30.05.2009 23:19

Erfðabreytt bygg. Leggur það skerið endanlega í eyði??

  Það er búin að vera lífleg umræða um "erfðabreytta " byggið  í tilraunaræktuninni hjá Orf líftækni.

 Þetta snertir marga og umræðan sveiflast allt frá því annarsvegar, að hér fari allt í kalda kol , landbúnaður, náttúran og meira að segja íslenska vatnið muni mengast, og óbúandi verði á klakanum,  sé þetta ekki stoppað hið snarasta. Hinsvegar það álit Jónatans Hermannssonar tiraunastjóra og jarðræktarfræðings að engin hætta sé á að bygg vaxi villt á íslandi (sjá hér ) enda hafi það ekki tekist þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

 Það sé útilokað að erfðabreytta byggið ná að dreifa sér eða víxlfrjóvast hér uppi á klakanum.

 Þetta er samt alvarlegt mál með vatnið hvort heldur fyrir okkur frumbyggjana eða hina sem eru að gera 95 ára leigusamning um einhverjar lækjarsitrur til þess að flytja vatnið út.

 Ég verð nú að viðurkenna það, að ég tek nú dálítið mikið mark á honum Jónatan þó honum gangi illa að gefa mér ráð, sem duga til þess að ná 5 t. uppskeru af byggi á ha. en við erum, ekki hættir við þau markmið enn.  Það er jú komin margra áratuga reynsla á byggræktun  hér og afar erfitt að sýna fram á nokkurt dæmi þess að byggið væri að koma sér fyrir í náttúrunni. 


 Lómurinn er alíslenskt sexraða yrki , ákaflega lágvaxið og veðurþolið sem Jónatan hefur náð fram með , Ja kynbótum eða erfðabreytingum, hvar eru mörkin?

 Þó að ég sé ákaflega slakur yfir þessari tilraunaræktun þeirra Orfmanna þá verður að skilyrða  hana rækilega. Það er til dæmis mikilsvert að fræið í tilraunaræktuninni er dökkt eða svart afbrigði
( Dimma) og sker sig því rækilegu úr þeirri hefðbundnu  og síðan er rétt að binda þetta alfarið við afmarkað svæði með frekari takmörkunum.

  Sumir telja það eina af hættunum við þetta, að miklir peningar eru í spilunum. Þeir eru það vissulega og það eykur alltaf hættuna á því að slakað verði á öryggiskröfum.  Mér gengur samt sífellt verr að koma auga á hætturnar við þessa ræktun til lyfjaframleiðslu eftir því sem ég skoða málið meira.
  Stærsta hættan er trúlega sú að blettur komi á hreinleikastuðulinn okkar, í augum þeirra sem óttast tæknilegar kynbótaframfarir.

 Og peningar eru svo ekki ekki alvondir, þó við eigum lítið af þeim í augnablikinu. 
 

Flettingar í dag: 249
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418912
Samtals gestir: 38064
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 19:58:47
clockhere