08.06.2012 15:55

Lykla Pétur og ég.

 Ég er auðvitað alveg klár á því að það verður góður dagur hjá Lykla Pétri þegar ég kem skokkandi í fyllingu tímans. Og hann  verði snöggur að opna og gefa mér einn kaldan meðan ég blæs mæðinni.

 Þessa dagana er ég í nokkurskonar hlutverki hans í hliðinu á fjallagirðingunni lítandi rannsóknaraugum á  kindahópana sem bíða þess í ofvæni að komast í fjallasæluna.



 Reyndar eru þær kannski misáhugasamar um fjalladýrðina því sumar eiga sér þá ósk heitasta að fá að standa í túnunum allt sumarið, Aðrar láta sig dreyma um  að dúllast við kippa upp plöntum úr skjólbeltum og skógrækt minnar heittelskuðu,  nágrannanna eða eitthvað þaðan af verra.



 Rétt eins og Lykla Pétur tek ég mér stundum góðan tíma í að vega og meta þessa misjöfnu hjörð áður en hún sleppur í gegn en samt í talsvert öðrum tilgangi .



   Þessi úttekt á uppskeruhorfum sauðfjárræktarinnar þetta árið er með ánægjulegasta móti og allt útlit fyrir að nú stefni í góðan árgang í þessari framleiðslugrein hér.



 Þessi geislað nú ekkert af áhuga á fjallaferðum en upp fór hún samt og þrælrafmögnuð túngirðingin bíður hennar ef túngrasafíknin verður henni ofviða.



 Það er mun hlýlegra fyrir þær að yfirgefa láglendið núna en fyrir ári síðan þó að allt sé nú reyndar að skrælna nú sem þá.



 Næsta mál á dagskrá er svo grenjavinnslan sem er alveg að bresta á.

04.06.2012 20:45

Vaskur. - Talstöðvar og tæknileg vandamál.

 Það var verið að leita Rauðamelsfjallið.

 Þetta var seinna haustið sem Vaskur var með talstöð sem aukabúnað og þar sem ég var einnig í sambandi við 2 félaga mína þurfti ég að skipta um rás eftir því hverjum skyldi tuða í.


 Þarna að vísu í öðru tilefni en talstöð í hálsbandinu var notuð með góðum árangri í tvö fyrstu haustin.

 Við vorum efstir í vesturfjallinu og þar sem var vanmannað sem endranær var langt á milli okkar þriggja sem vorum samhliða þarna niður. Ég var sá eini sem sá oftast yfir svæðið og sagði því félögunum til eftir þörfum, enda sáu þeir ekki alltaf hvorn annan.

 Efst fyrir ofan mig endaði hlíðin á löngum kafla í mikilli grjóturð og þó urðin væri víðast ekki fær nema fuglinum fljúgandi voru þó á einstaka stað einhverjir krákustigar sem féð sótti í til að sleppa úr leitinni.


 Þetta er nú yngri mynd með aðra og öðruvísi hunda en grjóturðin er sú sama.

 Ég þurfti að vera 1-200 m.neðan brúnarinnar svo ég sæi félagana en Vaskur var oftast talsvert ofar og framar en þarna lagði ég mikla áherslu á að ná fénu beint niður hlíðina í veg fyrir félagana því leitarsvæðið átti eftir að breikka verulega og verða vandleitaðra.
 Þarna kem ég fram á hæðarbrún og sé um 10 kinda hóp talsvert framar og ofar .
  Það er stoppað og ákveðið  að senda Vask umsvifalaust upp og framfyrir þær áður en komi styggð að þeim.
Talstöðin tekin upp og skipunin-"hægri, hægri upp"- gefin, lágri ákveðinni röddu.

Ekkert gerist,  Vaskur stoppaður eins og ég bíðandi eftir að e.h. gerist.
Skipunin er endurtekin enn ákveðnar en ljóst að hundurinn er dottinn út.

Ég leit á talstöðina og krossbölvaði þegar ég sá að smalarásin var inni, skipti yfir og endurtók skipunina. Nú var kominn smá stresstónn í röddina enda tók Vaskur mikið viðbragð, hækkaði sig upp að urðinni og sá kindurnar stuttu seinna.

Hann þurfti ekki frekari fyrirmæli, gaf aðeins í og fylgdi urðinni þar til hann var kominn framfyrir kindurna sem urðu hans ekki varar fyrr en þá.

 Ég stillti hann af og lét hann fylgja hópnum .þannig að þær lentu innan við gil sem þær fylgdu síðan þar til þær komu að götu yfir það og þar með komnar í leitina hjá næsta manni.

 Nú fór ég að huga að félögum mínum.

Þeir höfðu greinilega meðtekið hægri skipunina fljótt og vel því báðir höfðu tekið 90° beygju upp hlíðina og höfðu sitthvað að segja við mig þegar  ég var búinn að skipta yfir á þá aftur.

01.06.2012 08:25

Sólin skín, refastofninn í lágmarki og hriktir í hestamennskunni.

Suma dagana er logn. Aðra daga  er mismunandi mikill hraði á því.

En sólin skín- og skín. Samkvæmt langtímaspá mun svo verða enn um sinn.

 

 Túnin sem eru slegin síðast eftir að hafa sprottið hæfileg úr sér, til að henta fyrir útigang og sauðfé um miðjan veturinn, fengu áburðinn sinn í gær. Það var ekki lagt í að bera á fyrir miklu rigninguna um hvítasunnuna. Ef þurrkurinn helst eitthvað frameftir júní eiga menn eflaust eftir að sjá eftir því.
 
 Önnur tún eru á fleygiferð þrátt fyrir þurrkinn og stefnir í slátt með fyrra móti ef kuldarnir frá í fyrra verða ekki vaktir upp.



 Lömbin blása út og ærnar blása nú reyndar líka þegar hitinn er kominn úr öllu hófi, logndagana.

Þær eru farnar að liggja við hliðið og vilja fara að komast á fjöll.

Ég hef mikinn skilning á því en held að vanti aðeins á gróðurinn en prófsteinninn er nú alltaf sá að sleppa hóp og hóp og vita hvort þær koma til baka niður í hlíðina eftiur nokkra daga.

 Þessi kvöldin er tekinn rúntur um svæðið og athugað hvað sést af lágfótu.

Bæði til að átta sig á hvar sé von á grenjum og fækka gelddýrunum aðeins.



 Það hefur fækkað um 3 síðustu kvöldin og eitthvað til enn. Samt er rólegra yfir tófuslóðunum nú en oft áður.



 Atli og Pína unnu fyrsta minkagrenið í gærkveldi frá því að minkaveiðiátaki lauk á Snæfellsnesi . Það var á útjaðri þess svæðis og nú er að vita hvernig gengur að lágmarka fjölgun á því svæði innan sveitarfélagsins.



 Það er ekkert farið að huga að járningum enn og ýmsar blikur á lofti með það þetta sumarið.

Það er gamalkunnugt vandamál að þegar áhugamálin eru of mörg og tengjast svo vinnunni í þokkabót þá hriktir einhversstaðar í.
Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere