08.02.2009 09:53

Þriðji gúrúinn og gjaldeyrismálin.



  Þeir klúðra þessu Svanur minn, þeir geta ekki annað sagði vinur minn sem ég hitti nýlega.

 Við vorum að ræða nýju stjórnina og þó ég beri nokkurn ugg í brjósti um það, að þessi minnihlutastjórn leiði okkur ekki út á rétta veginn tók ég samt ekki undir þetta og benti á að alla vega væri nú vinnufriður til að gera eitthvað.
 
   Vinur minn sem þrátt fyrir að vera gegnheill sjálfstæðismaður er eldklár náungi, og þó aðdáun hans á Davíð gegnum tíðina hafi verið mikil er hann löngu búinn að afskrifa hann í seðlabankanum.

    Það var svo þegar ESBið bar á góma  sem hann komst á flug, í framhaldi þess að ég sagðist nú bara vera hættur þessu búskaparbrölti ef við lentum þar inni.
   Nú væru menn enn á ný að ná áttum í þeirri umræðu, sagði gúrúinn og Samfylkingin sigi saman eins og sprungin blaðra ef skoðanakannanirnar sýndu lítinn stuðning við málstaðinn.



 Sauðfjárbúskapurinn færi trúlega skárst útúr ESB inngöngu.  Þessi ungi maður á kannski eftir að búa með 1.000 fjár einhverstaðar sem friður er til þess fyrir skógræktarmönnum.

  Og þegar ég benti á að gjaldmiðillinn væri óleyst vandamál og farið úr öskunni í eldinn að láta olíuverðið hjá norsurunum stjórna genginu, og Evran  trúlega eina vitræna lausnin( þó ég hafi ekkert vit á þessu) hnussaði í honum.

  Þetta ætti að leysa þannig að stjórnvöld gerðu ekkert í málunum, sem lætur þeim náttúrulega afar vel.
  Við hinir, hinn almenni borgari ættum hinsvegar að taka upp evruna í rólegheitum okkar á milli.
 Ég gæti til dæmis gert búið upp í evrum, gert upp launin í evrum annanhvern mánuð , hinn mánuðinn í ísl. kr. o.sv. frv.  Það er að vísu lítið um evruna í gangi hér í augnablikinu en þetta kæmi allt ef við höldum áfram að flytja út fyrir meira en við sóum í innflutninginn.

  Innan nokkurrra ára væri við svo bara komin með evruna sem gjaldmiðil og gætum síðan lifað hér í vellystingum praktuglega, frjáls og óháð með fiskinn okkar og landbúnaðinn og náttúrulega álverin, og allar virkjanirnar, komnar og ókomnar.

  Og þó íslenska landnámskýrin sé dálítið þung í rekstri borguðu menn glaðir með henni áfram í þessum sjálfsþurftarpakka eins og öllu hinu, í kerfinu. 

 Áfram Ísland.emoticon

  Það var  fallegt á fjöllum í gær.



 Eins og alltaf.emoticon 
   

 

06.02.2009 09:14

Hestasjóið.


  Fyrir margt löngu þegar afinn var ungur og sprækur taldi hann sig vera mikinn hestamann.
 Enda má segja að nokkrum góðum árum ævinnar hafi hann eytt meira og minna í hnakknum.
Hann áttaði sig nú samt á því um síðir, að honum væri ýmislegt betur gefið, reyndar uppgötvaði hann það töluvert seinna en hans nánustu en betra er seint en aldrei.

  Nú þegar norðanbeljandinn og grimmdarfrostið var farið að fara í pirrurnar þá bauð afastelpan í hestasjó.

  Hún og amman renndu við á leiðinni úr skólanum og tóku afann með niður í Hestamiðstöð.
Á leiðinni var þeirri stuttu tíðrætt um að nú færi hún alein á bak.  Aðspurð um hvað ætti að leggja á var fátt um svör og þegar taldir voru upp líklegir gæðingar var öllu játað samstundis. Þarna virtist öryggi heimildanna álíka og hjá afanum þegar sá gállinn er á honum. Á tímabili voru reyndar öll hross hjá þeirri stuttu, Gloría gamla, en það breytist nú hratt þessa mánuðina.



  Nú er maður að verða klár í slaginn.

                                Hérna er pískurinn afi.

  Hestakosturinn reyndist vera hann Glampi gamli, sem er mun meðfærilegri við þetta en í hrossarekstri, þar sem honum hefur stundum tekist að koma blóði rekstrarmanna á hreyfingu og aukið fjölbreytnina í orðavalinu.



 Lokaðu svo á eftir mér mamma.



        Hérna erum við að velta fyrir okkur að að fara hægatöltið.



            Hérna er hún að veifa viðstöddum og afa og ömmu í Snartartungu líka

      En þegar sú stutta fór að krefjast þessa að auka hraðann , sagði afinn gott og heimtaði kaffið sitt.

   Já, það verður trúlega erfitt að halda dömunni frá hestasýkinni.

04.02.2009 22:33

Enginn bóndi nema hann berji sér.



    Já lífið er ekki alltaf dans á rósum í búskapnum og þótt hann Steingrímur hafi ríkan skilning á erfiðri fjárhagsstöðu a.m.k. 40 % bænda og gefi undir fótinn með að létta okkur áburðarkaupin í vor, er samt sitthvað til að ergja okkur.

    Eftir að hafa í mörg ár búið við tiltölulega áhyggjulaust líf hvað það varðar  afsetningu nautgripa sem einhverra hluta vegna áttu erindi í sláturhús, brá svo við tiltölulega fljótt eftir andlát bankanna, að neyslan á nauta og kýrkjötinu snarminnkaði, nú eða afsetningin jókst.

   Alla vega er aftur gengið í garð gamla biðlistadæmið og nú skráir maður gripi á biðlista og svo líða mánuðir þar til eitthvað gerist. Og það eru aftur endurvaktar grunsemdirnar um að þeir frekustu verði fyrstir (og ég verði síðastur.).



  Þær geta verið áhyggjulausar blessaðar ef svo heldur sem horfir. Já enda eru þær það.

  Það var svo um sama leiti og kvisast fór  að Hraungerðisbóndinn væri á útopnu að stuðla að orkuframleiðslu, sem gæti í fyllingu tímans gert allt olíusull norður af landinu óþarft og kannski Össur í leiðinni, sem ákafur niðurgangur fór að herja á kúastofninn í Dalsmynni.

  Þó kýrnar yrðu nú ekki fárveikar , minnkaði nytin umtalsvert og bændurnir voru ákaflega varir um sig í fjósinu og reyndu að komast hjá því eins og mögulegt var að lenda í hugsanlegri skotlínu ef .....

  Sem betur fór voru kýrnar nokkuð tillitsamar með að létta ekki á sér í mjaltabásnum þó aldrei yrði komist hjá óhöppum og skafan og spúllinn alltaf höfð til taks.


    Hér var lífið áhyggjulaust. Engin kreppa komin, hægðirnar hjá kúnum í góðu lagi og fylgi ríkisstjórnarinnar í hæstu hæðum.

    Og þegar leitað var áfallahjálpar hjá dýralækninum lét hann sér fátt um finnast og taldi svona uppákomu hinn eðlilegast hlut, svona annað til þriðja hvert ár.
    Enda hefur hann litla samúð fengið hjá mér í hrakförum flokksins hans undanfarið.

  Já, Steingrímur ætlar allt að gera fyrir okkur bændurnar.

     En ég er ekki frá því að hann muni fórna hvalnum fyrir stólinn sinn.emoticon 


    


 
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere