27.04.2008 23:06

Nú andar suðrið sæla!!!!!

   Já kuldagallinn er aftur  kominn á sinn stað í fatahenginu og allt orðið aftur eins og það á að vera hér á Nesinu á þessum árstíma.. Þar sem Hestamiðstöðvarfólkið fór í Skagafjörðinn um helgina,annarsvegar til að vita hvort þar væru enn til nothæfir hestar  og hinsvegar( trúlega) til að kanna hvort einhverjir gætu sungið þrátt fyrir áburðarverðshækkanir og aðra óáran, var ég settur hestahirðir um helgina. Það var létt verk og löðurmannlegt að gefa þessum 30 og eitthvað hrossum með þessa aðstöðu enda ekkert gert annað þar neðra .

  Það var síðan rennt á akrana og skoðuð frostalögin því nú vilja menn að fari að styttast í sáningu. Á flestum ökrunum var um 10 cm.+  niður á klakaskánina sem er misþykk. Nokkur stykki voru samt orðin klakalaus að mestu. Þar höfðu hálmstönglarnir sem stóðu eftir þreskinguna verið í lengra lagi ,safnað í sig snjó og frostið ekki farið eins niður. Þannig að á morgun verður vendiplógurinn settur við og málin könnuð frekar.
 Á túnunum sem tekin verða í endurræktun virtist klakinn hinsvegar eilítið þykkari.

  Ég stóðst svo ekki freistinguna og laumaðist með Týra í nokkrar kindur þó hann sé ekki alveg tilbúinn í það.

26.04.2008 16:40

Reykjavíkurhreppur.

  Ég var búinn að fresta þrisvar nauðsynlegri höfuðborgarferð og nú var hún drifin af áður en aðalvorverkin byrjuðu. Þetta var tiltöluleg stresslaus ferð í  þetta sinn, frúin með til að stjórna mér í umferðinni sem var ekki stresslaus frekar en fyrri daginn en nú fannst manni vera löggur á öllum götuhornum.  Ég er farinn að tala um það af mikilli alvöru að fjárfesta í leiðsögutæki í bílinn en þangað til það kemst í verk er fínt að hafa frúna með, sem að segir hægri/ vinstri með rétta tóninim með hæfilegum fyrirvara. Þegar hún sér að ég átta mig ekki á rauðu ljósi segir hún, kyrr.  Nú var farið á alvörubíl heimilisins því verið var að versla stórt og hann er fyrirferðamikill þarna í þrengslunum, kann betur við sig í sveitinni eins og ég. Það bezta við Rvíkurferðirnar er þegar maður er kominn fyrir Kollafjörðinn á heimleið,laus úr bensín og svifmenguninni.
 Þegar við dóluðum (náttúrulega á löglegum hraða) framhjá Ystu Görðum benti ég mæðgunum á (yngri dóttirin tekin með í sveitina) að þarna væri Þóra vinkona mín fyrir utan húsið sitt og veifaði mér.
Þær mótmæltu því hver sem önnur og fullyrtu að hún væri að dusta eitthvað. Þegar ég spurði hvort það væri Andrés (svona til málamiðlunar) þverneituðu þær því og fékkst ekki frekar úr þessu skorið því Ystu Garðar voru komnir úr augsýn. Ég vona svo að Þóra staðfesti það seinna að hún hafi verið að veifa mér. Nú eða dusta Andrés til, sem væri ekki verra að fá staðfest. Reykjavíkurferðin var jafnframt notuð til að koma Rúnu til síns heima en Asi var farinn norður fyrir nokkru. Þá áttu nú einungis heimahundarnir að vera eftir og frí í tamningum.  Hér er nú samt gestkomandi hann Týri frá Daðastöðum, undan Dan og Pílu, og sannast þar enn og aftur að lengi er von á einum.

24.04.2008 23:45

Fréttir og heilsufar.

  Burtfluttur sveitungi minn hringir stundum í mig og spyr frétta úr sveitinni. Það teygist oft úr þessum samtölum, ekki vegna þess að ég sé fréttafróður,  heldur hefur vinur minn frá mörgu að segja. Meðal annars er það oftast hann sem getur sagt mér nýjustu fréttirnar úr sveitinni minni því hann fylgist miklu betur með mannlífinu hér, en ég.
  Alltaf kemur að því í samtalinu að hann spyr mig um skepnuhöld og heilsufar búpeningsins svona yfirleitt.  Nú í vetrarlok er nú kannski rétt að velta  fyrir sér þessari spurningu. Og heilsufar búpeningsin hefur í heildina séð verið nokkuð gott.
  Júgurbólgan sem er nú kannski stærsta hrelling fjósamannsins hefur komið miklu oftar í heimsókn en gott þykir. Nú er reyndar engin kýr á kúr en það mættu vera fleiri og lengri tímabil en sést hafa í vetur. Huggunin er sú að yfirleitt er þetta eitthvað sem er að taka sig upp, ekki um ný tilfelli að ræða. Súrdoðinn hefur verið nokkurnveginn til friðs. Þau tilfelli sem hafa komið upp tengjast einhverjum öðrum veikindum. Stærsti gallinn við lausagöngufjósið er það hvað flórarnir eru hálir og séu einhver veikindi í gangi geta tognað eða slitnað vöðvar þegar kýr reyna að standa upp og eru að renna til. Vöðvaslit eða slæm tognun hefur miklar skelfingar í för með sér. Alltaf er um einhver doðatilfelli að ræða oftast í kringum burðinn. Ein kúin er öðruhvoru að fá doða upp úr þurru þótt langt sé frá burði og virðist eldspræk þess á milli.
 Og frjósemin virðist svona í heildina séð vera í þokkalegu lagi.

  Þetta er allt rólegra í fénu. 1 gemlingurinn  fórst úr fóðureitrun sem er orðin afar sjaldgæf hér og nýlega hafa tvær kindur látið fóstrum og spurning hvort framhald verður á því. Það virðast síðan vera að koma í ljós lamblausir gemlingar sem ekki er ótrúlegt að hafi misst fóstur snemma á meðgöngunni. Rollurnar eru hinsvegar orðnar of þungar og þá eykst hættan á kviðsliti og allskonar vandamálum.
  O já það er basl þessi búskapur..
Flettingar í dag: 322
Gestir í dag: 75
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419279
Samtals gestir: 38147
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 10:19:42
clockhere