10.10.2010 07:06

Ævintýraland og örnefni.

Hvort heldur ég mæti í Tungurnar (Geithellistungur) þungvopnaður til að kanna hvort óvelkomin refahjón hafi tekið sér ábúð hjá mér, eða á smalaskónum að elta rollur fylgir því alltaf ákveðin notalegheit fyrir sálina að koma þar.

 Það eru um 50 ár síðan ég byrjaði að skondrast þar um í leitum með eldri systkinum og á þeim tíma hefur viðhorf mitt til landsins og alls annars, trúlega breyst miklu meira en ég geri mér grein fyrir.


 Moldarmúlinn og Leirdalurinn innan hans er  innsti hlutinn Tungnanna  en í Leirdalnum  á Núpáin upptök sín

Náttúruundrin í landinu á þessu tiltölulega litla svæði eru alveg ótrúleg og þó ég hafi eflaust á fyrstu árunum litið á þennan ævintýraheim sem eðlilegasta hlut í heimi er langt síðan ég áttaði mig á því þessi hluti alheimsins er býsna sérstakur.


 Ég hljóp  framhjá fossaröðinni framanvið Moldarmúlann í den án þess að sjá hana en núna hef ég alltaf tíma til að staldra við en mislengi samt.
Snúi ég mér við á þessum punkti og líti niður ána blasir þetta við.

.

 Ef ég hefði lagt fyrir mig jarðfræðinám  gæti ég útskýrt þetta nánar en þetta er allavega flott.

Þetta  gil hér heitir ýmist Illagil eða Moldarmúlagil og liggur sunnan Múlans og á upptök sín milli Skyrtunnu og Svörtufjalla.



Skyrtunnan er trúlega eitt af þekktustu örnefnum Snæfellsnessfjallgarðsins.
Hún kemur beint uppaf Moldarmúlanum og hér  eftir hryggnum  er greiðasta leiðin uppá hana.

 Ég velti því fyrir mér á tímabili hvort hefði orðið til á undan, þjóðsagan um tröllkonuna eða örnefnin sem tengjast sögunni en hvorutveggja hefur allavega fylgt okkur um aldir.



 Aðeins sunnar en Skyrtunnan eru Svörtufjöll og til hægri Steinahlíðarkollurinn. Milli Kollsins og myndsmiðsins er svo Illihryggur.



 Samkvæmtum kortum og öðrum heimildum heitir þetta móbergsfjall " Svartafjall" ( eða Svartfjall).
Það er hinsvegar mjög sterk málvenja fyrir því hér á svæðinu, allavega aftur til 19 aldar að talað er um það í fleirtölu "Svörtufjöll".


Hér er horft niður Grenstrípsgilið með Grenstrípinn til hægri. Neðar glittir i Núpána og uppaf henni liggja Eyjalágarnar til vesturs.



 Hér horfum við á Grenstrípsgilið úr hinni áttinni með Grenstrípinn til vinstri. Steinahlíðin og Svörtufjöll í baksýn.


 Hér sést munninn á hellinum sem talið er að Tungurnar beri nafn af. Að vísu eru tveir aðrir hellar á svæðinu en samkvæmt Kristjáni Eggertsyni ( f.1873 d. 1953) hefur þessi heitið Geithellir allavega frá því snemma á 19 öld.



 Það er svo rétt að ljúka þessari sunnudagsandagt með þessum kletti sem er þar sem Háihryggurinn ( neðri mörk Tungnanna) endar í Núpárgilinu. Og þó ótrúlegt sé hef ég ekki nafn á hann.emoticon 
 

08.10.2010 09:18

Árhring sauðkindarinnar lokað.

Þó rollustússið sé oft skemmtilegt er alltaf gott þegar sér fyrir endann á því á haustin.

 Eins og sauðtryggir lesendur síðunnar hafa orðið óþyrmilega varir við fór síðasta vika  í það, og á þriðjudaginn var síðan allt sláturfé sem í kaupstað er sent tekið.

 Það voru um 180 kindur enda fjármennskan hér aukahobbý sem er dálítið vafasöm ef menn hugsa í krónum og aurum.


 Þó við karlpeningur Dalsmynnis séu miklir snillingar (ótrúlega fáir sem koma auga á það) fóru hlutirnir ekki að gerast í fjárræktinni fyrr en kvenbændurnir tóku málið yfir.


 Þessi árgangur og seinni mörkuðu tímamót í kjötmatinu.

 Það hefur því orðið ansi skemmtileg breyting á fjárstofninum á nánast örfáum árum og sem dæmi má taka að fituflokkarnir sem voru okkur til mikilla vandræða eru nánast horfnir þrátt fyrir
síhækkandi meðalvigt.

 Og tölurnar úr slátruninni sem komu í hús í fyrradag eru allar betri en tölur fyrra árs.

Meðalþyngdin var  18.04 kg.
Gerðin 10. 06
Fitan     7.07

 Það er hlutlaus skoðun undirritaðs að landnámskindin sé mun gæfulegri til ræktunarstarfs en hinn bústofninn sem ég þori ekki að nefna.emoticon 

 Það er svo óþarfi að taka fram, að þeir sem eru svo heppnir að fá Dalsmynnislömb á diskinn sinn eru ekki að borða vegkanta,grænfóðurs eða túnlömb, heldur algjörlega ekta fjallalömb. emoticon 
Reyndar á það nú við um langstærstan hluta íslenska dilkakjötsins svo ég geri nú engan reiðan. 
 

06.10.2010 21:52

Toppár í bygginu.

Nú sér loksins fyrir endann á byggræktinni þetta sumarið.

 Hjá Yrkjum ehf þar sem byggið rennur í gegn með einum eða öðrum hætti er um langbesta árið að ræða frá upphafi.(2003)


 Þetta er ein af fullkomnustu byggþurrkunum landsins en þó rétt að taka fram að þetta er gömul auglýsing frá fyrstu árunum.

 Bæði er framleiðsla eigendanna meiri en nokkru sinni og síðan er þurrkun fyrir aðra í hæstu hæðum eða talsvert á annað hundrað tonn, en það munu hátt í 400 tonn renna í gegnum þurrkunina þetta haustið. 

Býsna gott mál eftir ýmiskonar þrengingar.

 Það setti hinsvegar nokkuð svip sinn á byggræktun Dalsmynnis sf. að ákveðið var að taka stökkið og nota búfjáráburð á svo til alla akrana.

 Notaður var mismunandi mikill  N áburður með eða  allt uppí 27 N ha.


 Þessir akrar litu svona út síðast í júlí og nokkru seinna fóru að myndast legur ásamt því að þroskastigið var ákaflega misjafnt þ.e. grænir blettir settu svip sinn á þá,  þó hluti þeirra þroskaðist á góðum tíma.

 Þeir voru svo langsíðastir í þreskingu þetta haustið en þeir voru teknir á mánudaginn.

Þrátt fyrir að þeir lægju nánast alveg tókst samt að ná uppúr þeim 4 t. af ha.

 Það á eftir að fínisera tölurna en uppskeran hjá okkur er ágætlega ásættanleg og mun betri en útlit var fyrir um miðjan júní.

 Og í fyrsta skipti í sögu félagsins er útlit fyrir að náðst hafi hellingur af sáðbyggi til næsta árs/ára bæði Lóm, Judith og hugsanlega Pilvíinu líka.

Já, við kornræktendur í Eyjarhreppnum verðum víst að berja okkur yfir einhverju öðru en byggræktinni þetta árið.
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere