Önnu Margréti á eftir, var enn betra en í fyrra.

Og eftir vandlega íhugun var ákveðið að hafa myndaalbúmið ólæst,emoticon   en þið missið af áhugaverðustu myndunum.emoticon 

Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere