16.07.2010 21:56

Einn og hálfur á blogginu.

Þetta var nokkuð skemmtileg ferð sagði ég við kunningja minn.

Það var fyrir óralöngu síðan og ég var að segja honum frá hestaferð sem ég var nýkominn úr.

Hvað var svona skemmtilegt spurði hann.

Nú það var talað svolítið, gerðar nokkrar vísur, sungið smá og dúllað við að laga nokkur hross svaraði ég.

 Voruð þið mörg spurði hann og þagði síðan lengi, þegar ég sagðist nú bara hafa verið einn.

Þú hefur þá verið einn og hálfur sagði hann svo eftir langa umhugsun.

Ég svaraði ekki svona ósvífni.

 Þetta er dálítið svona á blogginu hjá mér.

Ég tala við sjálfan mig í einsemdinni hér,  geri stundum vísu ef tilefni gefst en sem betur fer kemst sönglið ekki til skila á netinu, enda myndi það þýða áhorfshrun.

Og stundum leyfi ég ykkur að fylgjast með þegar ég dúlla svolítið í hundunum mínum.


 Skessa frá Hæl var fyrsti  hundurinn sem ég dúllaði dálítið mikið við.

 Mér líður ákaflega vel með þetta, annars væri ég ekki að standa í þessu.

Þó mér líði oft ákaflega vel einn með sjálfum mér, þá finnst mér alltaf skemmtilegt að fá eitt og eitt comment og einstaka stimplun í gestabókina.

 Það er ákaflega breiður hópur sem heimsækir mig hér og þó ég hefði upphaflega séð fyrir mér bændafólkið að fylgjast með gangi mála, þá er umtalsverður hluti þeirra sem kíkja hér öðru hvoru inn, ekta þéttbýlisbúar.

Gaman að því.

 Og símtölin sem ég hef fengið eru af margvíslegustum toga.
Mörg þeirra tengjast hundum en önnur eru um ólíklegustu málefni.

Sá sem hringdi síðast í mig var sunnlendingur að fá ráðgjöf um hvar hann ætti að kaupa lífhrút vestan varnargirðingar. Ég kannaðist við hann af afspurn og tók þessu erindi að sjálfsögðu ljúfmannlega og benti náttúrulega sérstaklega á þá sem versla bygg af mér.
Sunnlendingurinn sagðist kíkja reglulega inn á síðuna mína og þetta væri besta
 " hestabloggsíða " landsins. !
Eftir á að hyggja botnaði ég reyndar ekkert í samhenginu á þessu.

Það kemur stundum fyrir að ég fæ einkapósta um eitthvað bloggefnið, ýmist með spurningum um nánari úskýringar eða einhverjum vangaveltum um efnið.

M.a. hafa 4 þungavigtamenn í félagsmálum bænda séð ástæðu til að gera þetta.

Sumir þessarra pósta ættu fullt erindi sem athugasemd við viðkomandi blogg en ég virði það að sjálfsögðu ef menn vilja síður blanda sér beint í umræðuna.

 Flettingarnar á síðunni minni eru mjög hjartastyrkjandi og segja mér það að gestirnir nenna að lesa löngu bloggin og skoða eitthvað sem þeim finnst áhugavert hjá mér.

Þar kemur mér mest á óvart stöðug umferð um sveitarfélagssíðuna mína þar sem 20 - 40 flettingar á dag eru algengar.

Já, mér hefur svo sýnst að þegar menn eru sestir niður og farnir að skrifa um bloggið sitt, þá sé stutt í að það leggi upp laupana.emoticon 

 Og nú er allt hey komið í plast, mín heittelskaða komin heil til byggða úr gönguferðinni og engin vandamál í kortunum.emoticon 

13.07.2010 21:47

Heyskapur, - rigningarsumar, alvörufólk + hestaferðir.

 Stundum finnst manni fáránlegt hversu oft, allt er brjálað að gera í sveitinni.

Eiga þessir sveitalúðar sér ekkert líf ???

Nú sér loksins fyrir endann á fyrri slættinum en rolluheyið var tekið í síðustu viku.

 Sláttulok í hrossaheyinu bæði hjá Hestamiðstöðinni og Dalsmynni sf. voru í dag og er þá fyrri slætti lokið að sinni.


Vélafloti Hestamiðstöðvarinnar í sláttuham. Að vísu á hún ekki nema tæpan fjórðung í sláttuvélunum en eignarhaldið er hinsvegar oft dálítið óljóst á dótinu þegar mikið gengur á hjá þessum grönnum.

 Dalsmynnisbændur tóku þá tímamótaákvörðun að bera ekki á hána  milli slátta í þetta sinn.

Það byggist annarsvegar á góðum heyfeng í ár og hinsvegar talsverðum fyrningum.

Eftir sem áður verður trúlega að hreinsa há af flestum túnum sem verður þá væntanlega lítils virði.

 Það er búin að vera alveg meiriháttar heyskapartíð hér á Nesinu og rigningarsumarið sem Jón í Kolviðarnesi er búinn að spá síðan snemma sl. vetur og spáir trúleg enn, er ókomið.

Allavega hér.

Reyndar eru veðurspárnar oft alveg ótrúlega ónákvæmar svo ekki sé sterkar til orða tekið, en þegar allt gengur upp, ef maður tekur ekki mark á þeim segi ég ekkert.

 Mín heittelskaða er svo lögst út í árlegri gönguferð, sem er ekki sanngjarnt þegar sleppitúrinn féll niður vegna hestaflensu.



 Sleppitúr 2008 . Áð austan Hornafjarðar nýkomin niður úr Almannaskarði.

 Og ég hef ekki komist í hnakk í sumar, en nú verður farið að járna og teikna upp alvöru ferð.


Ég veit ekki hvort Staðsveitungar kannast við fjöllin en þetta er nákvæmlega lífið í góðum gír.

Kannski ferðin vestur á Strandir sem fara átti í fyrra, verði vakin upp.

Alltaf gott að koma þar sem býr alvörufólk.

10.07.2010 22:52

Grenjavinnslan, - aular af austurbakkanum og ofurdýr vesturbakkans.

Þó glíman við rebbana endi seint, er þó mestu törninni lokið þetta árið.

Það hafa orðið miklar breytingar á atferli refanna og óðulum síðan ég byrjaði í þessu .

Fyrstu árin glumdu undantekningarlaust aðvörunaröskrin í eyrunum  ef dýrin urðu vör við mann. Þetta varð þeim síðan oft að falli þega ég fór að átta mig í þessu nýja verkefni.

 Eins og alltaf í náttúrunni  breyttist þetta, því þau dýr sem staðsettu sig ekki með þessum hætti áttu meiri möguleika á að lifa af í hernaðinum.

Nú eru mörg ár síðan ég hef heyrt aðvörunaröskur í lágfótu.

 Nú er maður að glíma við dýr sem virðast vera komin með auka skilningarvit og finna á sér þegar óvinurinn er kominn á svæðið. Þessi dýr gæta þess síðan vel að halda sig í verulegri fjarlægð og hvika ekki frá vindáttinni af greninu.

   Þetta litaafbrigði á hvolpi hef ég ekki rekist á áður. Hann var undan ofurlæðunni  sjá hér neðar.

 Í Eyja og Miklaholtshrepp var á 7 grenjum þetta vorið.

Þetta er nokkuð stórt svæði frá Haffjarðará í austri, að Baulárvallarvatni í vestri.

Við eru 3 sem sinnum þessu og skiptum svæðinu á milli okkar.

Á þessu svæði eru þekkt tæp hundrað greni en það er nú ekki farið á nærri öll.

 Það var svo sérstakt í vor hversu mörg gelddýr náðust, sérstaklega á austurhluta svæðisins.
Á tímabili virtust spretta upp tvö fyrir hvert fallið.

Ég kenndi þetta því, að Austurbakkamenn skáru niður grenjavinnsluna síðasta ár og rebbunum hefur að vonum litist vel á sig hér á vesturbakkanum, lausir úr þrengslunum þar, og áttuðu sig of seint á því hvernig tekið yrði á móti þeim.

Óþarft er að taka fram að þeir standa vesturbakkadýrunum langt að baki í slóttugheitum.

Þessi var dálítið sérstakur. ekkert genginn úr hárum seinnipartinn í maí.

Reyndar finnst mér mun skemmtilegra að eiga við þá, en hin ferfættu kvikindin af austurbakkanum sem flæða hér yfir eins og engisprettuhjörð þegar kemur fram í júni. Þau fyrirbrigði eru alfriðuð.

 Já það eru fallin um 50 dýr þetta vorið og hvað sem líffræðingarnir og allskonar lið sem hefur hátt um ýmsa hluti í lífríkinu segir, þá veit ég að það myndu gerast ýmsir slæmir hlutir ef þessi hópur væri farinn að herja á náttúruna hér.

 Það er rétt að taka fram að ég veit að hér eru enn í sveitinni nokkur fjöldi dýra.

Það er þó ekkert markmið hjá mér að útrýma refnum enda ekki hægt.

Markmiðið er að halda honum í skefjum og það er nokkuð ljóst í mínum huga að á erfiðasta svæðinu hér, eru of mörg dýr til að fuglalífið sé ásættanlegt.

 Þessi ofurlæða hafði betur 2 sl. vor og mér var löngu ljóst að það yrði að vera tilviljunarkennd heppni sem felldi hana.  Það er alltaf blendin tilfinning þegar svona erfið dýr eru úr sögunni.

 Já, þessu er reyndar ekki lokið því eftir er að fara aðra ferð á nokkur gren því vitað er um a.m.k. tvö óþekkt gren með uppeldi og verður reynt að hitta á þau dýr þegar hópurinn verður farinn að skoða heiminn og ónotuð greni. 

 Síðan á eftir að taka rúnt á fjallagreni sem ekki hafa verið í ábúð lengi, til að sýna næstu kynslóð grenjaskyttna hvar þau eru.

Flettingar í dag: 582
Gestir í dag: 114
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419539
Samtals gestir: 38186
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 14:02:48
clockhere