05.07.2011 21:28

Umpólun á veðri. Allt á fullu í heyskapnum.


 Það er ekki nóg með að norðanáttin sé farin að fara á skikkanlegum hraða um Nesið sunnanvert, heldur er hitastigið allajafna komið í tveggja stafa tölu. Og það rigndi svo dálítið um helgina.

 Þeir sem eru byrjaðir heyskap eru oftast að bjarga því sem bjargað verður af túnum sem eru farin að brenna vegna þurrkanna. Sumir eru að prófa græjurnar og sem betur fer var svo komið (smá) gras hjá sumum.
 Við þessi umskipti í veðrinu hafa túnin tekið rækilega við sér og býsna margir hafa eflaust farið af stað með sláttugræjurnar í dag því nú lítur út fyrir góðan þurrk frameftir vikunni.


            Knosaravélin á fullu og síðan eigum við helming í annarri án knosara, með Hestamiðstöðinni.

 Hér voru slegnir rúmir 20 ha. í dag og sprettan var nú orðin ágæt og betri en ég hafði reiknað með. Vallarfoxið á sumum spildunum var þó tjónað eftir kuldana, blöðin gulnuð í endana og bláleit. Gamla túnið var farið að hvítna í rót þó manni fyndist það ekki fullsprottið o.sv.frv.

 Það er þó ljóst að það verða engin uppskerumet slegin í ár og seinni slættinum verður örugglega sinnt betur en undanfarin grasár þegar mönnum fannst háin vera til algjörra vandræða.



Já, það var nú ekki svona hávaxið á þessari spildu í ár og á þessari tæplega ársgömlu mynd.



  Þessar öndvegisgræjur er að afkasta jafn miklu í slættinum þó munurinn á stærðar og tæknibúnaði sé mikill á dráttarvélunum enda  25 ára aldursmunur.

01.07.2011 20:29

Hundar, tamningar og ræktunarlottóið.

 Það er rólegt í heyskapnum þessa dagana.

  Ég er hinsvegar allvel settur með önnur verkefni og læt mér ekki leiðast.

Nú hafa orðið kynslóðarskipti í vinnuhundunum mínum og þessa dagana er ég að venja nýja gengið mitt á að vinna saman ásamt því að komu flautuskipunum inn í forritið hjá þeim.

 Dáð frá Móskógum er að verða 3 ára og var notuð talsvert s.l. haust.


 Ég kann ágætlega við hana í vinnunni og hef sjaldan kynnst svona hlýðni áður. Hún vinnur ekki mjög vítt en mér finnst það fínt, sérstaklega þegar komið er í fjallaleitirnar.
 Foreldrar hennar þau Mac á Eyrarlandi og Dot í Móskógum voru bæði flutt inn mikið tamin og eru frábærir fjárhundar. Það að þau voru óskyld öllum  B C hérlendis, gefur mér mikla möguleika í ræktuninni þegar velja skal hund fyrir hana.

 Tinni frá Staðarhúsum sem er að verða tveggja ára er orðið mikið taminn og algjörlega klár í haustvinnuna.


 Ég kann ákaflega vel við þennan hund og það er gagnkvæmt. Hann hefur óþarflega mikla vinnuvídd en ég hef ekkert gert í því, enda hentar það mér vel í heimavinnunni. Þau verða því fullkomið tvíeyki í fjöllunum hvað þetta varðar. Bæði eru skemmtilega ákveðin og hiklaus í framgöngu og ef guð lofar, verður tilhlökkunarefni að leiða þau saman í fyllingu tímans.

 Þriðja dýrið sem verið er að vinna í er Snilld frá Dýrfinnustöðum undan Asa frá Dalsmynni og Frigg frá Daðastöðum.


  Snilld er að verða 4 ára, mikið tamin og að mörgu leyti öflugur fjárhundur. Hennar vandamál eru óþarflega mikill  vinnuáhugi og henni hættir til að vinna of nálægt þegar kemur að fínvinnunni.

  Það er verið að slípa þetta til og undirbúa hana undir að smala með nýjum eiganda í haust ef tekst að lenda eigendaskiptum farsællega.

 Það gengur ágætlega að slípa þau Dáð og Tinna saman enda bæði skemmtileg í tamningarvinnunni.



 Hér er Dáð í pásu og Tinni að vinna.



 Og Tinni bíður  hér frekari fyrirmæla hinn rólegasti meðan Dáð er send af stað.

Síðan eru þrjár tíkur í uppvexti hér og eru komnar á grunntamningaraldurinn.

 Frá v. Korka frá Miðhrauni F. Tinni. M.Táta frá Brautartungu.  Spes og Blondie frá Dalsmynni. M.Dáð. F. Glókollur frá Dalsmynni.
 Ef væntingar standast verður ein þessarra valin sem ræktunartík að lokinni tamningu, en hinar munu gera garðinn frægan á ókunnum smalalendum.

 Það sem angrar mig þessa dagana er að það gengur ekki upp að vera á fullu í búrekstri, temja 6 hunda og vera síðan með 3 reiðhesta á járnum.
 

28.06.2011 18:09

Eruð þið með á greni???

 Mér finnst alltaf meira til fjallagrenjanna koma, þó kannski blási oft kalt og stundum sé svo lágskýjað að maður lendir upp í skýjum lágnættisins í orðsins fyllstu merkingu.
 Maður er öruggari með sig og kann betur á rebbann þar, heldur en niðri á láglendinu þar sem kannski gerir áttleysu þegar verst gegnir og allt fer í uppnám.

 Og ekki er hægt að jafna saman umhverfinu með neinum  jákvæðum hætti fyrir flatneskjuna.
 Ég ætla að því leyfa ykkur að verða samferða á uppáhaldsgrenið sem að sjálfsögðu er innst á Núpudalnum

 
Hér fyrir miðri myndinni er móbergsdrangurinn Grenstrípur en á bakvið hann ber Steinahlíðarkollinn við himin og rétt grillir í toppinn á Skyrtunnunni fram af honum.



 Hér er sjálft grenið en ég fór ríðandi á það í þetta sinn. Ég þori að fullyrða að það hefur ekki verið gert áður enda síðasti 1/2 km ekki neinn hestavegur en þetta svæði er undantekningarlítið smalað gangandi.



 Gatkletturinn eða Gatsteinninn stendur hér stakur innaf Grenstrípnum en undir honum er gat sem glittir í, á myndinni.



 Hér er horft til suðurs frá greninu niður Grengilið og til v. sést fremst í Grenstrípinn og fremsta hluta Hvítuhlíðarkollsins fjær.



 Fyrstu árin mín í vinnslunni var oft á þessu greni og yrðu dýrin vör við mig komu þau gjarnan fram á brúnina hér ( vesturátt) til að taka vind af mér og átta sig á stöðunni. Eftir að ég eignaðist alvöruriffil gátu þau farið flatt á því.



 Það er svo sameiginlegt með öllum þessum móbergsmyndunum að þegar gerðist lágskýjað urðu þær óþekkjanlegar og mér fannst ég sjá skimandi rebbahaus uppfyrir allar brúnir.



 Hér sjáið þið svo Hrafnaklett. Hérna megin hans er djúpt gil, Háahryggsgilið sem sést ekki. Hinumegin klettsins er Hvítuhlíðarhvappið og við himin ber Hvítuhlíðarkollinn þar sem hann teygir sig upp að Múlabrekkunum.

 Þetta verður væntanlega síðasta grenjabloggið mitt, allavega þetta árið og takk fyrir að fylgja mér alla leið hingað.
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere