16.10.2009 21:59

Að sofa eins og ungabarn, í kreppunni.

 Já, kreppan hefur margvísleg áhrif á hann sagði mín heittelskaða við afgreiðslumanninn í Húsasmiðjunni.
 Hann sefur meira að segja eins og ungabarn, bætti hún við.

 Þegar afgreiðslumaðurinn leit á hana spurnaraugum sagði hún með útskýringartón í röddinni.

 Hann sefur dálítið óreglulega, hrekkur upp, grætur pínulítið og sofnar svo aftur.

 Umræðuefnið sem stóð við hliðina á þeim og hafði það eitt til saka unnið að hafa tuðað lítilsháttar um eitthvað smálegt eins og uppstillingar á jólaskrauti, blandaði sér ekkert í þessa umræðu.

 Þó dagurinn hefði ekki verið alslæmur varð samt sitthvað til að ergja mig.

 Sölumaðurinn hjá BM Vallá hafði hringt í mig um morguninn og sagt mér að plöturnar og vindhlífarnar væru tilbúnar. Þetta voru góðar fréttir með vindhlífarnar en verri með litaða bárujárnið.

 Daginn áður þegar bráðvantaði 2 litaðar bárujárnsplötur til að ljúka fjósklæðningunni var mér sagt að þær væru ekki til og ekki væntanlegar næstu dagana/vikurnar. Sölumaðurinn sagði mér þó, að kannski væri til afgangur á rúllu og þá yrði hægt að bjarga þessu. Ég skal gá að þessu og láta þig vita bætti hann við.

 Þegar kom fram á daginn og ekkert heyrðist úr Borgó var farið í að redda þessu með öðrum hætti sem tókst.

 Þegar ég hafði svo sótt vindhlífarnar leist mér ekkert á það sem ég sá, en hafði engin orð um það, þar sem ég gat engum kennt um nema sjálfum mér að hafa ekki ígrundað þá smíði aðeins betur.

 Plöturnar tók ég hinsvegar ekki og á eftir að leysa það mál við sölumanninn.



   Smiðirnir sem höfðu laumast til mín úr öðru verki, svo klæðningin kæmist á fyrir veturinn, eru svo hættir í bili, enda skortur á efni til að ljúka við þakkantana.

Ég var búinn að gleyma amstrinu og vandamálunum sem fylgja framkvæmdum, hversu litlar sem þær eru. emoticon

En eins og allir með góða samvisku sef ég eins og steinn, (ekki eins og ungabarn).emoticon

 

14.10.2009 22:59

Niðurstöðurnar úr Hvíta Húsinu.

 Mér leist ekki á blikuna þegar ég virti fyrir mér lambahópinn eftir fyrstu smölun haustsins.

 Ég huggaði mig við að þau væru blaut og ekkert að marka þó þau sýndust í minna lagi og alltof mörg undirmálslömb í hópnum.



   Meðfædd bjartsýnin fór þó að aukast eftir því sem leið á haustið og þegar náðust nógu margar nothæfar ásetningsgimbrar var ljóst að fjárræktin myndi sleppa til þetta árið hvað ræktunin varðaði.

 Það dugar hinsvegar engin meðfædd bjartsýni til að gera gott úr fjárhagslegu hliðinni á dæminu.



 Enda vita allir að fjárbúskapurinn hér, er bara til þess að eitthvað sé fyrir hundana að gera.



Og auðvitað húsmæðurnar. 



 Það voru svo að berast innleggstölur og þó gerðin lækkaði milli ára og fitan hækkaði, þá voru bara búnar til eðlilegar skýringar á því og allir urðu hamingjusamir.

  Meðalvigtin endaði í 17,64 kg.
  Gerðin var.              9.64
  Og fitan                  7,55

 Þannig að það er hægt að bæta ýmislegt enn. sem betur fer.

 Og nú styttist í að hinum árlega rolluhring ljúki. féð verði tekið á hús og ný hringferð hefjist með því að lögð verði drög að litlu lömbunum sem líti svo dagsins ljós í vetrarlok.

 Nei , nei, ég ætla ekkert að enda þetta með því að nú sé erfiður vetur framundan.emoticon

12.10.2009 21:59

Erfið helgi. Ættarmót , rolluhasar og herskylda.

 Nú er mesta rolluhasarnum lokið þetta haustið þó sitthvað sé eftir.

 'A föstudaginn voru líflömbin valin eftir  vigtun  og sónun, og síðan var öllum lambahópnum smalað inn á sunnudag og tekin frá þau sem fara í Hvíta Húsið á Hvammstanga.


 Það var ánægjuleg tilbreyting að komast inn  slátrunarkerfið hjá þeim .

 Eitt símtal við Magnús snemma í sept. og slátrunardagur fyrir hópinn ákveðinn 12 eða 13 okt. og ekki orð um það meira.


 Hópurinn var síðan tekinn í dag og nú er bara eftir að dagsetja hvenær dæminu verður lokað og kistan fyllt fyrir veturinn.

 Enn vantar eina tvílembu og eina veturgamla með lambi. Síðan vantar nokkur lömb þar sem móðirin er komin með hinu lambinu en það ríkir engin bjartsýni um heimtur á þeim.

 Þetta er ekki slæmt og þýðir það að ferðum mínum um fjöll og firnindi í kindaleit verður í nokkru lágmarki þetta haustið. ( og framvegis).


 Menn og tæki uppi á fjöllum að elta rollur sem koma þeim ekkert við , á landi sem kemur þeim alls ekkert við. Og kaupið er að sjálfsögðu ekkert, í þessari forneskjulegu herskyldu.

 Enda aðhyllist ég þá stefnu af sífellt meiri ákveðni, að fjáreigendur eigi að bera erfiðið eða kostnaðinn af því að koma fé sínu til byggða sjálfir.

 Seinnipart laugardags hittist svo slatti af afkomendum Margrétar og Guðmundar í Dalsmynni í Langaholti og átti góða kvöldstund saman.



 Systkinahópurinn mætti allur, nema nýsjálendingurinn ( 10 st. mætt). Hluti af seinni kynslóðum lét sig líka hafa það að mæta. Þetta er ekki lítil fjölskylda og þarna voru um 60 í mat.

 Gamla konan velti því svo fyrir sér hver hefði eiginlega alið þennan skríl upp þegar það voru tekin bakföll í hláturskrampa við að skoða gamlar myndir , ja allt aftur á miðja síðustu öld.

  Engin kreppa í Dalsmynnisliðinu.emoticon 

 

Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere