20.03.2009 21:27

Pólitíkin og kvótakerfið !


 Nú fer að lifna yfir kosningabaráttunni og frambjóðendurnir birtast manni hver á fætur öðrum.

Sem betur fer koma þeir nú einungis í póstkassann ennþá, og nýi pappírsgámurinn sem tekur viðstöðulaust við öllum óþarfa pappír kemur sér vel.

  Fyrir ódrepandi áhugamann um landbúnaðinn og sveitina er áhugavert að fylgjast með því hvernig landbúnaðarlínurnar eru lagðar því nú er landbúnaðurinn "inni "á öllum vígstöðvum,  þar til kemur að frekari niðurskurði. Hann kemur þó ekki fyrr en eftir kosningar.

 Háttvirtur landbúnaðarráðherra lét þau orð falla fyrir skemmstu að nú ætti að endurskoða kvótakerfið í landbúnaðinum  og þó fyrr hefði verið. Það myndi þó bíða framyfir kosningar. Nú þinga hann og félagar hans um helgina og verður fróðlegt að sjá hvernig þeir lenda málinu.

  Um næstu helgi kemur saman hinn póllinn í pólitíkinni og ég varð nú pínu hissa við að sjá drögin að landbúnaðarályktun þeirra sjálfstæðismanna.

Þar var m.a. þessi klásúla.

" Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að gerður verði heildstæður búvörusamningur um íslenska landbúnaðarframleiðslu með aðkomu allra búgreina. Jafnframt verði núverandi kvótakerfi lagt af í áföngum þannig að framleiðendur þurfi ekki að kaupa sér aðgang að markaði. "

  Meir að segja kvótaflokkurinn mikli er farinn að átta sig á því að styrkir til matvælaframleiðslu eiga að renna til þeirra sem framleiða matvælin. Ekki til þeirra sem eru hættir því, en geta gegnum stórgallað kerfi selt þeim sem þrauka þorrann og góuna aðganginn að styrknum fyrir offjár.

   Það er fróðlegt að skoða annarsvegar " beingreiðslur " til sauðfjárbænda og hinsvegar kvótagreiðslur til mjólkurframleiðenda.

Sauðfjárbændur hafa í raun ótakmarkaðan framleiðslurétt.
 
 Beingreiðslurnar þeirra eru greiddar eftir gömlu kerfi  sem einhvernveginn leystist upp og kemur í raun framleiðslunni sáralítið við, nema þeir verða að uppfylla ákveðna framleiðsluskyldu til að fá greiðslurnar.
 Menn sem búa stóru sauðfjárbúi geta þessvegna selt frá sér allar beingreiðslur en framleitt eftir sem áður sama magn af kjöti styrkjalaust. Nú er verið að beina vaxandi hluta greiðslanna yfir á alla dilkakjötsframleiðslu sem er eðli málsins samkvæmt rétta leiðin.
 Brotalömin í þessu kerfi er að detta inn, þar sem útflutningsskyldan á umframframleiðslunni er í uppnámi.

 Þar eru menn sem sagt að selja eða kaupa peningagreiðslur/beingreiðslur frá ríkinu, ekki framleiðslurétt.

 Í mjólkinni er styrkurinn alfarið tengdur framleiðslunni og gefur tryggingu fyrir ákveðnu framleiðslumagni sem fæst fullt verð fyrir. Þar eru menn að kaupa sér styrkinn ásamt markaðshlutdeild. Þeir sem ætla að auka við sig eða hasla sér völl í mjólkurframleiðslu verða að kaupa sér ríkisstyrkinn og réttinn til að framleiða matvælin á okurverði sem nemur oft styrkupphæð næstu 8- 12 ára.


 Þetta niðurslitna júgur er að framleiða um 9000 litra ári. Þó það sé nú kannski á síðasta snúning vantar mig framleiðslurétt fyrir það og nokkur í viðbót. Kaupin á réttinum færi ekki að skila mér launum fyrr en eftir svona 5- 8 ár.

 Það er ljóst að þetta kerfi er orðið fótafúið.

Og einhvernveginn missti ég af  framtíðarsýn frammaranna á málaflokkinn.

 Hann hlýtur að birtast mér í póstkassanum fljótlega.emoticon 

 
 


19.03.2009 22:27

Allir á flakki.


  Það var mikið flakk á Dalsmynnispakkinu í dag.
 Reyndar var byrjað á því að lesta " nýju" byggflutningsgræjuna okkar Yrkjamanna.



  Það tók innan við klukkutíma að lesta  rúmum tíu tonnum af byggi sem yngri bóndinn skutlaði síðan til kaupandans. Að því loknu brugðu yngri bændurnir sér til borgar óttans og hafa ekki sést síðan.

   Við þessi öldruðu vorum líka á fleygiferð um vesturlandið, fyrirvinnan á fundi í Borgarnesi en ég þurfti á Akranes að sækja  dót í húsið okkar gamlingjanna en nú standa fyrir dyrum allskonar endurbætur á því á árinu. Það er að verða  30 ára gamalt og bóndinn ekki sá alnatnasti í viðhaldsdútlinu.

  Smiður búsins er allt í einu orðinnn hinn vinnufúsasti, eftir allkonar undanfærslur megnið af þessari öld svo það eru nú til jákvæðar hliðar á kreppunni, hvað sem hver segir.

  Og vorblíðan lék við hvern sinn fingur og sá gamli sem ég hitti í Borgó og spáði löngum illviðrakafla og snjóþyngslum hafði engin áhrif á góða skapið. Ég gleymdi meira að segja að fara í ríkið og orðin veruleg hætta á að maður hætti að rata þangað, núna þegar fer að vora( 7- 9 - 13.).

 Og áætluð Selfossferð á morgun, frestast um viku sem er fínt, því nú er í nógu að snúast í sveitinni. emoticon 



  

18.03.2009 20:49

Svartagullið er " inni " í dag.


   Skíturinn var löngum til vandræða í sveitinni og ég þekki dæmi þess að menn hafi hreinlega hrökklast frá búskap vegna þess að hann óx þeim yfir höfuð.

  Í dag er hann mikils virði og menn eru á tánum að nýta hann sem allra best í áburðargjöfinni.

Þegar Siggi Jarls. var að gera áburðaráætlunina með mér, fullvissaði hann mig um að nú reiknuðu menn með mun betri nýtingu búfjáráburðarins en gert hefði verið til langs tíma, og þegar hann útlistaði fyrir mér að ekki þýddi heldur að bera of mikið á af honum heldur, trúði ég því næstum alveg. Ég tók hinsvegar af skarið þegar mér fannst hann vera orðinn dálítið grófur í niðurskurðinum á innflutta áburðinum og sagðist nú ekki trúa hverju sem er.

  Gærdagurinn fór í að keyra taðið undan fénu og hálminn undan kálfunum.



  Þetta er keyrt í hauga sem eru látnir brjóta sig í ótiltekinn tíma þar til einhver nennir að aka þeim í flög til niðurplægingar. Áður hefðu haugarnir trúlega endað sem hólar í landslaginu, en ef áburðarverðið hrynur ekki á næstu árum verður þetta allt gjörnýtt.
  Vinum mínum á austurbakkanum verður það síðan sérstakt ánægjuefni að leigja mér Samsoninn sinn í dreifinguna. Það toppar ekkert þá græju í taðið og skeljasandinn, enda keypt í réttu dótabúðinni.



 Kvígukálfarnir sem voru allt í einu komnir hálfum m. neðar í stíunni sinni fannst þetta furðulegur dagur.



   Og Snilld og Dáð kíktu rannsakandi inn á rollurnar svona til að vita hvort bóndinn hefði verið að spara hálminn við þær. Nú þegar tíðin batnar verður kannski tekin kennslutörn með .þær, áður en kindurna verða of þungar á sér.


  Nú eru góðviðri á Nesinu og vor í lofti, mettað peningalyktinni sem fylgir svartagullinu.emoticon 


  



Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere