21.03.2011 08:27

Aldrei þú brást mér í ófærð og byl.

 Það verður oft eitthvað til að kalla fram úr skúmaskotum hugans gamlar minningar.

 Sumar eru geymdar tryggilega til upprifjunar síðar, en aðrar verða ekki kallaðar fram nema með nokkrum heilabrotum.

Í vikulegum blogghring mínum kem ég alltaf við hjá Aðalsteini í Kolsholti og í síðustu ferð var bloggið hjá honum  ( 19.3. 2011) enn skemmtilegra en vanalega. Ég vil því hvetja ykkur sem ekki
eru þegar búin að berja það augum að kíkja á það. http://kolsholt.123.is/ .

Og fyrir alla muni lesið fyrsta kaflann allavega tvisvar.

Þarna rifjar Aðalsteinn upp 32. ára ferðasögu vestur á Nes og kallaði þar með fram hjá mér margvíslegar minningar frá þessum árum.

Á þessum tíma var ekki búið að hækka vegakerfið uppúr landinu og snjónum, og það komu síðan flesta veturna langir ófærðakaflar sem sem reyndust vegfarendum þungir í skauti.

 Það var nokkuð algengt að ferðalangar á vesturleið brytust við illa leik vestur mýrar og Kolbeinstaðarhrepp en þegar á vesturbakkann kom varð allt alvöru og tappinn í flöskuhálsinum var oftar en ekki við Dalsmynni.

Í höllunum sunnan Dalsmynnisafleggjarans var þungt og kæmust menn þar upp tók oft við mikill skafl neðan heimatúnsins sem setti punktinn á ferðalagið.
Það var alltaf ákveðinn léttir þegar tók að líða á ófærðarkaflann að flöskuhálsinn færðist suður á Mýrar.
Ég skipti stundum dálítið ört um bíla á þessum árum en um 1978 eignaðist ég fyrsta alvörujeppann , gamlan Bronco sem ég átti óvanalega lengi. Það var með honum sem ég uppgötvaði að snjóruðningarnir meðfram vegunum voru oftast greiðfærari en vegurinn og saman fundum við allskonar hjáleiðir um tún og flóa þó þetta væri fyrir tíma blöðrudekkjanna.


Þegar sló virkilega í harðbakkann var Broncóinn keðjaður á öllum og þó kennileitin væru óljós úti í flóunum í byljum, skilaði hann mér alltaf í hlað rétt eins og hesturinn skilaði eigendum sínum að hesthúsdyrunum gegnum aldirnar þó dimmt væri yfir.

 Ég átti það til að kveðja þá bíla sem höfðu meira tilfinningalegt gildi en aðrir, með góðri vísu og við að rifja þetta upp kom Broncóvísan fram, en hún komst nú trúlega aldrei á blað frekar en annað á þessum árum.
 Trúlega hefur hún samt komið fram á varirnar við réttar aðstæður sem enn urðu til á þessum tíma, þó það tímaskeið æfinnar væri á hröðu undanhaldi og bláköld alvara lífsbaráttunnar að taka við.

 Hún hefði t.d. átt vel við á eftir " Eg hef selt hann yngri Rauð" o.sv frv.

Aldrei þú brást mér í ófærð og byl.
Til afreka virtist þú gerður.
Af bölsýni fullur við Broncóinn skil.
Í bílskúrnum tómlegt nú verður.

19.03.2011 21:21

Hesthúsvígsla aldarinnar.


 Við mættum 4 úr Eyjarhreppnum í reiðina frá Heimsendahesthúsahverfinu í Hafnarfjörðinn.

Ég velti því fyrir mér í hvern andsk. ég hefði nú komið mér, þegar riðið var af stað í kulda og éljagangi og þurrbrjósta í þokkabót.

Það var verið að flytja í nýtt hesthús í Hafnarfirði og þar sem byggjendur þess tengdust mér með einum og öðrum hætti var ekki heima setið í þetta sinn.



 Hér eru þeir Skjóni og Bliki nokkrum mínútum áður en þeir kvöddu þessa vistarveru sína í síðasta sinn.



 Og hér er Bliki kominn í nýju stíuna sína.


 Þetta leit ekkert illa út hérnamegin.



 Ekki var það verra á hægri hendina enda eigendurnir dálítið svoleiðis.


 Hér eru þeir að setja vígsluna og annar þeirra eilítið þreytulegur enda tekur svona framkvæmd aðeins í. Hljómsveitarmeðlimirnir á bakvið þá félaga eru samt áhyggjulausir  á svipinn.



Það er svo smá reiðhallarhorn í enda hússins þó veðursældin í Hafnarfirði sé óbrigðul  samkvæmt gríðarlega áreiðanlegum heimildum( Auðun). 



 Þetta eru hálm og heyvagn staðarins og fer ekki á milli mála að hönnun er copyuð  frá yngri Dalsmynnisbóndanum sem gerði einn slíkan fyrir Hestamiðstöðina.





 Hluti af vígslunni var að sjálfsögðu að skella hestunum inn  og gefa þeim áður en barinn var opnaður. Jonni og Dóri drifu í því enda orðnir dauðþyrstir.


 En barinn leit svona út.



 Og lagið var tekið fyrir eigendurna og gestina.




Afabörnin spöruðu sig hvergi.




 Hér er svo nýjasta fjárfestingin mín eftir reynsluferðina, hann Stígur frá Íbishól.
Hann svínvirkaði þó hann hefði nú bara verið járnaður 2 dögum  áður.

Þó það hefði verið erfitt að keyra vestur í moksnjókomu og leiðinlegu skyggni í nótt, var ég bara nokkuð sáttur við bílstjórastarfið í dag.

18.03.2011 09:45

Allt á fullu í ótíðinni.

Þegar dagsbirtan fer að verða ráðandi þá líður tíminn hratt og þó tíðarfarið sé ekki til að hrópa húrra er vorið pottþétt, fyrir handan hornið.

 Það er mikil stresshelgi framundan en í dag verður brunað í bæinn þar sem hesthúsvígsla er á dagskrá.



 Á morgun er fjárhundanámskeið á dagskránni og þar sem bæði kollurinn og ganglimirnir þurfa á öllu sínu að halda  eru yfirgnæfandi líkur á því að ég verði hafður undir stýri í dag.

 En ástandið á efri hæðinni og fráleiki fótanna eru orðin með þeim hætti að ekki er hættandi á neitt sem gæti dregið úr afköstum bóndans á þessum sviðum.

Öðruvísi mér áður brá.



 Þar sem það verður mikil hópreið frá eldra hesthúsi í það nýja og milli hesthúsahverfa að fara verður gæðingaflotinn tekinn með úr sveitinni. Ekki dugar minna en þessi græja hér að ofan í ferðina, en hér er  hún stödd við Laufskálarétt.

En allt um þetta eftir helgina.
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere