15.10.2010 09:16

Plægingarprútt og horfnir vinir.

  Plógurinn var settur við í gær og fyrstu 8 hekturunum snúið með stæl á milli mjalta.



 Þar sem gæsaveiðin er orðin einn af tekjustofnum byggræktarinnar verður að gæta að sér í plægingarmálunum.

 Í fyrrahaust var ég með skipulagninguna á veiðimálunum og þá var ekki við neinn að ráðgast þegar kom að plægingunni. Bara að halda eftir bestu ökrunum á endasvæðununum en veiðilendurnur eru tæpir 60 ha. og tilheyra 3 jörðum.



 Í haust er hinsvegar leigutaki með allan pakkann og nú verður sest niður um helgina og plægingin skipulögð með tilliti til veiðimálanna.

 Þessi tilhögun á veiðinni gefst vel. Ég losna við alla vinnuna sem fylgdi samskiptunum við veiðimennina og þar sem hér eru kunnugir menn á ferðinni sem nýta þetta sjálfir, losnum við algjörlega við að gæda veiðimenn inn á akrana á morgnana.

 Því er hinsvegar ekki að leyna að allir vinirnir sem við áttum skyndilega þegar kom fram í ágúst, og út veiðitímann eru ekki nærri eins miklir vinir okkar akureigenda lengur.



 Gæsirnar kippa sér hinsvegar ekkert upp við plægingargræjurnar en hér óróuðust þær eitthvað við vaktarskipti hjá plægingarmönnum.

Þeirra bíður svo erfiður laugardagur.emoticon

13.10.2010 09:21

Gæsaveiðin. Rólegt í Eyjarhreppnum.

 Gæsaflotinn sem heldur til í Eyjarhrepp hinum forna hagar sér ekki með hefðbundnum hætti í þessum hlýindum og logni sem ríkt hefur að mestu í haust.

 Þessi mynd er frá 2008 en þá var allt eðlilegt á svæðinu með endalausu roki og rigningu og mikilli gæsaveiði.

 Nú er erfitt að eiga við hana . Hún er slugsandi langt fram á morgun í fjörunni eða lætur sig reka fram og aftur úti á sjó og er að dóla inn á akrana síðla morguns og langt fram á dag.

 Í logninu flýgur hún hátt og gefur sér góðan tíma til að virða fyrir sér væntanlegan lendingarstað.



 Þetta er nú svona 2008 mynd enda komu þessar beint inn.



 Og voru snöggar að forða sér þegar þær fengu óblíðar móttökur.

 Þetta háttalag gæsarinnar í logninu er ekki til þess fallið að auka aflabrögð skyttnanna og Blesurnar sem blanda sér í hópinn eru svo ekki til að bæta ástandið.

 Nú er meira af Heiðagæsinni en oft áður og þar sem hún notar sama tungumál og Blesan verður þetta svo enn ruglingslegra fyrir ofurspenntar skytturnar horfandi á háflugið fyrir ofan sig farandi  með bænirnar sínar.

Rétt að hafa þær ekki eftir.emoticon



 Hér voru þær að tínast inn á tún og akra hjá mér í gær og lá við umferðaröngþveiti því þarna blöstu þær við frá þjóðveginum trúlega nokkur þúsund um það er lauk.



 Einn leigutakanna sem átti leið um fékk mikinn skjálfta í gikkfingurinn en er vonandi farinn að róast þar sem hann liggur í þessum skrifuðu orðum þarna ofan í skurði.

En það er stafalogn núna ! emoticon


11.10.2010 18:57

Taka 2. Ævintýraland og örnefni.

  Loks sér fyrir endann á smala og fjallabloggum þetta haustið þó kannski sleppi inn ein og ein eftirleit ef tilefni gefst.
 Nú er orðið býsna algengt að héðan leggi upp göngufólk inn á fjallgarðinn og sumir þeirra fara jafnvel í nokkurra nátta útilegu.
  Það er svo gaman að því að þetta fólk er búið að stúdera kort og ýmsan fróðleik um svæðið og er kannski fróðari um örnefni en margur heimamaðurinn.
 Margir rölta upp á Skyrtunnu og eins og sagði síðast er þetta auðveldasta leiðin. Hún er svo auðveld að einhverjir sneiða framhjá henni upp á tindinn.



 Svo eru það Svörtufjöll sem eru nú enn auðveldari viðureignar og margir hlaupa þar við á leið sinni niður svona til að geta bætt þeim í safnið.



 Það er ekki sama hvaðan er horft  til að telja tindafjöldann  og kannski öruggast að skreppa upp til að telja þá.

 Upp af Hvítuhlíðinni ( t.v hér fyrir neðan)  sem er held ég fyrsta örnefnið sem ég varð öruggur á, í upphafi smalaferilsins er Hvítuhlíðarkollurinn, löng bungumynduð hæð næstum lárétt. Þar mættust efsti maður úr Tungunum og sá sem kom efst austanað og eins gott að munaði ekki miklu á tíma því þá fór stundum allt í klessu.
Frameftir síðustu öld þótti leit í Dalsmynni ekki fullmönnuð nema með 7 - 9 manns. Nú finnst manni fínt að fá 3 í fjallið og 1 í fyrirstöðu á Dalsmynnisfellinu.



 Sunnan Hvítuhlíðarkollsins er Hvítuhlíðargilið með áberandi blágrýti á norðari gilbarminum sem er einstakt á svæðinu. Hvítuhlíðarkollurinn er ákaflega greiðfær endanna á milli sem kom sér oft vel fyrir fótfráa eða velríðandi smala þegar of seint var mætt í fyrirstöðuna. Nú hafa hundarnir og fjórhjólið eyðilagt öll slík ævintýri, allavega þarna.




  Hér sér svo yfir Moldarmúlann inná Leirdalinn en klettahryggurinn hér  fremst á myndinni er sjálf Geithellistungan með Grengilið til hægri við sig. Þessi tunga endar svo að sjálfsögðu í sjálfum Geithellinum sem kynntur var til leiks í síðasta bloggi.



 Reyndar fann ég aðeins skárri mynd af honum hér, en hann er nú reyndar lítið dýpri en þetta og ætti frekar að heita skúti en hellir.



 Já ekkert meira  fjallakjaftæði í bili. emoticon 

 

Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere