06.06.2009 23:33

Funi folaldapabbi.

 Nú eru tvö fyrstu folöldin undan Funa komin í heiminn og það eru að sjálfsögðu hreyfingarfallegir glæsigripir.

 Hér er folald no 2 með frambyggingu föðursins og náttúrulega dúllar það á tölti í fyrstu myndatökunni.



   Og liturinn skemmir ekki fyrir. Ég ætla nú samt ekki að vera svo ósvífinn að segja hann frá föðurnum.



  Folald no. 1 er kannski ekki eins flott en það er samt flott og svona er það í framan.


 Ekki frá pabbanum en samt!!



  Og einu sinni var hann Funi svona lítill en samt furðu brattur.



  Svona lítur hann út núna og rétt að taka fram að það er fullt af faxi hinumegin.

 Já, er ekki komið mikið meira en nóg um hann Funa sem er að verða þriggja ára. emoticon

05.06.2009 22:59

Dýrðardagar í sveitinni.

  Það er á dögum eins og þeim er nú líða hver á fætur öðrum, sem allt andstreymi skammdegisins og vetrarins hverfa eins og dögg fyrir sólu. Maður er löngu hættur að hafa tölu á góðviðrisdögunum sem koma eins og af færibandi hver öðrum betri.
 Og erfiðustu næturnar í sauðburðinum þegar maginn var orðinn svartur af kaffidrykkjunni, augun hætt að haldast opin og þrílembingarnir sem voru á leiðinni í heiminn höfðu ákveðið að koma allir í einu, eru steingleymdar.
  Hér eru lambakóngsarnir á leið til fjalls og eru rétt að verða grilltækir. ( Segi nú bara svona.)

Það er alltaf jafn skemmtilegt að tína féð uppfyrir og horfa á eftir þeim léttstígum á leið í sumarfrelsið á fjöllunum, enda eru ærnar snöggar að hverfa inná dal og sjást ekki meira.



  Vaskur og Snilld sjá um hlaupin og nú eru kindurnar mun þjálli en þegar þær voru á leiðinni niðurfyrir með unglömbin.



  Hérna er fjórði hópurinn á leið til fjalls en þetta er tekið í smáskömmtum og þær sleppa fyrst sem eru að sækja inná akrana og friðuðu túnin.


  Snilld sparar sig hvergi og þetta getur orðið dálítið erfitt í hitanum. Ég ætla nú reyndar að splæsa  heilu bloggi á hana einhverntíma fljótlega.

  Kuldakastið sem hefur verið árviss hluti af maímánuði eins lengi og elstu menn muna kom ekki þetta árið og megi svo vera framvegis.

  Lokayfirferðin í girðingarviðhaldinu tekur næstu tvo daga og geldneyti og kýr fara að sleppa úr húsi á næstunni.

 Já, það er engin þörf að kvarta, þegar blessuð sólin skín.emoticon

04.06.2009 22:14

Hvítur stelkur.

  Eins og kunnugir vita er margur furðufuglinn á sveimi í Eyjarhreppnum sáluga.

Fyrir nokkrum árum kom hér í nokkur sumur hvítur stelkur og verpti hér neðan vegar.

Þá stóð nú alltaf til að taka myndir af höfðingjanum en aldrei varð af því.  Þó ekki sé langt síðan hefur orðið stökkbreyting í myndavélatækninni og þegar ég frétti af einum samskonar í Söðulsholti var ekkert gefið eftir með myndatökur og Iðunn  sett í málið.

   Það er nú best að  snyrta sig vel fyrir myndatökuna.



  Svo er að færa sig á rétta staðinn og stilla sér fallega upp, því kannski kemst ég á bloggið hans Svans.
  Já, já,  svona er prófíllinn og það getur vel verið að einhver ættingi minn hafi verið í Dalsmynni í gamla daga. Ég pæli ekkert í ættfræðinni.



 Er stelpan ekki þarna ennþá.



  Já þetta er konan þarna , ósköp venjuleg. Ekkert merkilegt við hana.




   Alveg eins og engill.



 Rétt að taka líka lagið fyrir stelpuna svo hún átti sig á að ég kann sitthvað fyrir mér.






Flettingar í dag: 2678
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 650776
Samtals gestir: 57960
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:13:56
clockhere