27.08.2009 19:19

Helmingi fleiri folöld en í fyrra.

 Hafi einhver velkst í vafa um að nú sé hrossaræktin tekin föstum tökum er rétt að upplýsa að það eru helmingi fleiri fædd folöld núna en í fyrra.

 Það skal þó tekið skýrt fram að ekki mun verða um sömu þróun að ræða framvegis.

Að það skuli hafa dregist úr hömlu að kynna þessa markvissu ræktun hér á netinu er fyrst og síðast hirðljósmyndaranum að kenna sem hefur sinnt þessu verkefni af nokkru kæruleysi.



 Hér er það hún  Þöll frá Dalsmynni. M. Dögg frá Kjarnholtum og F. Sindri frá Keldudal.



 Og hér er gefið í af nokkurri hógværð.



 Hinn helmingurinn af folöldunum er litli bróðir hans Funa míns, Dökkvi. F. Eldjárn frá Tjaldhólum M. Von frá Söðulsholti. Liturinn verður greinilega einhver allt annar en bókaður var í vor.



 Þangað til annað sannast tel ég mér trú um að þeir bræðurnir verði vel nothæfir í fjöllin og á fjörunum.

 

  En það vill nú stundum verða langur og krókóttur vegur frá efnilegu folaldi til draumareiðhestsins.

Og ósjaldan brotlending á leiðinni.emoticon

25.08.2009 22:16

Sumarfríið. Annar hluti.

 Það fór vel um okkur í tjaldstæðinu við Húnaver  eftir að hafa flúið norður Kjöl úr rigningunni sunnanlands.
 Veðrið var fínt en rigningarlegt í vestrinu. Það var ákveðið að dóla á Blönduós í sund og plana svo daginn í framhaldinu.
  Því miður var ekkert sund í boði á Blönduósi fyrr en eftir 2-3 ár og var ákveðið að doka ekki við eftir því. Hinsvegar var stutt í rigninguna í vestri og því var stefna tekin austur. Á Skagaströnd var að vísu sundlaug í boði en opnunartíminn hentaði okkur ekki.
  Þar var unglingavinnan greinilega á fullu og ungmenni á öllum götum að snurfusa.
Það leyndi sér ekki að þau voru ákaflega misáhugasöm við vinnuna og nokkur greinilega í þessu með sama hugarfari og Íslendingar taka þátt í  Ólympíuleikunum.

  Það var orðið nokkuð langt síðan Skaginn var keyrður og ákveðið að fara hann þrátt fyrir grunsemdir um  að gæði vegarins yrðu trúlega svipuð og þá. Vegurinn reyndist vissulega vel varðveittur og byggðin með ströndinni virtist reyndar líka vera á svipuðu róli og í den og engir hvítabirnir sjáanlegir..



 Nú var komið við á Kálfshamarsvíkinni en þar voru um 100 íbúar fyrir um einni öld. Þeir lifðu á sjósókn og kofarústirnar fylltu mann af einkennilegum tilfinningum  um hörkuna í lífsbaráttunni fyrir rúmum mannsaldri. En stuðlabergið var hinsvegar alveg meiriháttar þarna.



 Girðingarnar sumstaðar á Skaganu bentu til þess að nokkur reki væri til búdrýginda og vinnan við girðingarna ódýr.

 Það var  gott að koma í Skagafjörðinn eins og alltaf og sundlaugin í Varmahlíð klikkaði náttúrulega ekki.

 Handverkskonan á Hjaltastöðum reyndist svo ekki vera heima en hún var þá  bara heimsótt á handverkshátíðina á Hrafnagili. Ég kolféll alveg fyrir vestunum hennar svo nú verð ég að koma við
hjá henni í næstu norðurferð til máltöku.

 Eftir að hafa yfirfarið handverkin af mikilli nákvæmni var dólað suður Eyjafjörðinn í leit að góðu plani og læk eða á til að stoppa við yfir nóttina.
 Fiskidagurinn á Dalvík freistaði okkar ekki, enda er ég einfari að eðlisfari og þoli illa biðraðir og mannmergð.

Allt um það seinna. (kannski?)emoticon
 

23.08.2009 22:54

Skógræktin í Hrossholti.

   Skógræktarfélag Heiðsynninga er með um 75 ha. skógræktarreit í landi Hrossholts.
 
 Þarna er elsta plöntunin orðin vel sýnileg og lúpínan búin að breiða úr sér á aðalmelnum í girðingunni.



 Austurbakkarollurnar voru að tína síðustu plönturnar uppúr víðisskjólbeltinu þegar hún Snilld birtist eins og skrattinn úr sauðaleggnum og tók smá æfingu fyrir komandi landskeppni.



 Þær eru verulegt vandamál fyrir skógræktar, akuryrkju og bara almenna bændur á vesturbakkanum.
 Vandamálin eru svo bara til að leysa þau og það verður gert áður en lýkur.


 Mér finnst nú melurinn bara ágætur lúpínulaus og göngufærið gerist ekki betra. Heimasætan er svo bara hin hressasta þrátt fyrir að vera svotil nýmætt af Dönskum dögum.


 Hér er Öspin komin vel af stað í flóanum og mun vaxa hratt næstu árin.



 Og andafjölskyldan á Haffjarðaránni sýndi okkur flugsund með miklum tilþrifum.



 Ungmennin sem gróðusettu talsvert í upphafi gerðu það af meira kappi en forsjá svo þetta er alltof þétt. Það þarf víða að grisja svo komist lag á þetta.



  Það fer vel um grenið undir holtunum.



 Í brokflóanum leyndist mikið af bláberjalyngi með hlussustórum berjum sem afastelpunni leist ákaflega vel á. Ömmunni reyndar líka.

 Skóræktin er fín meðan trén skyggja ekki á útsýnið.

En þá finnst mér nú alltaf réttast að saga þau umsvifalaust niður. emoticon 


 
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere