13.04.2011 07:43

Hin árvissu stresstímabil.

Í árhring bóndans koma stresstímabilin og fara rétt eins og árstíðirnar.

 Veturinn sem senn er að baki er ákveðinn slökunartími eða svona miðparturinn úr honum en með hækkandi sól fer allt að gerast.

 Í umhleypingunum og slabbinu núna er sífellt auðveldara að hitta á kollega sem er orðinn mega áhyggjufullur yfir hvernig dagarnir þjóta hjá án þess að hægt sé að koma búfjáráburðinum á tún og akra.



 Og það verður að segjast eins og er að sem jafnan fyrr og síðar hafa bændurnir rétt fyrir sér,  því það getur held ég ekki orðið blautara um en núna.

 Á þessum síðustu og verstu, er búfjáráburðurinn orðinn mikils virði og gert ráð fyrir toppnýtingu á honum við áburðaráætlun vorsins.

 Að vísur er lítill klaki í jörð en þó aðeins enn, a.m.k í túnunum sem gerir þau alófær fyrir dótagrjæurnar okkar.



 Að sjá akrana í þessu ástandi er dálítið fjarlægur draumur en samt ?????

Og allar mykjugeymslur eru svo að verða eða orðnar stútfullar sem eykur enn á líflegheit magasýranna.

 Það eina sem getur bjargað geðheilsunni í þessari stöðu er vitneskjan um það að þetta endurtekur sig á hverju ári og alltaf fer þetta einhvernveginn.

Oftast vel.emoticon

10.04.2011 08:15

Til eru fræ sem .....

 Það er alltaf lotterí að stunda byggrækt.

 Þegar ég byrjaði í bygginu fyrir örfáum árum var það þó tiltölulega lítið lotterí miðað við stöðuna í dag.
 Það kostaði kannski 15.000 kall á ha. útlagði kostnaðurinn og þegar allt fauk niður í stóra rokinu fékk maður sér bara tvöfaldan Whiskí fyrir heita pottinn og málið var dautt.
Nema fyrir gæsina sem kættist ákaflega.



 Það byrjaði þó fljótt að síga á ógæfuhliðina kostnaðarlega og hrunið hnykkti svo hraustlega á skelfingunum.
Þó við bændaskarfarnir höfum í gegnum tíðina verið góðir í því að hringja á væluvagninn þá sýnum við þó stöðugt meiri viðleitni í því að standa í lappirnar þó á móti blási.
 Nú er frækostnaðurinn á ha. kominn í 30.000  kallinn og rétt að minnast ekkert á olíu og áburð
 svo góða skapið sem ég er í akkúrat núna, endist frameftir deginum.
Það hefur lengi verið draumurinn að nota uppskeru haustsins til sáningar að vori og nú hafa staðið yfir flókin spírunarpróf undanfarnar vikur.

 

  Undirritaður hefur unnið þetta með gríðarlegri ábyrgðartilfinngu og þegar útkoman fór fram úr björtustu vonum var prófið endurtekið til öryggis.



 Manni fannst þetta ósköp fáar plöntur sem skiluðu sér uppí birtuna en niðurstaðan var samt um 93-95 % spírun sem er algjörlega frábært.

 Þá var lagst yfir aðra áhættuþætti sem koma upp við notkun á eigin byggi og þeim rannsóknum lauk síðan með samtali við hann Jónatan H. sem er náttúrulega stútfullur af fróðleik um málið.

 Það kemur alltaf ánægjutónn í röddina hjá honum þegar hann heyrir í mér  því hér vestra er Lómurinn hans notaður og virkar bara vel þrátt fyrir óhrjálegt útlit  á akrinum.

 En þó Lómakurinn sé lítill fyrir bygg að sjá kemur uppskeran oftast skemmtilega á óvart.

 Notkunin á honum býður þó ekki upp  á miklar væntingar um tvöfalda Whiskísjússa svo Judithin er notuð í talsverðum mæli til að dekra við áhættufíknina.

Og nú fer þetta allt að bresta á.emoticon

08.04.2011 06:28

Varmadælur og húshitun.

Fyrir margt löngu ( u.þ.b.10 árum.) skoðaði ég hagkvæmni þess að hita upp húsnæði með varmadælu. Ég eyddi ekki löngum tíma í það áður en það var blásið út af borðinu. 

 Nú er haldin fundaherferð um landið í boði Iðnaðarráðuneytis/ Orkuseturs til að kynna fyrir þeim tæplega 10 % landsmanna sem þurfa að búa við raforkuhitun nýja möguleika í notkun varmadæla.

 Það sem hefur breyst á þessum 10 árum er.

1. Tæknin hefur breyst m.a. með betri orkunýtingu.
2. Verðið á stofnbúnaðinum hefur lækkað umtalsvert og er verið að tala um svipað eða jafnvel        
    lægra verð í krónutölu en fyrir 10 árum.
3. Raforkuverð til upphitunar hefur snarhækkað.
4 Síðast en ekki síst  stendur nú til boða að þær niðurgreiðslur sem sparast ríkinu á næstu
   8 árum vegna breytinga í varmadælu eru greiddar sem eingreiðsla/styrkur.


 Það voru þeir Sigurður og Benedikt frá Orkusetri sem mættu á Breiðablik í gærkveldi og fluttu fundarmönnum fagnaðarerindið.
 Miðað við ákveðnar gefnar forsendur sýndu þeir félagar fram á að svona breyting gæti jafnvel borgað sig upp á 2 árum.



 Það mættu um 30 manns úr Borgarbyggð og Eyja-og Miklaholtshreppi.
 

Reyndar var líka farið yfir orkusparandi aðgerðir, uppbyggingu orkureikninga, hagkvæmni dreifbýlishitaveitna og m. fl.

Þeir félagar enduðu á að setja upp töflu með fjölda gjaldenda í Eyja og Miklaholtshreppi sem byggju við rafhitun og íbúafjöldann á bakvið þá. Þær tölur voru hinsvegar vægast sagt dularfullar svo útreikningar unnir úr þeim voru lítilsvirði í umræðunni þarna.

 Í þessu sveitarfélagi er býsna skrautleg flóran í orkumálum. Hér eru reknar 3 aðgreindar hitaveitur og tvö býlanna eru svo með heimarafstöð. Um fjórðungur íbúanna býr hinsvegar við rafhitun.

 Sveitarfélagið rekur borholu sem þjónar byggingum og íbúum í Laugargerði.

Í Eyjarhreppnum er hitaveitan Kolviðarnes sf. sem er komið upp og rekin af einstaklinum án aðkomu sveitarfélagsins og þjónar 9 lögbýlum og byggþurrkun Yrkja ehf.
 Þetta er trúlega ein af dýrari hitaveitum í dreifbýli sem hefur verið komið upp án aðkomu sveitarfélags.

  Síðan er hitaveita Eyja- og Miklaholtshrepps sem þjónar um 9 lögbýlum, kirkju, félagsheimili, fiskþurrkun, gróðrarstöð og þjónustukjarnanum á Vegamótum.
 Þar er sveitarfélagið hluthafi ásamt því að koma að félaginu með þolinmótt fé bæði vegna borunar og síðan vegna lagningu veitunnar í upphafi.

 Nú verður trúlega sest niður og reynt að vinna úr þessari stöðu en væntanlega horfa þeir sem búa við rafhitun á málið misjöfnum augum. Allt frá því að stefna á varmadælu sem í a.m.k. einu tilviki er á lokastigi og upp í það að láta sig dreyma um hitaveitu sem mun trúlega verða ákaflega óhagkvæm fyrir stærsta hluta þessa svæðis.

En stundum hafa menn litið framhjá því í dreifbýlinu því hægt er að reikna arðinn með margvíslegum hætti..
Flettingar í dag: 2678
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 650776
Samtals gestir: 57960
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:13:56
clockhere