27.05.2009 01:14

Ósnortið votlendi. mófuglinn og rebbarnir.

 Við komum á grenið um níuleytið um kvöldið. Það var greinilegur umgangur á því og við komum okkur fyrir og hófum biðina eftir ábúendum sem hvorugur var heimavið.

  Það var tvennt sem gerði þetta dálítið meira spennandi en vanalega. Annarsvegar vorum við þarna á nýju grenjavinnslusvæði, en við höfðum tekið við grenjaleitinni í gamla Miklaholtshreppnum þá um vorið( 2001).
 Hitt var, að þarna vorum við komnir niður á láglendið en til þessa höfðum við einungis kynnst grenjavinnslunni í fjalllendinu í Eyjarhreppnum.


   Þetta er alvöru fjallagreni í um 500m hæð í Hafursfellinu sem ég fann fyrir nokkrum árum, eftir mikla
leit og djúpar vangaveltur. Það stóð undir vetraveiðinni hjá mér í þó nokkur ár, áður en það fannst.

 Miklaholtsgrenið er í einu af klapparholtunum sem standa uppúr miklu flóaflæmi sem liggur milli Laxár og sjávar og síðan austurúr. Þetta er gríðarstórt svæði trúlega á annað þús. ha. og langstærsti hluti þess alveg ósnortinn af mannavöldum, síðan skóginum hefur væntanlega verið eytt í den.

 Þarna eru forblautar mýrar með stöku klapparholtum, með vísir af þurrlendismóum næst sér.
Það er síðan aðeins þurrara næst sjónum og með ánni, en með sjónum liggur að hluta gömul þjóðleið sem nú er mikið notuð af hestamönnum á leið um Löngufjörur.

  Á þessum tíma var einungis vitað um tvö gren á svæðinu. Miklaholtsgrenið sem við lágum á, og annað alveg vestur við Straumfjarðará. Þangað voru nokkrir km. í beinni loftlínu.

 Þetta kvöld var alveg stafalogn, hlýtt í veðri og einstaklega hljóðbært í kyrrðinni.
Við heyrðum og skynjuðum þungan sjávarniðinn við ströndina sitthvoru megin og við Skóganesið.

 Það var þá sem ég áttaði mig allt í einu á, að eitthvað vantaði algjörlega á svæðið.

Það var sama og ekkert fuglalíf í flóanum.

 Ég heyrði öðruhvoru í einum stelk. Síðan voru þarna spóar á stangli, örfáir og virtust ekki vera á hreiðrum eða með unga. Hinsvegar var talsvert af kjóa víðsvegar um. Hann var greinilega á hreiðrunum og hvergi banginn í þeirri óáran sem virtist hafa gengið yfir svæðið, sem er þó algjörlega laust við allt ónæði af mannavöldum, nema kannski á haustin ef einhverjar rolluskjátur skila sér ekki úr holtunum á skikkanlegum tíma.

 Við unnum grenið um kvöldið og það við Straumfjarðarána næstu nótt.

  Um vorið og sumarið fundust 3 greni til viðbótar á svæðinu. Eitt eftir mikla leit, eftir að hafa fylgst með dýrunum nokkrar nætur, hin fyrir algjöra tilviljun. Samtals náðust þarna um vorið og sumarið 10 grendýr og 3 hlaupadýr að ótöldum um 30 yrðlingum.


 Á einu þessarra grenja eru stundum snoðdýr . Það eru uppi ýmsar kenningar  um orsakirnar en mér finnst  alltaf jafn ömurlegt að  lenda í því að vinna  þau greni.

 Næsta vor var síðan búið á öllum þessum grenjum, sem sagði okkur það, að á svæðinu hefði verið slatti ef gelddýrum sem tóku yfir óðulin um leið og þau losnuðu.

 Það er enn dálítið af tófu á þessu svæði og yfirleitt búskapur á tveimur til þremur grenjum á vorin, en nú er fuglalífið blómlegt og síðasta vor sýndist mér vera rjúpnapar á hverju holti.

 Skógarnesbændur eru samt ekki sáttir við vini sína í grenjavinnslunni og láta okkur óspart heyra, að allt sé vaðandi í tófu, sem haldi niðri svartbaksvarpinu og öðrum gamalgrónum hlunnindum.

 Það er ekki legið á því að ein álpaðist undir bíl hjá þeim í fyrra, sem sýni ástandið í hnotskurn. 

En það hefur alltaf fylgt grenjavinnslunni að gert sé dálítið grín að skyttunum.

 Ég er hinsvegar  sáttur við stöðuna enda ekkert eðlilegra en að sjá tófu bregða fyrir, þó hóf sé best á hverjum hlut.

 

 

25.05.2009 03:50

Allt að róast í sveitinni og sleppitúr framundan.

 Nú er mesta annríkistímabili búskaparárhringsins í sveitinni að ljúka.

 Yngri dóttirin mætt í sveitina og yfirtekur þar með stífustu næturvaktina í sauðburðinum sem er nú reyndar orðið svona eftirlit , enda fáar óbornar.
 Sauðburðurinn hefur gengið vel og þegar helsta umkvörtunarefnið er of mikil frjósemi vorkennir manni enginn.
 En fyrir utan gemlingana sem munu ganga með tveim lömbum í sumar eru a.m.k. 7 þrílembur sem sitja uppi með þrjú lömb.

 Akrarnir eru sem óðast að taka lit hver á fætur öðrum og grasið þýtur upp, sem segir manni að ekki eru margar vikur í slátt. Búfjáráburðurinn á þeim túnum sem ekki hafa fengið áburðinn sinn hefur dugað þeim vel í vorstartið og nú verður áburðardreifingunni sem eftir er, lokið næstu daga eða um leið og gefur í það.

 Rigningin sem kom í gær var vel þegin því allt var orðið skraufaþurrt enda velþekkt, að um leið og óþurrkakafla lýkur þá fer að vanta rigningu og öfugt.

  Nú fer að styttast í sleppitúrinn sem verður framinn á efri mörkum suðurlandsins í ár.


                               Áð við jökullónið á Breiðamerkursandi í síðasta sleppiutúr.

 Bæði ég og hluti ferðahestanna minna þurfa á smá endurhæfingu að halda eftir hóglífi vetrarins og nú verður farið sér í það mál.

Eftir undangengið álagstímabil er ég orðinn óhóflegur kaffifíkill en einn megintilgangur sleppitúrsins er eimmitt að afeitra mig í kaffidrykkjunni sem er undantekningarlaust afar hófleg í þeim ferðalögum.

 Hér er hópurinn í síðasta túr en nú er 16 bókaðir í ferðina og er þar valinn maður í hverjum hnakk.

 En bara einn alvörubóndi.

 Við fengum gott veður í Suðursveitinni í fyrra og hér erum við Ingimar í Jaðri búnir að gleyma úrhellinu sem helltist yfir okkur  lungann úr deginum áður og erum furðu brattir á kveðjustundinni en það var að sjálfsögðu áð í hlaðinu hjá honum og skorið utanaf einu hangikjötslæri.

 Já, þetta sumar verður að öllum líkindum alltof stutt fyrir allt það skemmtilega sem þarf að gera.

23.05.2009 02:14

Byggræktin og blótsyrðin.


  Það er hægt að skipta byggræktinni í svona þrjú áhættutímabil, sem geta kallað fram slæman munnsöfnuð og hugrenningar hjá eldri Dalsmynnisbóndanum ef illa gengur.

 Nú er því fyrsta, sáningunni lokið og óhætt að segja að þetta hafi verið vont tímabil hvað ofangreint varðar.
  Sáningin gekk seint og illa sem þýðir það að önnur bráðnauðsynleg vorverk svo sem áburðargjöf og grænfóðurrækt dragast úr hömlu, en akuryrkjunni þetta vorið lauk í gær með völtun á grænfóðurökrunum. 
 Hér var sáð í um 17 ha. í byggi og 5 ha. með rýgresi þetta árið. Rýgresið er ætlað til beitar og sláttar en reiknað er með að slá meirihlutann af því tvisvar og beita það síðan í haust.

 Yngri bóndinn sem sér um þennan hluta rekstrarins að mestu, ásamt áburðargjöfinni á túnin hefur lítið sést, þar sem hann er m.a. yfirsáningarmeistari hins forna Eyjarhrepps og þótt víðar væri leitað.


  Hér er fallegur byggakur í ágústbyrjun. Rétt er að taka fram að Vaskur er með allra stærstu Border Collieum sem sjást.

 Vonandi verður sumarið svo gott að það bæti upp þessa síðbúnu sáningu og áburðargjöf sem er ekki nærri lokið ,

  Seinni áhættutímabilin í byggræktinni eru þreskingin í haust og síðan lokauppgjörið á dæminu, sem þýðir oft afspyrnuslæman munnsöfnuð þegar taptölurnar fara að skýrast.


 Ef öll tímabilin reynast slæm er áframhaldandi byggræktun komin í nokkra hættu a.m.k. þar til komið er að fræpöntun fyrir komandi vor.



 Þá safnast ræktunarhópurinn saman, fær sér nokkra bauka, fyllist bjartsýni fyrir komandi ræktunarár og pantar sáðbygg sem aldrei fyrr.


Þessi hringrás á nú kannski við um fleiri þætti búskaparins en byggið.emoticon 

 
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere