21.05.2010 03:29

Mjólkurkvóti, landbúnaðarráðherra og gömlu bændajepparnir.

Það hefur verið undarlega hljótt um nýútgefna reglugerð landbúnaðarráðherra vegna mjólkurkvótaviðskipta.

 Ekki síst í ljósi þess að hún stoppaði samstundis alla  kvótatilfærslu til nk.áramóta.

Það var þó upplýst í gær, að formaður og framkvæmdastjóri bændasamtakanna skruppu í kaffispjall til Jóns ráðherra og mótmæltu einhverjum atriðum við framkvæmdina.

Þeir félagar höfðu þó greinilega skilið skotskóna eftir norðan Hvalfjarðar og voru hinir hógværustu í yfirlýsingum við fréttamenn um það sem betur mætti fara í reglugerðinni.

Sem var gott.

 Frá upphafi hefur það einkennt kvótamarkaðinn að framboðið hefur alltaf verið mun minna en eftirspurnin.

Þetta hefur þýtt mikil veisluhöld þeirra sem hafa yfirgefið mjólkurframleiðsluna en kvótakaupendur hafa hinsvegar átt auðvelt með að halda gleði sinni í skefjum yfir því viðskiptaumhverfi sem þessum viðskiptum hefur verið búin.

 Það umhverfi hefur fyrst og fremst verið sniðið að hagsmunum seljenda sem hafa í flestum tilvikum notað það til hins ýtrasta til að hámarka verðið.

 Þetta kerfi hefur síðan verið  vasklega varið af þeim sem hafa verið velsettir með framleiðslurétt og litið á sölu ríkisstyrkja og framleiðsluréttar sem svona auka lífeyrisréttindi.

Það hefur svo gjarnan verið talað um það, á hátíðar og tyllidögum að þetta okurverð á framleiðsluréttindum gengi ekki og nú verði að fara að drífa í einhverjum kerfisbreytingum.

Einhverra hluta vegna hefur það tal aldrei náð lengra.

Og gríðarlegir fjármunir hafa horfið úr framleiðslugreininni með þessum viðskiptum.

Reyndar hefur manni sýnst að verjendum okurkerfisins hafi oft tekist ótrúlega vel upp, í að lauma í framkvæmd ýmsum atriðum sem hafa síðan spennt kvótaverðið upp úr öllu valdi.

Yfirstandandi breyting á kvótaáramótum frá mánaðarmótum ág. sept. til des.jan. er ágætt dæmi um gríðarlega velheppnaða framkvæmd til að hækka og halda síðan  uppi verði á framleiðsluréttindum.

Þessvegna undrar það mig hversu hljóðir varðhundar okursins eru þessa dagana.

Kannski eru menn að átta sig á því, að fáránlegt kvótaverð hefur orðið til þess að talsverður hópur bænda er tilbúinn að framleiða mjólk til sölu á afurðarstöðvarverði án framleiðslustyrkja.

Kannski eru menn að átta sig á því, að það dugar kannski ekki að herða lagaumgjörðina til að halda mjólkurframleiðslunni í höndum þeirra sem hafa yfir að ráða margumræddum framleiðsluréttindum.

Það gæti  nefnilega orðið spurning um stjórnarskrá og mannréttindadómstóla, ef bændum væri bannað að framleiða og selja landbúnaðarafurð eins og blessaða mjólkina utan einhverra gallaðra framleiðslu og styrkjakerfa.

 Það verður nú að viðurkennast að undirritaður hefur ekki verið framarlega í flokki aðdáendahóps landbúnaðarráðherra, en hann fær mörg prik hjá mér fyrir þessa röggsemi.

Ég lít þó á þetta sem fyrsta skref í málinu og töluvert eftir í að hreinsað verði úr kýlinu þó aðeins sé stungið á því.

 Og vonandi troða forsvarsmenn okkar bænda, skotskónum lengst inn í skáp og setjast niður með Jóni Bjarnasyni og loka málinu á ásættanlegan hátt.

Þeir ættu í þeim gjörningi að fá veganesti frá nýstofnuðu félagi ungra bænda, en hlusta minna á gömlu bændajeppana .emoticon

20.05.2010 03:56

Vorstemmingin í máli og myndum.

Það er stafalogn í sveitinni.

Fuglasöngurinn hellist yfir mann úr öllum áttum á röltinu í rollukikkið kl 4 að morgni.



 Hafursfellið speglast í tjörninni og græn stráin eru að brjótast upp úr sinunni þar sem hún er ekki algjörlega úr hófi.



 Það var nákvæmlega þetta sem blasti við augum þegar ég kom út áðan og nuddaði stýrurnar úr augunum.



 Það er svo komin græn slikja á akrana sem fyrst var sáð í, og túnin komin mjög vel af stað.

Já það verður byrjað  að bera áburðinn á þau í dag og orðið löngu tímabært.



 Tilraunareiturinn með Öspinni sýnir þrjú litarafbrigði í augnablikinu en þar voru sett niður þrennskonar yrki í den.



 Og hjartað hennar Höllu Sifjar í hlíðinni minnti gamla manninn á það, að núna er hún á leiðinni út á flugvöll en ferðinni er heitið til Ítalíu þar sem hún verður við nám næstu vikurnar.

 Það er skýjað . Annars væri morgunsólin komin upp og stemmingin væri allt öðruvísi.

Já, það er akkúrat svona upplifun sem heldur manni gangandi í skammdeginu. emoticon

17.05.2010 22:58

Þröstur minn góður..- Hreiður á stillans.

 Framan á fjósinu stendur stillans síðan í vetur.

Þegar að óbornu ærnar voru hafðar í daghólfinu lá vel við að fara stillansinn í eftirlitsferðunum.

Í einhverri af fyrstu ferðunum uppgötvaðist að þar voru uppvið vegginn tvö fullgerð hreiður með um 1.5 m. millibili.
Þessi umferð virðist hafa fælt annan ábúandann frá frekari búskaparáformum en allt í einu voru komin 2 egg í annað hreiðrið.



 Síðan bættist við eitt af öðru þar til þau voru orðin 5. En aldrei sáum við fuglinn.

Svo kom í ljós að þarna var skógarþröstur á ferðinni og nú fór hann að liggja á af mikilli natni.

 Hann var fljótur að róast við umferðina og  kom að fljótt  að því að hann var ekkert að ómaka sig við að yfirgefa hreiðrið, þó bændaræflarnir væru eitthvað að skakklappast framhjá.



 Í austanrigningunni um daginn kom í ljós að hönnunin var ekki fullkomin því það lak niðuraf veggnum á foreldrið tilvonandi, sem sýnir hér hægri vangann.



 Og hér þann vinstri en nú var hann orðinn dálítið pirraður til augnanna enda ekki eins athyglissjúkur og sumir topparnir í þjóðfélaginu.

  Nú er bara að vona að allt gangi upp hjá þeim hreiðurbúum og kettir heimilanna virði friðhelgi heimilisins.

 Það verður þó að telja býsna líklegt að þeim verði þó eins farið og offörunum í eftirmálum hrunsins ,ef þeir verða þarna á ferðinni .

 En vonandi getum við þó treyst því að rebbarnir mínir séu ekki svo ósvífnir
 að mæta á svæðið. emoticon




Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere