01.06.2011 08:22

Erfiður gærdagur.

 Þar sem ég er ódrepandi áhugamaður um hinar dreifðu íslensku byggðir tekst mér alltaf að sveigja hin margvíslegustu símtöl sem ég fæ, að landsins gagni og nauðsynjum.

 Langoftast snúast símtölin um hunda til að byrja með, en enda síðan í hinu almenna búsýslurabbi enda yfirleitt um búandi menn að ræða þó það sé nú alls ekki algilt.

Þó ég þekki oft hvorki haus né sporð á viðmælandanum kannast ég oft við  einhvern nágranna hans og þá er gjarna tekin umræða sem er nágrannanum misjafnlega hagstæð eftir því hvaðan vindurinn blæs hverju sinni.

 Í gær hringdu í mig þrír bændur sitt af hverju landshorninu og eftir að hundamálin voru afgreidd bar þeim öllum saman um vorkomuna.

 Gróðurinn stóð í stað vegna kuldanna og bæði vestfirðingurinn og hornfirðingurinn voru með túnin kjaftfull af fé þar sem úthaginn var handónýtur enn.

  Og til viðbótar við helv. harðindin er frjósemi íslensku landnámskindarinnar greinilega komin úr böndunum og þrílembur og enn meiri fleirlembur farnar að bætast við vandamálalistann.

Ég hafði enga samúð með þeim, enda gamall í hettunni og man margfalt verri vor og mun hugsanlega eiga eftir að lifa þónokkur vor í viðbót af þessum gæðastandard.

 Það tekur samt á að veita svona áfallahjálp ásamt því að taka inná sig ýmis hundavandamál svo gærdagurinn var nokkuð erfiður.

Sem betur fer hringdi enginn í mig af Langanesi.

30.05.2011 18:24

Drullukuldi og dásamlegheit.


Þrátt fyrir kuldatíð og seinagang í grassprettu og tilheyrandi rólegheit í vorkomunni, er næstum allt í fínum gír.

 Brýnustu vorverkunum lokið þó í seinna lagi sé, aðeins eftir að bera á nokkur rollutún, ásamt túnum hestamiðstöðvarinnar og rollurnar eru nú að yfirgefa húsvistina hver á fætur annarri.
 Í þessum skrifuðu orðum er ein ær óborin.

 Og maður er farinn að ná sínum  6 tíma svefni á ný.

Það er þó nokkuð ljóst að slátturinn verður á seinni skipunum hér miðað við undanfarin gósensumur og kýrnar fara trúlega ekki út 10 júní eins og vanalega.

Gott mál.



Það styttist í grenjavinnsluna og minkaveiðin hjá yngri bóndanum  mun bresta á næstu dagana.

 Girðingarviðhaldið bíður að vísu eftir okkur sem er óvanalega seint en ekki verður við öllu séð.



 Það liggja síðan fyrir breytingar á húsakosti í sumar sem munu koma í veg fyrir að bændurnir láti sér leiðast í einhverju aðgerðarleysi.


 Síðast en ekki síst er síðan nóg að gera framundan í allskonar hundastússi og aldrei þessu vant úr nógu geldfé að moða í tamningarnar.

Já það er engin þörf að kvarta þegar ....... ..... .....

26.05.2011 16:07

Korka Tinnadóttir.

 Þó ég hafi mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig útlit ég vil hafa á hundunum mínum þá er ég enginn bókstafstrúarmaður í þeim efnum því notagildið er öllu ofar.

 Nýjasta blómið í hundaflórunni hjá mér hún Korka Tinnadóttir frá Miðhrauni hefur þá sérstöðu m.a.
að aldrei hef ég átt hreinræktaðan border collie með jafn fá hvít hár í feldinum.



 Þetta er hvolpur sem ég bind vonir við að geti orðið að skemmtilegum/góðum fjárhundi og strax eru komnir í ljós kostir sem ég met mikils í samskiptum við hundana mína.



 Hér er smákelistund með pabbanum en aldrei er of mikið af þeim.



 Þegar kastast í kekki getur Korka svo orðið býsna stór að eigin áliti.



 Það er ekki alveg búið að ákveða í hvaða farveg uppeldið á Korku lendir, en það verður þó gulltryggt að hún mun hljóta  gott uppeldi og fulla tamningu í fyllingu tímans.

  Hún á að verða fyrsti prófsteinninn minn á Tinna sem ræktunardýr, þó hún eigi  líka gott að í móðurætt undan Tátu frá Brautartungu. Táta er undan  Killiebrae Jim sem er innfluttur.


                                                Táta frá Brautartungu.
 Að Tinna standa ættir sem ég þekki vel til og sjaldgæft að lenda á eintaki eins og honum  þar sem kostirnir úr forfeðrunum safnast jafn vel saman.


 

Flettingar í dag: 461
Gestir í dag: 102
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419418
Samtals gestir: 38174
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 12:06:05
clockhere