03.02.2009 09:16

Álver , ráðherrar og Múlavirkjun.


  Það var orðið niðurdrepandi að fylgjast með dauðastríði fyrrverandi ríkisstjórnar. Blessuð sé minning hennar.

  Nú er hinsvegar aftur orðið skemmtilegt í pólitíkinni og veitir ekki af í kreppunni, sem læðist sífellt nær okkur.

  Háttvirtur umhverfisráherra lýsti því galvösk yfir, að nú yrðu öll áform um Bakkaálver blásin út af borðinu. Hún hafði samt vit á því að tjá sig ekki um Helguvíkina.
 Stuttu seinna var Össur karlinn kominn í loftið og staðfesti það að engin ný álversáform yrðu tekin inn. Hinsvegar myndu gömlu áformin halda sínu striki, Bakki og Helguvík. Manni fannst allt í einu eins og biðröð fjárfesta stæðu utanvið þessi ráðuneyti með álver á heilanum sem þyrfti að drífa upp þessa 80 daga sem þetta stjórnarsamstarf mun vonandi standa.

  Og þar sem fréttahaukarnir vita út á hvað lifibrauðið gengur var ekkert verið að hrista rykið af nokkurra daga gamalli frétt um að allar álversframkvæmdir væri í frosti vegna skorts á seðlum.

  Þó mér finnist Össur oft mikill bullari er hann stundum að skora hátt hjá mér.

 Það kom  skemmtilega á óvart að heyra það, að hann hefði tekið á sig rögg og gefið út virkjunarleyfi fyrir Múlavirkjun. Sú framkvæmd er sláandi dæmi um allskonar mistök nánast allra sem komu að virkjanaferlinu. Nú er hún hinsvegar búin að ganga í tæp 4 ár . Það höfðu farið fram rannsóknir á lífríki virkjanasvæðissins áður en framkvæmdir hófust og síðan hefur svæðið verið vaktað af færustu lífríkisfræðingum og ekkert komið uppá enn, sem gefur ástæðu til inngrips vegna breytinga á svæðinu.  Virkjanaleyfið er til 5 ára og skilyrt með áframhaldandi vöktun og úttekt á þessu öllu fyrir endurnýjun leyfisins.

  Straumöndin gefur svæðinu dálitla sérstöðu. Þó ég viti að" alvöru "umhverfissinnar gefi lítið fyrir álit manns sem gjörþekkir þetta svæði er ég samt þeirrar skoðunar að skilvirk refa og minkaeyðing,  sveitarfélagsins  áratugum saman vegi  miklu þyngra í tilveru fuglalífsins en flest annað.

   Gerum þetta svæði að þjóðgarði með tilheyrandi friðun og sjáum hvernig fer fyrir fuglum himinsins.emoticon 

01.02.2009 11:10

Fjárhundanámskeiðið.


  Já, það var ákveðið að drífa af námskeiðið sem er búið að vera í kortunum síðan í sumar.

  
    Þessi hópur gæti vel verið kominn með nothæfa fjárhunda áður en lýkur, og sumir með mjög vel nothæfa.   Þóra Sif fær svo þakkir fyrir að hressa uppá myndasafnið hjá mér.



  Reyndar var vitað að hluti hvolpanna yrði trúlega ekki tilbúinn í kindavinnuna , en ég verð sífellt grjótharðari á því að grunnvinnan sé búin áður en að kindunum kemur og vildi því fara yfir þetta.

  Það kom líka á daginn að 6 og 7 mán. hvolparnir máttu bíða eitthvað og það mátti síðan alveg bæta í með forvinnuna, svo það var bara farið yfir það.



  Hluti þátttakenda fylgist áhugasamur með einhverjum darraðadansi í höllinni.



  Sumir voru langt að komnir og Smali frá Dalsmynni  kom alla leið frá Hólmavík.
Hann vildu nú bara leika sér með rollukjötið.
  Vaskur, aðstoðarleiðbeinandi fylgist athugull með.





  Týra frá Dalsmynni var nú orðin til í slaginn en það þyrfti kannski aðeins að bæta í  forvinnuna..


 

Þegar gafst stund milli stríða var spjallað, og hér ber húnvetnskar leitir og hundar á góma.



  Formaður Smalahundadeildar Snæfellinga kíkti við til að ganga úr skugga um að allt færi vel fram. Hún og Bóla tóku eitt rennsli og þó ég héldi því fram, að það mætti gera alvöruhund úr Bólu , keypti hún það ekki.

 Enda hefur hún verið á námskeiði hjá mér.




                                   Snilld í fyrstu keppninni sinni í haust, rúmlega ársgömul.

     Til að sýna þeim hvernig hvolparnir þeirra gætu verið orðnir í haust sýndi ég síðan taktana hjá Snilld en hún er búin að vera í námsfríi síðan í haust.

    Ég var líka að sýna þeim hvernig flautan virkaði.

 Aðstaðan í reiðhöllinni  getur svo bara alls ekki verið betri, fyrir svona námskeið.

 Svo er bara að vita hvort menn klára heimavinnuna sína.emoticon

30.01.2009 22:42

Stjórnin???


   Frammararnir mega passa sig á að eyða ekki of miklum tíma  í að reikna út á puttunum hvað á að gera, því allir vilja fá stjórn sem fyrst.

  Það er nógur tími til að karpa um málin þegar á að fara að leggja þau fram.

Nú þegar ráðherralistinn liggur (trúlega ) fyrir, verður spennandi að sjá hvernig unnið verður úr hlutunum og peningaskortinum mætt.  Og mér líst bara vel á að Steingrímur taki landbúnaðar og fjármálin. Hann var allavega eins og arfhreinn framsóknarmaður þegar hann var landbúnaðarráðherra hérna um árið.  
 
 Það er svo spurning hvað  er hægt að salta mikið af vandamálunum framyfir kosningar.

 Ég hef trú á því að rannsóknin á hruninu og hugsanlegum brotum þeim tengdum verði hraðað verulega og ef breytingin á seðlabankanum gengur, mun krónan eflaust styrkjast enn frekar og það er hlutur sem er æpandi eftirspurn eftir, ekki síst fyrir bændaskarfana sem þurfa að fara að snara út fyrir áburðinum hvað líður. Maður þorir ekki einu sinni að hugsa um verðið á byggfræinu. Og við þurfum að fara að sjá olíulækkunina erlendis fara að virka hér.

  Já það er rétt að lofa nýju stjórninn að spreyta sig áður en maður fer að commenta á hana, þó ýmisskonar efasemdir skjóti upp kollinum.
 En ég get þó lýst þeirri skoðun minni að það eigi aldrei að setja öfgafólk í valdastóla. Hvort sem um frjálshyggju eða afturhald er að ræða. Sama gildir um öfga í  virkjunargræðgi eða náttúruvernd.

  Ég hef þó ekki áhyggjur af því nú, því þeir flokkar sem slíkt gera  munu væntanlega axla ábyrgð á því áður en líkur.



Og morgundagurinn verður svo spennandi fyrir hundaræktunardeildina í Dalsmynni.



    Því þessi snilldarræktun sem hér horfir lotningafull á húsbónda sinn og þáverandi leiðtoga er nú senn að komast á tamningaraldur.  emoticon

 

 Gangið svo hægt um gleðinnar dyr um helgina.emoticon

Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere