05.12.2011 19:41

Sveitamarkðarinn ****


Hinn árlegi Sveitamarkaður var haldinn að Breiðabliki  sunnudaginn 27 nóv.

 Þrátt fyrir mikinn snjó og válynt veðurútlit var ágætlega mætt, enda rjómavöfflurnar annálaðar og kaffið frábært fyrir utan aragrúa varnings ýmisskonar.



 Það er enginn alvöru uppstúfur með hangikjötinu nema með kartöflum frá Stínu á Hraunsmúla.



 Allskonar sérunninn sælkeravarningur kom munnvatninu á fulla ferð.



 Meira að segja kominn í gjafaumbúðir.



 Ég var ekki frá því að ég  kannaðist við þessa mórauðu gæru af Austurbakkanum. En þá var hún  nú töluvert meira líflegri en þarna.



 Ég stóðst ekki mátið að versla mér kæfu hjá henni Halldísi. Eins gott að tengdamamma frétti það ekki.



 En aðaltilgangur verslunarferðarinnar hjá mér var að kaupa ullarsokka hjá henni Lóu í Hlíð. Ég er nefnilega mikill ullarsokkamaður og birgðirnar sem ég keypti hjá henni í fyrra löngu þrotnar og drullukaldur vetur framundan.



 Ég er lengi búinn að leita að húfu og ullarpeysu með BC hundi í vinnustellingum og hef ekki fundið. Þessi húfa hennar Þóru Kóps hefur komist næst því, en það er nú samt ekki svo illa komið fyrir mér að ég fari að ganga með einhvern gjammara á hausnum. ( Eins gott að Ditta og Anna Dóra lesi þetta ekki.)



 Já það kenndi ýmissa grasa á markaðnum.



 Og þarna biðu vöfflurnar þegar búið var að gera upp innkaupin.


Svo er bara að mæta á næsta markað í kaffispjall og sokkakaup.

01.12.2011 23:37

Svona 2008 snjór og ???

 Hér á sunnanverðu Nesinu er snjórinn sjaldan langvarandi vandamál.

 Varla sést alvöru snjór síðan 2008 þegar allir áttu nóg af öllu.


                                Svona leit þetta út í skammdegisbirtunni í dag.

 Sá snjór fauk/ rann svo í burt í fyllingu tímans ásamt allsnægtunum hjá flestum, bæði ímynduðum og raunverulegum.

 Nú er semsagt komið fullt af snjó og alvöruvetur í kortunum svo langt sem séð verður. Reyndar ekkert að marka þá spámennsku en samt.

 Það  er hinsvegar fátítt  að hér fari allt á kaf í snjó á frostlausa jörð eins og núna.

Bóndinn veltir því fyrir sér svona með öðrum vangaveltum hvort það þýði minni eða meiri kalhættu ef það á nú eftir að blota og frysta í þennan snjó frameftir vetri.

 Það hefur nefnilega ekki kalið tún hér óralangt aftur í timann og ekki spurning um hvort það muni gerast á ný, heldur hvenær.

 Sem betur fer verður auðveldara að taka á því núna heldur en í den með alla þessa jarðyrkjugræjur í hringrásinni.

 

 Hér er horft norður Stóra Langadalinn í mars 2008. Það eru ekki margir staðir vélsleðafærir ofan í hann þó færið sé gott .


Hér er bakhliðin á Svörtufjöllum og rétt grillir í toppinn á Skyrtunnu  milli þeirra. Ekki mjög svört þarna.

 Já svona var þetta 2008 og kannski verður hægt að taka á stöðunni þarna í vetur.


              Dáð fékk nú lítið að gera enda komin í hvolpeignarfrí þó nokkrar vikur séu í got. Hún var samt höfð með til öryggis.

 Þessi dilkær var sest að á sólpallinum í Hrossholti í dag og þar sem ekki var hægt að bjóða henni nema inní forstofuna eða bílskúrinn á þeim bæ, var henni boðið að Dalsmynni.

 Hún var langt að komin lengst sunnan úr Hraunhrepp.

 Snjósleðarnir sem hafa verið í fríi síðustu vetur voru gangsettir í gær og gerðir klárir fyrir komandi átök.

 Síðustu ærnar verða rúnar á morgun og svo.........................................

28.11.2011 23:59

Snjóplæging, fuglar og flugsýningar.

Fyrst komu nokkrir fuglar og ekki er ólíklegt að þeir hafi sent einhverja út til að bjóða í veisluna því þeim fjölgaði ört.

 
                        Svörtu deplarnir  beint framundan yfir óplægða hlutanum er hluti af veislugestunum.

 Það var um 30 - 40- sm. jafnfallinn snjór þegar ég lét lét vaða í að plægja síðasta akurinn sem bylta átti í haust. Snjótittlingarnir sem voru eflaust í vondum málum í lausamjöllinni þyrptust að í plógstrengina og skiptu hundruðum áður en lauk.

 Mér fannst skemmtilegt að fylgjast með þeim því allur flotinn hélt sig alltaf aðeins framan við vélina.
 Sátu þar til ég var að komast að þeim,  síðan flugu þeir 30 - 50 m. áfram og settust og tíndu eitthvað í sig af miklu kappi þar til ég nálgaðist og þeir endurtóku þetta.



 Svörtu deplarnir aðeins til hægri eru sko ekki óhreinindi á rúðunni.

 Eftir því sem leið á plæginguna urðu þeir bíræfnari og flugu ekki fyrr en trakorinn var kominn samhliða þeim. En alltaf flugu þeir upp og héldu sig framan við plægingarmeistarann.



 Þeir léku svo ótal listir fyrir mig. Stundum var eins og skýstrókur myndaðist en furðulegast fannst mér þegar allur flotinn tók stóran sveig framfyrir, sneri við og stefndi beint á vélina.

 Þegar þeir nálguðust lækkaði flotinn flugið rétt eins og árás væri fyrirhuguð.  Allt í einu skipti breiðfylkingin sér , klofnaði fyrir framan vélina, sameinaðist aftur fyrir aftan hana, tóku svo sveig framfyrir og settust á akurinn. 
 
 Þetta gerðist þrisvar.

 Þá hafa þeir verið búnir að átta sig á því hvaða öðlingur var þarna á ferðinni, að eyða sunnudegi í að snúa öllu við fyrir þá.

Og nú er komið að ykkur að gefa þeim eða frændum þeirra í ótíðinni.
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere