01.05.2011 06:53

Skessa, Vaskur og vondar ákvarðanir.

 Það var haustið 1999 sem ég fór með Skessu í fyrstu leitina.

Það var verið að leita Svínafellið, gengið frá Heydalsveginum niður að Höfða ( og þaðan í Þverárrétt) og ég var næstefstur í sunnanverðu fellinu.



 Skessa var eins og hálfs árs, mikið tamin en afar lítið reynd í smölun. Reyndar hafði ég haft þann starfa um sumarið að sækja kýrnar í næturhagann og notaði tækifærið og tamdi tíkina enda engar tamningakindur á bænum, yfir sumarið þessi árin.
Við vorum vel hálfnuð vestur hlíðina þegar ég verð var við að smalinn næst fyrir neðan mig var í vandræðum. Hann hafði misst kindahóp afturfyrir og uppfyrir sig og þegar ég sá þetta var hópurinn vel fyrir aftan mig og stefndi hratt upp.


Mér fannst þetta  fulllangt að senda óreynda tíkina ekki síst vegna þess að kindurnar myndu verða komnar í hvarf frá mér áður en hún næði þeim en tók samt sénsinn.

 Skessa fór flott af stað og um það er hún og féð hurfu sjónum var ljóst að hún mynda ná hópnum og koma rétt að honum. Hvernig svo færi var spurningin.

 Það var ólýsanlegur léttir þegar hópurinn birtist aðeins neðar í hlíðinni á hæfilegum hraða beint í áttina til mín. Skessa hélt sig vel fyrir aftan þær og vel neðar í hlíðinni sem sagði mér að þær hefðu ætlað beint niður þegar hún náði þeim.

 Það má segja að þetta hafi verið forsmekkurinn að því hvernig Skessa leysti öll sín verk á starfsævinni.


    Það var sjaldgæft að hún færi keppnisbrautin á undir 70 stigum sem segir nokkuð um tökin á kindavinnunni.
.
Hún er eini hundurinn sem ég hef farið með í fjárhundakeppni án þess að hafa nokkurntímann æft hana sérstaklega til þess sem segir vel til um vinnulagið og þjálnina.

  Hún var 5 ára þegar að hún heltist í nautgripahasar og það háði henni það sem eftir var, en mismikið.

 Ég hafði fyrir löngu ákveðið það að Skessa myndi eiga náðugt ævikvöld meðan að heilsan væri ásættanleg og hún þrifist sæmilega.
                                                                                          Skessa í síðustu leitinni sinni

 Það er langt síðan ég áttaði mig á því að þetta var vond ákvörðun.
bæði fyrir mig og Skessu.

 Það er vont fyrir hund sem hefur átt sinn ótvíræða leiðtogasess í hundahópnum að hrapa jafnt og þétt niður virðingastigann.
Og þegar 8 - 10 vikna hvolpar ganga á lagið vegna þess að hinir hundarnir bíta þá frá sér er niðurlægingin algjör.

 Gamli smalahundurinn veit alveg nákvæmlega hvað stendur til þegar farið er í smölun.
Það er hrikalega erfitt bæði fyrir bóndann og hundinn sem hefur kannski miklu meiri vinnuáhuga  en skrokkurinn er gerður fyrir,  þegar hann er skilinn eftir lokaður inni.

Þá það sé nú kannski eigingirni, er erfitt að horfa upp afburðarhund breytast í í þessa veru og upplifa hann verða undir í hörðum heimi dýranna. 



 Þó maður sé orðinn gamall og skelin þykk var það var ólýsanlega erfiður dagur þegar þessir snillingar voru kvaddir í vikunni. 

27.04.2011 20:17

Akurdoðran og olíurepjan.

Hrunið hefur kollvarpað mörgu og með snarhækkandi verði á ýmsum aðföngum opnast grundvöllur á innlendri framleiðslu af ýmsum toga.

 Þar má m.a. nefna byggræktina en forsendur fyrir henni hafa gjörbreyst á örfáum árum.

Ræktun á olíujurtum hefur verið í deiglunni í nokkur ár og nú er að koma verulegur skriður á þau mál.
Það hefur fyrst og fremst verið horft á olíurepjuna og síðar olíunepjuna sem helst kæmu til greina í þá ræktun. Vegna of stutts sumars fyrir sumarrepjuna hafa menn síðan horft á vetrarrepjuna sem fýsilegan kost í ræktuninni.
 Akuryrkjuræktunin er alltaf áhættusöm á Íslandi og að þurfa svo að eiga hana undir íslenskum vetri minnkar ekki áhættuna . Þessi áhætta ásamt því að þurfa að þreskja akurinn á  hárréttum tíma miðað við þroskastig fræsins setur þessa ræktun í hálfgerðan lottóflokk.

Byggræktendur þekkja það ákaflega vel að það fer ekki alltaf saman heppilegt tíðarfar og þoskastig akursins.
Auk áhættunnar á tjóni yfir veturinn er tvöföld áburðargjöf og binding akursins í tvö sumur vegna vetrarrepjunnar verulegur ókostur.

Í kynningu Kristjáns á tilrauninni með Akurdoðrunni sl. sumar kom fram að sáning fór fram fyrstu dagana í maí. en vegna hálfs mán. þurrkakafla spíraði fræið ekki fyrr en í 3. viku maí.

 Sáð var í um 10 ha. af mismunandi landi en allt með sama áburðarskammti, 50 kg N á ha.

  Allir akrarnir náðu að þroskast og í spírunarprófum í vetur var spírun á milli 80 - 90 % í ætluðu sáðfræi. Fræhulstur Doðrunnar haldast heil í langan tíma eftir að þroskast og þarna virtust efstu fræhulstrin fyrst vera að opnast þegar kom fram í des.
 Rétt er að benda á, að þessu tilraun er ekki gerð á Suðurlandi eða í góðsveitum norðanlands heldur vestur í Gilsfirði sem segir okkur að Akurdoðran á vaxtarmöguleika mjög víða um land.

 Það er skemmtilegt að segja frá því að frumkvöðlarnir í Eyjarhreppnum hafa verið að leita að olíuplöntu sem næði að þroskast yfir sumarið og skilaði ásættanlegri uppskeru.


Akuryrkjufrumkvöðlarnir þeir Einar í Söðulsholti og Auðunn á Rauðkollstöðum að spá og spekulera með Jónatan Hermannssyni.
 Þeir voru búnir að setja sigtið á Akurdoðruna og fluttu inn fræ til sáningar í vor svo nú er barist á öllum vígstöðvum.

 Og á Korpu verður í sumar sett upp tilraun með Akurdoðruna ásamt sumarrepju og nepju.

Allt að gerast í sveitinni. (Bara ef þornaði aðeins um.)

25.04.2011 21:20

Lífdísill. Bylting í ræktun.

 Á síðasta ári var gerð tilraun með sáningu Akurdoðru ( Camelina Sativa) hjá Fóðuriðjunni í Ólafsdal.
 
 Tilraunina gerði Kristján Finnur Sæmundsson sem er  vél og orkutæknifræðingur frá Lindarholti í Dölum en lokaverkefnið hans í tæknifræði í Háskóla Reykjavíkur var framleiðsla lífdisil á Íslandi.

 Eftir langa leit að plöntu sem sáð yrði að vori og uppskorin að hausti varð Akurdoðran fyrir valinu og niðurstaðan eftir sumarið kemur skemmtilega á óvart. Akurdoðran virðist vera  laus við alla helstu galla olíurepjunnar. Hún er ákaflega óvönd á jarðveg og skilaði t.d. uppskeru á gróðurlausum mel þrátt fyrir þurrkasumar.
 Einungis er notaður köfnunarefnisáburður um 40 - 75 kg. N á ha. 
Hætta er á legum með of miklu köfnunarefni.


Plantan er ákaflega veðurþolin sé henni sáð í réttum þéttleika og losar sig ekki við fræin fyrr en löngu eftir að þau ná fullum þroska.


 Uppskeran var um 2.8 t /ha af þurrkuðu fræi ( 92 % þurrefni) þrátt fyrir of lítinn fræskammt í sáningu ( 5 kg.) en sáð var í um 10 ha.

 Kristján áætlar að um 8 kg af fræi á ha. sé hæfilegt hér á landi og uppskeran gæti orðið um 3.4 tonn á ha. við góðar aðstæður.

 Olíuhlutfallið yrði um 35 - 40 % af þurrkuðu fræi en 60 - 65 % hrat sem yrði með um 35 - 40 % prótín.

 Kristján Finnur kynnti þessar niðurstöður á bændafundi í Lindartungu í kvöld og svaraði síðan fjölmörgum spurningum áhugasamra bænda um ræktunina og vinnslu olíunnar á síðari stigum.

Síðast en ekki síst hafa hvorki sauðkindur, álftir né gæsir minnsta áhuga á þessari ræktun.

Áhugavert  mál.
Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere