20.08.2009 20:34

Langþráð rigning og byggið.


  Mér leið ákaflega vel þar sem ég stóð við eldhúsgluggann  sem rigningin dundi á, með kaffibollann í hendinni og horfði á vatnið streyma eftir veginum.

  Nú koma haustlægðirnar hver á fætur annarri og skraufaþurr jörðin gleypir í sig vatnið án þess að finna fyrir því.



 Svona leit  endinn á akrinum út þrátt fyrir hellirigningu fyrr um daginn. Við sáninguna í vor var hann illfær þarna vegna bleytu.

 Svo er það spurningin hversu langur tími líður þar til við bændurnir gnístum tönnum í vanmætti okkar, þegar veðurguðirnir verði lagstir í rigningu, allt orðið ófært og uppskeran í uppnámi.


 Hér er Lómur til vinstri en Judith hægra megin (á þurra akrinum hér fyrir ofan). Lómurinn er óvanalega hávaxinn og þetta er hvanngrænt enn , enda seint sáð.

 Það lítur út fyrir metuppskeri í bygginu hjá okkur þetta árið, þó stórir áhættuþættir eigi því miður eftir að koma eitthvað niður á henni.



 Hér á svæðinu er verið að sá  Judith, Erkki, Pilvi, Olsok, Skegglu og Lóm. Þetta lítur allt vel út og fróðlegt að sjá hvernig útkoman verður í lokin þegar haustið og veðurguðirnir eru búnir að fara um akrana höndum.

 Já, það er svo stefnt að þreskingu í byrjun sept.emoticon



19.08.2009 20:48

Stóðhestar og læknisráð.


  Hefði einhver sagt mér það fyrir nokkrum árum að ég ætti eftir að fara að fjárfesta í hrossarækt hefði ég hlegið að honum.

 Líklega hefði ég ráðlagt honum að leita sér læknis eða spurt hvort hann hefði gleymt að taka lyfin sín.

 Í Dalsmynni eru nú í gangi tvær stóðhestagirðingar og síðan 4 tittir í þriðja  hólfinu.

 Það eru hálfbræðurnir, Parkerssynirnir Sigur frá Hólabaki og Funi frá Dalsmynni sem halda uppi merki stóðhestanna hér í ár.



 Sigur er alveg rosaflottur á litinn og svo er vonandi eitthvað meira gott til í honum, sem kannski erfist áfram.

 Hann er alveg einstaklega rólegur í girðingunni. Hinsvegar er maður með lífið í lúkunum yfir umferðinni því hólfið er samliggjandi Þjóðveginum og það eru alveg ótrúlega margir sem stoppa og skoða folöldin og hrossin. Ekki hefur samt orðið óhapp enn, þó umferðin sé mikil og hröð þar sem bílarnir stoppa í vegkantinum.


 Funi frá Dalsmynni er stór þrevetlingur og maður fær aldrei nóg af því að horfa á hann hreyfa sig.
Hann ætti að virka vel á fjörunum, þegar náðst hefur samkomulag um að fjarlægja úr honum kúlurnar. Það lítur nú samt  ekki vel út með það samkomulag.



 Hann er ekki eins slakur í skapinu og stóri bróðir og hér er hann að hraða sér í merarnar eftir að hafa þurft að umbera tittina sér til mikilla leiðinda frameftir sumri.



 Hjá hestamiðstöðinni er svo Sindri frá Keldudal í nokkrum hryssum.

+
 Sindri er fjögra vetra og er í sumarfríi frá tamningarstússinu.

 Rétt er að taka fram að tittirnir tilheyra Hestamiðstöðinni.emoticon

Það er gaman að þessu, en heimurinn er harður í stóðhestabísnisinum.emoticon

18.08.2009 22:49

Háin , Rýgresið og heyskaparmet.


   Þó áburðurinn sem fara átti á túnin eftir fyrri slátt sé enn í sekkjunum inni í vélageymslu, verður ekki undan því vikist að hreinsa hána af túnunum.


   Engin ruddasláttuvél er í dótasafninu og þegar bændurinr stóðu frammi fyrir því , að annar var að koma úr fríi og hinn að fara í frí varð eitthvað að gera í málunum. Til að kóróna þetta sást síðan fyrir endann á þessum endalausu þurrkum.


 Föstudagskvöldið og laugardagsmorguninn var því slegið af miklum móð og  háin síðan rúlluð á sunnudeginum. Það var ákveðið að splæsa í plast utanum hana þó hluti hennar væri 2 fl. og þörfin fyrir hana takmörkuð, enda metheyskaparár að baki. 96 rúllur bættust því við rúllustaflann.


  Seinni sláttur á 2.5. ha rýgresi er seinna tíma vandamál ásamt  túnum sem eru á mörkum þess að þurfi að skafa af þeim hána.
 Nú eru kýrnar í seinni umferðinni í rýgresinu sínu og eins og fyrri daginn er lystin takmörkuð því óbitið verður í 80 cm. radíus í kringum hverja kúadellu sem orðið hefur til í fyrri umferðinni.



  Burðurinn hér hefst ekki af krafti fyrr en mestu haustönnum er lokið, þreskingu og rollustússi.

  Bygguppskeran lítur vel út en það er hinsvegar spurning hvernig þurrkarnir hafa farið með lömbin og gróðurinn í fjallendinu sem gæti fallið fyrr.


Já, það er alveg að koma haust.emoticon  




 
Flettingar í dag: 240
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419197
Samtals gestir: 38127
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 09:13:25
clockhere