16.11.2011 22:39

Rebbaveiðin og grenjavinnslan í sveitinni.

Það er hátt til lofts og vítt til veggja fyrir rebbaflóruna í Eyja og Miklaholtshreppi.

 Þar eru þekkt tæplega 70 greni og þó þau sem oftast eru í ábúð séu ekki mörg, er samt farið á um 40 greni árlega.


 Í umræðunni skiptum við þeim í fjalla og láglendisgren og á tímabili voru fjallagrenin alveg dottin út en nú eru þau að koma inn aftur.

 Á þessu ári fækkuðum við sem erum ráðnir í grenjavinnsluna um 45 dýr í refastofni sveitarfélagsins.  
 Það flækir stöðuna hjá okkur að nokkur óþekkt gren eru á svæðinu og það er skýring þess að af þessum 45 dýrum var 31 fullorðið.


 Stundum fær maður fyrirvaralaust fréttir af hlaupadýri og einstaka sinnum gengur dæmið upp.

 Eftir að hafa lifað og hrærst í þessum málaflokk árum saman held ég því fram að hér sé ágætt jafvægi í villtu flórunni  þó mófuglinn sé ofnýttur á afmörkuðum  svæðum þar sem óþekkt gren komast upp árlega
.

 
      Þessi rjúpa hefur vafalaust verið tekin á hreiðrinu og eggin nýtt á staðnum.

Nú er mikil umræða í gangi um tilgangsleysi þess að halda úti skipulagðri refaveiði.
  Í þeirri umræðu finnst manni kannski dapurlegast þegar hámenntað fólk í þessum málaflokkum heldur fram skoðununum sem maður veit að eru alrangar og í besta falli barnalegar.
 Sláandi og dapurleg dæmi um slæma fjárfestingu skattpeningsins.

  Það verður  einfaldlega þannig, þar sem skipulögð refaveiði leggst af að það harðnar á dalnum hjá rebbanum þegar fjölgar í stofninum. Þá eru það harðskeyttustu dýrin sem taka völdin og sjá um viðhald stofnsins. Þau dýr sem stöðugt hafa verið grisjuð út af veiðimönnum.
 Það er þessi " náttúrulega " og væntanlega umhverfisvæna  ræktun sem mun skapa dýrbítana og öflugustu skaðvaldana í náttúrunni.

 Það er laukrétt að refurinn er einn af frumbyggjunum og á að sjálfsögðu sinn skýlausa rétt í landinum. Hann verður samt að sjálfsögðu að lúta því lögmáli eins og aðrir byggjendur á skerinu að rétturinn er ekki takmarkalaus.


                                                                                                  Mynd Keran Ólason.
 Að vitna í það að hér hafi verið náttúrulegt jafnvægi  í upphafi byggðar og takmarkalaus viðgangur refastofnsins hafi verið í góðu lagi er rökleysa.
 Einfaldlega vegna þess að það umhverfi  er löngu horfið og umhverfisumræðan er allavega ekki komin á það stig, að farið sé að ræða um að snúa klukkunni afturábak til þess tíma.
Öll skynsamleg umræða um vernd og hóflega nýtingu lands og sjávar er alltaf jafn þörf en öfgaöfl,  sem því miður hafa nú um stundir of mikil áhrif með þjóðinni fá vonandi sem fyrst völd við hæfi.

Já, svo mörg voru þau orð.

Flettingar í dag: 142
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 423879
Samtals gestir: 38577
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 07:30:31
clockhere