28.01.2009 23:23

Gúrúinn minn, og kreppan er leyst.



   Gúrúinn minn sem hringdi í mig í kvöld, er ekki sá munaðarlausi sem ég var að vitna í um daginn.

    Þessi er einn af þessum gegnheilu framsóknarmönnum sem bregður hvorki við sár né bana ef því er að skipta.

    Hann sagði mér það í óspurðum fréttum að hann væri með lausn á öllum vandræðunum.

  Ríkið ætti nú að einhenda sér, nú eða tvíhenda sér í það að taka alla lífeyrisjóði landsins yfir,  rétt eins og galtóma bankana. Eignir lífeyrissjóðanna myndu svo duga til að borga upp allar skuldir landsins og gott betur.
  Þó nú styttist óðfluga í að ég komist á aldur, leist mér ágætlega á þetta , enda lífeyririnn sem beið mín hjá mínu stéttarfélagi ekki til þess fallinn að láta mig hlakka til elliáranna. Ég benti honum þó á, að þetta gæti farið illa með suma og hafði þá í huga aflagða stjórnmálamenn, sérstaklega  þá  sem stendur nú til að hrekja úr öruggum vígum sínum og gera atvinnulausa.
   
 Gúrúinn blés þessar mótbárur útaf borðinu. Í framhaldinu myndi ríkið að sjálfsögðu annast eftirlaunapakkann og það yrði gert með jöfnum greiðslum til ALLRA.  Ég fengi jafnmikið og Dabbi, eða jafnlítið réttara sagt. 

  Þessu er hér með komið á framfæri við þá sem nú eru að taka við stjórnartaumunum.

   Hann kvað svo fast að orði,þegar að útskolunin úr Seðlabankanum barst í tal og mér fannst illa farið með peninga, að splæsa 200 millum í það verk. Hann fullyrti að væri sú langbesta fjárfesting sem væri í spilunum í dag, og ef þessi peningur hefði verið settur í verkið fyrir nokkrum misserum hefðum við séð ævintýralegri ávöxtun en svikumyllugreifarnir hefðu séð í sínum villtustu draumum.

  Ég óskaði honum svo auðvitað til hamingju með erfðaprins þeirra framsóknarmanna sem vill ólmur hasla sér völl í fásinninu hér í NV kjördæmi.  Ég lét þó í ljósi nokkrar áhyggjur af skoðunum kandidatsins á ESB inngöngunni.

Honum er þá illa í ætt skotið ef hann getur ekki talað sig frá því, sagði gúrúinn en var greinilega ekkert áfjáður í að lýsa nánar skoðunum sínum á því máli.

Nú er bara að bíða eftir að næsti gúrú hringi, í leit að góðum hlustanda.emoticon

27.01.2009 21:59

Hækkandi sól.

 



   Þó ég leggist nú ekki í neitt svartnætti í skammdeginu læt ég það stundum fara í pirrurnar á mér.

 Nú þegar daginn tekur að lengja, lifnar yfir manni og þegar síðan kemur hver góðviðrisdagurinn á fætur öðrum þá finnst manni allt vera á réttu róli.

      
  Nú er svo ný ríkisstjórn að taka við og þó hún taki nú örugglega ekki flugið svona glæsilega og hafi takmarkaða tiltrú undirritaðs, verður fróðlegt að sjá hvernig þeim gengur að vinna saman, þessum ólíku flokkum.

  Í dag er alhvítt yfir, stillur,  frostlítið og ný ríkisstjórn sem ætla að redda málunum, og daginn lengir ört. Hvað er hægt að biðja um meira eftir þetta myrkastra skammdegi sem elstu menn muna.

  Þótt það hafi nú verið af mannavöldum.



  Svona leit sólin út fyrir rúmum mánuði síðan um hádegisleitið.




  Þessi mynd er nú reyndar líka tekin núna í skammdeginu með tungl  á lofti um hádegisbil.,




    Horft norður Stóra Langadalinn í fyrravetur. Skyldi koma svona færi í vetur?






 Já það þýðir ekkert að barma sér, en allt í lagi að tuða dálítið öðru hvoru. emoticon



 

 




 

25.01.2009 21:32

Maður dagsins.



  Háttvirtur viðskiptaráðherra er maður dagsins.

Ekki kannski vegna þess að hann standi fyrir það sem mér finnst trúverðugt  í stjórnmálum .
  Heldur vegna þeirrar stjórnmálalegu kænsku að yfirgefa ráðherrastólinn á síðustu metrum stjórnarinnar og sleppa því við það hlutskipti félaga sinna, að daga uppi eins og náttröll í fyrstu ríkisstjórn á Íslandi sem hrökklast frá völdum vegna gríðarlegrar andstöðu almennings.


 Það verða allir fljótir að gleyma því að þetta átti að gerast svona 100 dögum fyrr.emoticon

  Og nú er eina vitið að skipa utanþingsstjórn til að reka batteríið fram að kosningum.


Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere