04.06.2009 22:14

Hvítur stelkur.

  Eins og kunnugir vita er margur furðufuglinn á sveimi í Eyjarhreppnum sáluga.

Fyrir nokkrum árum kom hér í nokkur sumur hvítur stelkur og verpti hér neðan vegar.

Þá stóð nú alltaf til að taka myndir af höfðingjanum en aldrei varð af því.  Þó ekki sé langt síðan hefur orðið stökkbreyting í myndavélatækninni og þegar ég frétti af einum samskonar í Söðulsholti var ekkert gefið eftir með myndatökur og Iðunn  sett í málið.

   Það er nú best að  snyrta sig vel fyrir myndatökuna.



  Svo er að færa sig á rétta staðinn og stilla sér fallega upp, því kannski kemst ég á bloggið hans Svans.
  Já, já,  svona er prófíllinn og það getur vel verið að einhver ættingi minn hafi verið í Dalsmynni í gamla daga. Ég pæli ekkert í ættfræðinni.



 Er stelpan ekki þarna ennþá.



  Já þetta er konan þarna , ósköp venjuleg. Ekkert merkilegt við hana.




   Alveg eins og engill.



 Rétt að taka líka lagið fyrir stelpuna svo hún átti sig á að ég kann sitthvað fyrir mér.






02.06.2009 21:05

Endalaus fjölbreytileiki í sveitinni.


   Það sem gerir sveitamanninum lífið þolanlegra, er endalaus fjölbreytileikinn í verkefnum daganna.

Nú er t.d. verið að brjóta nýtt land til ræktunar og einn dagurinn var tekinn í plægingu sem mér hefur alltaf þótt skemmtileg vinna.



 Hér er verið að vinna mýrlendi sem var tætt í haust og nú er verið að plægja það áður en ýtt er út ruðningum og lagað til. Þessi spilda verður notað í akuryrkjuna í nokkur ár og síðan lokað með grasfræi.


  Nú er verið að bera áburðinn á túnin sem  að sleppa verður seinni slættinum á. Þetta eru rollutúnin og tún hestamiðstöðvarinnar. Síðan verða nokkrar pælingar þegar kemur að slætti, með að láta þetta spretta hæfilega úr sér eftir því hvenær og hverjum er gefið.


  Í dag voru tittirnir reknir inn, því dýralæknirinn er væntanlegur til að fara höndum um þá, sem búið er að afskrifa í ræktuninni.

Hyrjar gamli sem hefur verið að aga þá í vetur, var gripinn í leiðinni þvi nú þarf að járna og hreyfa hann aðeins fyrir sleppitúrinn og sumarið.



 Fyrstu kindurnar fóru í fjallið í dag. Þetta var nýborið fé sem verið er að sleppa af húsi og tók ekki að setja niðurfyrir, því fljótlega verður farið að sleppa. Um tíunda júní verður væntanlega flestallt féð
komið uppfyrir og fjallið lítur vel út eins og reyndar allt annað hvað grassprettu snertir.

 Og komandi nótt verður  fyrsta nóttin í langan tíma sem ég get sofið án þess að kíkja í fjárhúsin.

 Spurning hvernig það gengur.

 Og vinir mínir í sjálfstæðisflokknum eru menn dagsins.

Þessir gallhörðu talsmenn verðtryggingarinnar afnámu hana í dag.

En bara fyrir sig???

Góðir.

 

30.05.2009 23:19

Erfðabreytt bygg. Leggur það skerið endanlega í eyði??

  Það er búin að vera lífleg umræða um "erfðabreytta " byggið  í tilraunaræktuninni hjá Orf líftækni.

 Þetta snertir marga og umræðan sveiflast allt frá því annarsvegar, að hér fari allt í kalda kol , landbúnaður, náttúran og meira að segja íslenska vatnið muni mengast, og óbúandi verði á klakanum,  sé þetta ekki stoppað hið snarasta. Hinsvegar það álit Jónatans Hermannssonar tiraunastjóra og jarðræktarfræðings að engin hætta sé á að bygg vaxi villt á íslandi (sjá hér ) enda hafi það ekki tekist þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

 Það sé útilokað að erfðabreytta byggið ná að dreifa sér eða víxlfrjóvast hér uppi á klakanum.

 Þetta er samt alvarlegt mál með vatnið hvort heldur fyrir okkur frumbyggjana eða hina sem eru að gera 95 ára leigusamning um einhverjar lækjarsitrur til þess að flytja vatnið út.

 Ég verð nú að viðurkenna það, að ég tek nú dálítið mikið mark á honum Jónatan þó honum gangi illa að gefa mér ráð, sem duga til þess að ná 5 t. uppskeru af byggi á ha. en við erum, ekki hættir við þau markmið enn.  Það er jú komin margra áratuga reynsla á byggræktun  hér og afar erfitt að sýna fram á nokkurt dæmi þess að byggið væri að koma sér fyrir í náttúrunni. 


 Lómurinn er alíslenskt sexraða yrki , ákaflega lágvaxið og veðurþolið sem Jónatan hefur náð fram með , Ja kynbótum eða erfðabreytingum, hvar eru mörkin?

 Þó að ég sé ákaflega slakur yfir þessari tilraunaræktun þeirra Orfmanna þá verður að skilyrða  hana rækilega. Það er til dæmis mikilsvert að fræið í tilraunaræktuninni er dökkt eða svart afbrigði
( Dimma) og sker sig því rækilegu úr þeirri hefðbundnu  og síðan er rétt að binda þetta alfarið við afmarkað svæði með frekari takmörkunum.

  Sumir telja það eina af hættunum við þetta, að miklir peningar eru í spilunum. Þeir eru það vissulega og það eykur alltaf hættuna á því að slakað verði á öryggiskröfum.  Mér gengur samt sífellt verr að koma auga á hætturnar við þessa ræktun til lyfjaframleiðslu eftir því sem ég skoða málið meira.
  Stærsta hættan er trúlega sú að blettur komi á hreinleikastuðulinn okkar, í augum þeirra sem óttast tæknilegar kynbótaframfarir.

 Og peningar eru svo ekki ekki alvondir, þó við eigum lítið af þeim í augnablikinu. 
 

Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere