04.11.2008 21:31

Perlubrúðkaup.




 Það var n.a. kalsarigning og leiðindaveður þegar mín heittelskaða og ég vorum pússuð saman í Rauðamelskirkju. Eftir að séra Einar hafði látið okkur lofa öllu mögulegu og ómögulega vorum við allt í einu orðin hjón. Í framhaldinu var frumburðurinn skírður og samkvæmt þessu, því bæði getinn og fæddur í synd. Það var síðan  nýmunstraður tengdapabbinn sem hélt dóttursyninum undir skírn og fórst það vel úr hendi eins og vænta mátti.


            Greinilega dálítill tími þessi 30 ár!

 Í dag eru 30 ár síðan þessir velheppnuðu gerningar áttu sér stað.

 Já, það hefur mikið verið lagt á konuna mína síðustu 30 árin.

  Það var ekki nóg með að taka mig á framfærslu sína, heldur var ég vanur því frá hótel mömmu að fara frekar létt útúr " kvennastörfunum", en stór systrahópur sá til þess að nokkuð " eðlileg " verkaskipting var á heimilinu.
 Það kom sér því vel fyrir frúna að hafa kennaramenntun í farteskinu við ögun hins værukæra eiginmanns.
 Það er svo  best að sleppa allri upptalningu á þeim brotum og brestum sem ég tel mig hafa á samviskunni eftir þennan tíma, svo ekki sé minnst á brot og brotabrot sem mér persónulega finnst ekki ámælisverð.
 Það sýnir hinsvegar þolinmæði og langlundargeð minnar heittelskuðu að á þessum tíma hefur hún nú aldrei lagt á mig hendur þó hana hafi örugglega oft langað til þess.

 Þó margt skemmtilegt sé nú óðum að hverfa í blámóðu fjarskans er sagan af síðbúna veislugestinum alltaf jafnfersk.

  Vinur okkar sem hafði verið að skemmta sér í bænum kvöldið fyrir brúðkaupið var svo " óheppinn " að keyra beint útúr einni beygjunni á leiðinni í sveitina.  Það var vel liðið á veisluna þegar honum var skutlað heim á hlað veislustaðarins af einhverjum miskunnarsömum . Þegar hann hitti þar utandyra einn veislugestanna, gerði hann sig eins virðulegan og honum var unnt, ræskti sig og spurði svo eilítið hásum róm.

  Afsakið, er það ekki hér sem verið er að gifta.? emoticon 


Já svo er ég ekki grunlaus um að þetta hafi verið dálítið erfiður dagur fyrir hana tengdamömmu.
 






03.11.2008 23:18

Hundaræktun. Endalaust ævintýri.

  Þú ert annar maðurinn á tveim dögum sem hringir í mig með þessa spurningu sagði félagi Hilmar.

  Ég hringdi í hann og spurði um hvort hann hefði símann hjá Einari Jóelssyni sem á áhugaverðan nýinnfluttan hund. Hilmar, sem var að koma úr framúrstefnulegri eftirleit þar sem m.a.  skotbómulyftari var notaður við að ná fé úr klettum (dugir trúlega ekki í Kirkjufellinu) mundi ekki númerið, en þar sem kom á daginn að ég átti nánast leið um hlaðið hjá Einari á ferð minni um suðurlandið. sagði hann mér til vegar svo dugði mér, jafn tregur og ég er.

 Þar sem ég tel mér trú um að hafa undir höndum tveir tíkur,  nothæfar í ræktunina eru bæði augu og eyru opin ef einhverstaðar er grunur um vel ræktaðan hund sem myndi henta sérviskunni í mér.


.

  Jim í Brautartungu var fluttur inn í vetur ótaminn , eða sjö mánaða. Það er lítið farið að vinna í kindum með hann en Einari leist vel á hann. Ekki gafst tími til að leyfa mér að sjá hvernig hann fer að fé  en sá tími gæti komið.

 
   

          Já , Einar verður að taka á því í vetur og sýna okkur hvað býr í Jim. 

     Ég sá hinsvegar strax að Jim er góður mannþekkjari.

  Hann vildi ekkert með bóndann af Snæfellsnesinu hafa.emoticon 

 

 

02.11.2008 22:57

Ein er upp til fjalla.


 Rjúpnaveiðin byrjar óvanalega illa í ár og hefur þó oft ýmislegt gengið á.

  Hjá mér endaði hún dálítið snautlega fyrir margt löngu en ég stundaði hana í nokkur haust.
Á þeim árum voru menn frekar slakir í skotvopnahaldinu og byssuleyfunum og fyrst var ég með einskota rússneskt dreifararör sem mágur minn skildi eftir hjá mér svo ég hefði eitthvað til að halda á í eftirleitunum. Á þessum tíma, meðan ég var vel innan við tvítugt þurfti að hafa fyrir hlutunum og hvorki voru til fjórhjól eða snjósleðar til að djöflast á um fjöllin heldur voru notaðir tveir jafnfljótir. Já þetta var stundum alveg rosalega mikið labb.
 Þar sem rjúpan var ekki elduð á hótel mömmu, gaf ég veiðina oftast, enda var aldrei um stórar aflatölur að ræða. Reyndar þróaðist rjúpnaskytteríð með sama hætti og í gæsinni og síðasta haustið var ég eingöngu með litla riffilinn í eftirleitunum. Litli riffillinn var í eigu bróður míns sem geymdi hann í sveitinni. Ég var orðinn dálítið lunkinn með hann en það trúði mér nú enginn þegar ég sagði frá þessum tveim sem lágu í sama skotinu. En allt um það, þegar komnar voru 17 rjúpur á snúrustaurinn hætti ég að taka riffilinn með og lét nægja að telja rjúpurnar sem ég hefði náð ef hann hefði verið með í för.
  Þegar ég tók mig síðan til seinnipart vetrar og henti rjúpunum 17 sem höfðu tollað á staurnum um veturinn, tók ég þá ákvörðun að þar með skyldi mínum rjúpnaveiðum lokið. 

  Stundum biðja menn um leyfi til rjúpnaveiða hjá mér og ef það er einhverjir lítt kunnugir er svarið einfaldlega nei.
 Með vini og kunningja er þetta ögn erfiðara þartil mér hugkvæmdist það að segja þeim að ég leyfði nú ekki rjúpnaveiði en það verpti  rjúpa í garðinum hjá mömmu, sem væri þar með ungana, og þeir skyldu bara tala við hana!

 Og ég er svo löngu hættur að telja þær sem ég hefði hugsanlega náð.emoticon 

 
Flettingar í dag: 608
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419565
Samtals gestir: 38188
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 14:24:15
clockhere