Færslur: 2016 Október

26.10.2016 07:59

Af hrútum , - og hraðri starfsmannaveltu.

   Þó gerningar augnabliksins staldri kannski óþarflega stutt við á harða diskinum droppar þar stundum upp eitthvað sem ég hef upplifað, - jafnvel næstum   aftur  á miðja síðustu öld emoticon

   Eitt af mörgum uppáhalds í húsdýraflórunni  í den var hrútafloti heimilisins.
 Þeir urðu að vísu misgóðir vinir mínir enda misskemmtilegir í umgengni.

 Sumir þeirra urðu rígfullorðnir enda gæðaeftirlitið og kröfugerðin frekar slöpp miðað við þann harða heim sem afkomendur þeirra búa við í dag.emoticon
  
 Fyrirtæki sem þekkt eru fyrir hraða starfsmannaveltu er oft frekar illa þokkuð en hrússarnir eiga sér hinsvegar formælendur fáa þó meðalaldur þeirra fari hratt lækkandi á þessum síðustu og verstu emoticon

  Það er einkum tvennt sem veldur því.

Annarsvegar  virðist hrútastofninn standa sérlega veikur fyrir kvillum sem þekktust ekki ,- allavega hér,- fyrir nokkrum árum.

 Þar eru kregða, barkabólga og einhver óupplýst uppdráttarsýki drýgst.

 Hinsvegar er það tæknin sem miskunnarlaust vegur og metur kynbótahæfaleika gripsins hratt og örugglega  um leið og afkomendurnir eru komnir í gegn um ásetningsúrtakið og  hvíta húsið , - þau sem enda þar..


  Hér er hrútafloti Dalsmynnis sf. komandi vetur ( mínus 1 seldan ).

 Sá veturgamli á myndinni átti 50 afkomendur sem enduðu í hvíta húsinu.

Meðalþyngd þeirra var um hálfu kg. meiri en félaga hans og jafnaldra sem átti 39 lömb í samanburðinn. Auk þess  kom hann betur út í gerð og fitu.

 Ég minnist þess reyndar ekki að hafa séð svona afgerandi mun milli hrúta í uppgjöri og hjá þessum Saumssyni og kollekum hans, heimaræktuðum eða sæðisstöðvarhrútum.


                                      Nagli Saumsson

  Nú er það bara spurningin hvort hann stendur af sér félaga sína næsta haust ,- ef hann missir ekki heilsuna vegna einhverra nýmóðins krankleika.

Já , Þetta var öðruvísi skemmtilegt í gömlu góðu dagana.


18.10.2016 08:25

Að vera góður í hausnum.

 
 Ég hef þá ófrávíkjanlegu skoðun að það sem er milli eyrnanna á hundunum mínum sé það sem skiptir langmestu máli. 

 Ef hausinn á þeim er ekki í lagi þá henta þeir mér ekki í það sem ég ætla þeim.

Í vetur var ég í sambandi við erlendan kollega , hafði skoðað myndbönd af hundi sem hann átti og ég hafði áhuga á.     
 Síðan sent honum nokkrar spurningar um  hitt og þetta sem ekki var hægt að meta á myndböndum.

 Svarið var stutt og laggott.

 Hann er góður í hausnum, - mjög góður. Og það eru engin vandamál í samskiptum og umgengni. .

 Ég spurði einskis frekar. emoticon

  Ég var að setja saman stutt myndband í gær og velti því fyrir mér í leiðinni að þarna  væru í akssjón nokkur grundvallaratriði sem mér finnst svo mikils virði.

   Þarna sést Korka í um 600 - 800m. úthlaupi fyrir tvær tvílembur. 

Aðstæður voru þannig að hún staðsetti kindurnar en síðan sá hún ekkert til þeirra fyrr en rétt í lokin. Þá höfðu þær hækkað sig í hlíðinni og um leið og hún áttar sig á því er tekin 90 gr. beygja upp til að halda áætlaðri fjarlægð. 

  Tvílemburnar voru sitt úr hvorri áttinni, önnur frá Dalsmynni, hin sunnan af Mýrum.  Ekkert sem hélt þeim saman. 
  Vinnulagið sem hún sýnir bæði í úthlaupi og því að halda þeim saman er meðfætt þó það hafi slípast til og þjálfast upp í tímans rás.  

  Þarna sést líka hvað flestar skipananna frá mér eru í raun óþarfar því Korka er alveg með þetta allt í eðlinu. 

  Á síðustu sekúndunum sjást vel viðbrögðin þegar önnur kindin ræðst á Korku.

  Köld,ákveðin og yfirveguð og kindinni sleppt um leið og hún gefur eftir. 

Allt meðfætt og ómetanlegur eiginleiki ;) 

Á þessu andartaki heyrist vel þegar ég gef ósjálfrátt skipun um að " taka í "og
 " sleppa ". 
 Algjörlega óþarfar skipanir enda komu báðar of seint.

  En þetta eru ósjálfráð viðbrögð smalans, brennd í hausinn á honum eftir áralanga vinnu við hundatamningar. emoticon

  Ég hef svo aldrei átt hund sem mér hefur þótt nógu ákveðinn en Korka er býsna nærri því. 

  


                            Komnar í höfn .

 Þið sem eruð í hundahugleiðingum ættuð að pæla í þessu myndbandi.

Vinnulaginu , vinnufjarlægðinni og þessari ákveðnu en stresslausu framgöngu. 

 Sem betur fer er talsvert til í BC flórunni hérlendis sem hefur svona gen í hausnum.

Svo er náttúrulega  ekki verra að hausinn á okkur, þessum tvífættu sé ekki til vandræða .emoticon

 Já , og myndbrotið er.  HÉR
 

 

16.10.2016 20:18

Slæmir árgangar , - og góðir !


 Rétt eins og vínyrkjubændur í sunnanverði Evrópu búa við slæm ár og góð, eru árin misjöfn hjá okkur rolluköllunum hér á klakanum.

 Ég gjörþekki muninn á góðum og slæmum hrúta og gimbraárum, þurfa reyndar ekki að fara saman, - áramun á fallþunga, -  frjóseminni og nefndu það bara.

  Þó ég þekki svo vel uppskriftina að góðum fallþunga , frjósemi og flestu öðru sem færa á hlutina til betri vegar dugar það skammt.

 Því eins og fjallaskáldið sagði. " Ég er bóndi og allt mitt á / undir sól og regni.".

 Þó margt hafi breyst síðan, eru enn heilmikil sannindi fólgin í þessu.

 En það er gott ár hjá okkur Dalsmynnisbændum í ár.emoticon

  Fallþunginn  í lagi , Úr toppeintökum að velja  til ásetnings eða bæði hrúta og gimbraár og nefndu það bara.

 Jaaa, nema afurðaverðið mætti kannski vera  miklu betra. emoticon

 Margra ára markmið í lífgimbravali, að allur ásetningur næði yfir 18 í lærastigun og yfir 30 í mældum bakvöðva náðist loksins. ( Með 1 undantekningu emoticon ).

  

                     Smá  sýnishorn af gimbraflotanum.
 
  En það segir nú kannski meira um slæmt hrútaár hjá öðrum en ræktunina hér, að  Dalsmynnisbúið átti besta kollótta lambhrútinn á héraðssýningunni í Snæf og Hnapp.



 Hér erum við algjörlega blaut á bakvið eyrun í ræktun á kollóttu enda móðir hrútsins  tveggja vetra, keypt af húsfreyjunni á Bassastöðum á ströndum vestur  og faðirinn úr stórræktuninni í Haukatungu.

  Þegar svo annar besti hyrndi hrútur héraðsýningarinnar var líka eign búsins fór ég nú að hafa dálitlar áhyggjur af hrútaárferði sýslunganna.

 Alvöru keppni í þeim flokki hjá Snæfellingum emoticon .
 



  Rúsínan í pylsuendanum voru svo niðurstöðutölurnar úr sláturhúsinu á Hvammstanga.

  Meðalvigt 19.99. Gerð 10.96 og fitan 8.26 sem er akkúrat passleg 
að mínu mati. emoticon

 Og til að halda góða skapinu ætla ég ekkert að velta mér uppúr lambalátinu í vetur. Þar voru auðvitað öll met slegin líka.

Nema hvað .emoticon
 
  
Flettingar í dag: 122
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 443
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 398318
Samtals gestir: 36194
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 06:38:56
clockhere