13.08.2017 22:02

Að vinna þröngt , vítt eða mjög vítt.

 Fyrir um 4 árum síðan vorum við Smali á námskeiði hjá  erlendum þjálfara. 

Smali sem vinnur mjög vítt að eðlisfari fór a kostum  og þeim erlenda leist mjög vel á hann. 

   Ég hinsvegar hélt því fram að þessi mikla vinnufjarlægð hentaði illa í fjallvinnunni, margfaldaði vinnuna/ hlaupin á hundinum og hafði allt á hornum mér. 

  Að sjálfsögðu er orðið langt síðan ég sá að við höfðum báðir rétt fyrir okkur.emoticon 

  Ég legg mikið uppúr því að vinnufjarlægðin sé hæfileg og finnst að sjálfsögðu langbest að þessi hæfileiki sé tilbúinn í hausnum á viðkomandi í upphafi tamningar. 

  Stundum er hægt að ná þessu fram í tamningu ef orginalið vantar  en of oft tekst " mér " allavega ekki að rétta þetta af , jafnvel ekki á löngum tíma.

   Og hundur sem vinnur of nálægt skapar iðuleg margvísleg vandræði í smalamennskum og heimavinnu. 

  Reyndar finnst mér miklu auðveldara að þrengja  hund, fá hann til að vinna nær þegar við á, heldur en fá hann til að vinna  fjær. 

  Á myndbandinu hér fyrir neðan sjáið þið vel hvað ég á við með muninum á hæfilegri vinnufjarlægð og óþarflega mikilli. 

 Held svo ég þurfi ekki að sýna neinum hvað gerist við of þrönga vinnu, þ.e. þegar hundurinn sækir í að vinna alveg ofaní kindunum..

 Á myndbandinu sjáið þið systkinin Korku og Smala vera send út saman  með skipuninni " vinstri sækja " .

   Smali fer mjög vítt hverfur útúr myndinni og kemur síðan inn eftir að 
Korka er búin að ná fullum tökum á aðstæðum.

    Hún fer hinsvegar beint á eftir kindunum þar til hún sér framá að komast fyrir þær. 

Þá víkkar hún sig. 

    Og þar sem hundar hugsa ekki  er  hún með eitthvað milli eyrnanna sem fær hana til að bregðast  hárrétt við þeim aðstæðum sem þarna verða.

  Og það er sláandi að sjá kindurnar stoppa um leið og þeir skynja hana fyrir ofan sig. Ef hún hefði haldið beint áfram og þrengt sig framúr þeim hefði þetta allt farið öðruvísi.  

   Það er rétt að taka fram að ég á til skipun á Smala sem fær hann til að þrengja sig, þó hún væri ekki notuð þarna.

   Líka rétt að taka fram að ég hef ekkert skipt mér af vinnufjarlægðinni hjá þessum systkinum.

    Seinna í myndbandinu sést síðan hvernig systkynin vinna saman, en samvinnan hefur þróast hjá þeim án afskipta frá mér, svona að mestu leyti. 

Smella  Hér.  til að fá slóðina.

23.07.2017 09:44

Og sumarið bara að verða búið

   Þegar ljósin fara að kvikna á ljósastaurunum síðla kvölds átta ég mig á að sumarið er að klárast á ógnarhraða.

 Stundum leik ég á það með því að slá út örygginu fyrir staurana en meira að segja ég, átta mig á  að það er skammgóður vermir. emoticon  

   En það er sem sagt á þeirri stundu sem rennur upp fyrir mér hvað ég á mikið eftir að gera fyrir haustið.

   Það sem af er sumri hefur samt verið mér býsna gott,- þó það eigi eftir að flokkast undir rigningasumar hér um slóðir. 


      Áð við Svínavatn, komin af Rauðamelsheiðinni á degi 4.

  Ein góð 5 daga hestaferð búin og önnur á teikniborðinu. Hvort hún dagi þar uppi kemur í ljós.  

  Óvíst að 7 daga ferðin norður strandir og suður dali verði framin þetta sumarið frekar en liðin sumur ,- en samt alltaf jafn skemmtileg á teikniborðinu emoticon . 

  Þrátt fyrir stöðugan niðurskurð í hundatamningum eru 5 st. i námi þessa stundina  2 "aðkomu " í bið og síðan er 7 hvolpa gotið undan Sweep verkefni haustsins og fram í mars. 

  Þá tekur vonandi við got no. 2 ef allt gengur vel með það emoticon . 

  Já hundarnir verða málið hjá mér næsta árið a.m.k.emoticon 

  Og ég get sagt ykkur það í trúnaði, að það að standa í þessu gengur ekki nema viðfangsefnin séu dálítið spennandi og skemmtileg. 



 Jaa, reyndar verður að vera ásættanleg aðstaða fyrir hendi líka, bæði gisti og vinnuaðstaða. 

  En þið fáið örugglega nóg af þeirri umræðu áður en lýkur emoticon .

Ég vil svo þakka þeim ykkar sem eruð að kíkja reglulega inn á síðuna mína þrátt fyrir langvarandi ördeyðu þar.  
Það verður  til þess að ég sest aftur við lyklaborðið og reyni að gera eitthvað. 

01.06.2017 21:07

Að rækta út " augað ".

Ég segi stundum ( en hugsa það oft ) að ekki sé nóg að hafa einhver stór nöfn í ættinni. 

    Þá er ég að tala um fjárhundaræktunina en ætli það eigi samt ekki við um fleira emoticon . 
  Þegar svo örvæntingin grípur mig heljartökum með einhvern vitleysinginn í kennslustund í smalahólfinu, grunar mig oft að í ættinni leynist eitthvað görótt sem hafi yfirtekið stóru nöfnin. 

   Reyndar læðist líka stundum að mér sá grunur að röngu genin erfist betur en þau góðu en þá er nú oftast tímabært að taka sér gott frí frá hundaþjálfun .emoticon 

   Eftir því sem ég verð eldri og værukærari  legg ég meiri áherslu á meðfædda góða hæfileika í hundunum sem ég er að fást við. Af fjórum helstu áherslunum hjá mér vigtar  " augað "  eða vinnulagið þungt .  


         Vaskur frá Dalsmynni var með allskonar á milli eyrnanna ;)

  Þessum eiginleika eins og ég sé hann, fylgir mikið öryggi í að fara fyrir, halda hóp saman og vinna af yfirvegun þó vinnuáhuginn sé mikill,- eða jafnvel mjög mikill. 


                       Korka frá Miðhrauni með allt á hreinu.

Það verður svo bara að segjast af fullri hreinskilni að þetta er eiginleiki sem ég hef saknað of oft í tamningum liðinna ára. 

   Á síðasta ári og það sem af er þessu hef ég t.d. verið með nokkur eintök sem eru sæmilega ákveðin, mjög áhugasöm en síðri í vinnulaginu. 
  Samt gengið sæmilega að ná ásættanlegri vinnufjarlægð í nærvinnunni. 
  Þegar farið hefur verið að lengja úthlaupin kemur í ljós mjög einbeittur brotavilji í því að þrengja sig inní hópinn og ráðast á það sem tönn er næst  en gefa skít í annað í hópnum. 
  Í sumum tilvikanna liggur gríðarleg vinna í að vinda ofanaf þessu ef það er þá hægt. 
  Í þessum tilvikum öllum, vantar augað / vinnulagið sem einkennir velheppnaðan  BC. 


 Tinni frá Staðarhúsum og Lukka frá Hurðabaki.

  Þetta eru dýr sem lækka sig ekki í vinnunni,- hafa ekki í sér öryggið og yfirvegunina. Það sem fylgir oftast hæfilegu " auga " og fjarlægðargeninu sem oft fylgir með.  

  Hundarnir sem voru með of mikið " auga " svo næmir að þeir " frusu " einhverstaðar úti á mörkinni og högguðust ekki nema kindahópurinn hreyfði sig voru líka hvimleiðir,- en í hina áttina. 

  Lítið af slíkum í tamningadýrum í dag.

Já, einhverra hluta vegna virðast of margir  ekki vera að leita að eða halda þessum eiginleika við í dag. emoticon
Flettingar í dag: 2678
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 650776
Samtals gestir: 57960
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:13:56
clockhere