15.10.2011 20:56

Stóri hrútadagurinn á Snæfellsnesi.

 Já, lamhrútasýningin á Snæfellsnesi fór fram í snæfellskri blíðu eins og hún gerist hvössust og úrkomumest.

 Þar sem varnarlína skiptir svæðinu var sýningin austan girðingar haldin í Haukatungu á föstudagskvöldi  og aðalsýningin síðan í Bjarnarhöfn í dag. (Laugardag.)

 Alls voru sýndir yfir 70 lambhrútar og var stærsti hópurinn hvítir hyrndir eða 45 talsins.

                                                 Frá sýningunni í Haukatungu.

 Næst stærsti hópurnn voru mislitu hrútarnir og síðan þeir kollóttu.



  Þarna voru upp til hópa frábærir hrútar og sérstaklega er gaman að sjá hvað það eru öflugir einstaklingar í mislita hópnum.


  Hér eru 5 efstu vestan girðingar. T.v. er Hriflonssonur frá Gaul sem lenti í öðru sæti og næst honum hrútur frá Hjarðarfelli sem varð þriðji. Allir algjört metfé.

 Dómararnir þeir Jón Viðar og Lárus Birgisson voru ekki öfundsverðir að gera upp á milli hrútanna þegar kom að endanlegri röðun.

  Sá efsti í þessum flokki og jafnframt sá sem dæmdist besti hrútur sýningarinnar var undan Gosa frá Ytri Skógum í eigu Ásbjarnar Pálssonar í S. Haukatungu.



 Og ég er ekki frá því að félagi Ásbjörn hafi bara verið nokkuð sáttur við daginn.



  Hér eru verðlaunahafar í hvítum hyrndum.



 T. v. Heiða á Gaul sem átti efsta hrútinn í fyrra en þann í öðru sætinu þetta árið. Ásbjörn  og síðan  Gunnar á Hjarðarfelli með þriðja sæti.



 Eigendur mislitu hrútanna . frá v. Arnar Ásbjörnsson Haukatungu, Lauga Hraunhálsi og Eggert á Hofstöðum.


Verðlaunahafar í kollótta flokknum. Harpa og Guðbjartur Hjarðarfelli, annað og fyrsta sæti og Herborg Sigríður í Bjarnarhöfn með þriðja sæti.



 Þessi stóð efstur af þeim kollóttu.



Ég held að þau Heiða og Júlli á Gaul hafi átt hrút eða hrúta í  lokauppröðun í öllum flokkum. Hér bíða þau hin rólegustu eftir niðurstöðu um toppsætin í hvítum hyrndum, þar sem þau náðu öðru sætinu og áttu síðan annan hrút í 5 hrúta röðun.



 Hér er Jón Viðar að messa yfir söfnuðinum. Nú voru í fyrsta sinn veittar viðukenningar fyrir skýrslufærðar ær sem stóðu efstar á svæðinu fyrir kynbótamat tiltekið árabil. Þar stóð efst einhver eðalær í Mýrdal  sem ég kann ekki að nefna.

 Það var Sauðfjárræktarfélag Helgafellssveitar og nágrennis sem sá um sýninguna og veisluna sem beið okkar þarna að loknum dómum. Algjörlega meiriháttar hjá þeim.

 Já, maður þarf greinilega að fara að taka á því, í ræktunarmálunum.

13.10.2011 22:05

Árhringur sauðkindarinnar á síðustu metrunum.

Nú fer að sjást fyrir endann á rolluárinu og styttist ótrúlega í að kindur verði teknar á hús og rútínan hefjist á nýjan leik.

 Réttarhöldum og leitum lokið, þó enn eigi eftir að fara á fjöll og ná kindum sem slæðast hér inná vesturhluta Eyjarhreppsins gamla.

  Það er ekki svo langt síðan að hér í sveitarfélaginu  (Eyjarhr.) voru nokkur þús. fjár á fóðrum en nú eru vetrarfóðraðar kindur  vel innan við 400 samtals, á 3 bæjum..

 Ágangurinn inn á svæðið er mikill og héðan frá Dalsmynni var flutt um 500 fjár misjafnlega langt að komið.

 Héðan var svo sent " allt " sláturfé rúmlega 200 st.á þriðjudaginn, en það endar í Hvíta Húsinu á Hvammstanga.

 Meðalvigtin kom mér skemmtilega á óvart en hún var rúmu kg. hærri en í fyrra . Gerðin lækkaði hinsvegar aðeins og fitan hækkaði um heilt stig.  Fylgdi sem sagt böggull skammrifi.  19,27 kg. - gerð 9.84. - fita 8.05.  Þetta er eins og gerist löngum í ræktuninni, alltaf eitthvað eftir til að stefna að.

 Nú er hrútasýningin framundan um helgina, bólusetning líflamba fljótlega í næstu viku o.sv.frv.

Og ekki dugar að loka svona rolluspjalli nema láta þess getið að heimtur eru með skásta móti, nánast kollheimtur á fullorðnu og  örfá lömb sem vantar.

 Og það rignir og rignir sem aldrei fyrr.

 

10.10.2011 22:43

Tveggja hunda rollur.

Hluti fjalllendisins sem ég sé um leitir á er dálítið stórskorinn og öðruhvoru verða til kindur sem kunna að nýta sér það til að framlengja fjalladvölina.

  Þar sem aðeins eru notaðir vel hundaðir úrvalssmalar, er þetta þó sjaldan vandamál.
Þær kindur sem þó komast á þetta  geta orðið erfiðar viðfangs og þær svæsnustu virðast gæta þess að fara aldrei langt frá giljum eða klettum sem þær geta forðað sér í.


   Hundarnir voru löngu farnir að halda sig vel fyrir aftan mig eins og þeir gera alltaf  þegar eitthvað fjör er framundan.

 Gamli maðurinn lagði á Hafursfellið í morgun eftir einni í erfiðari kantinum. Þrátt fyrir að berja Hrafnagjána augum oft á dag hafði ég aldrei stytt mér leið  í Geldingadalinn, upp hana fyrr.



 Hér eru Dáð og Tinni búin að ná tökum á viðfangsefninu og nú snerist málið ekki um að reka það eitthvað , heldur að stoppa mæðginin af og stýra þeim rétta leið niður úr dalnum.

 

 Það var ekki fyrr en í neðst klettabeltinu sem þau sluppu í kletta en þeir voru samt haldlitlir í vörninni.


 Allt komið í upphafsreitinn og nú var bara að fara nógu rólega það sem eftir, var svo hrússi kæmist á leiðarenda.



 Hér er svo smá slökunarstund meðan umboðsmanns eigandans var beðið til taka við ullarpöddunum brattsæknu.

Flettingar í dag: 2678
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 650776
Samtals gestir: 57960
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:13:56
clockhere