06.04.2008 23:27

Rolludagur.

 Mín heittelskaða verður að vinna við kennslu 5 daga vikunnar til þess að standa straum af heimili og manni sem verður sífellt þyngri í rekstri.(Stærri bílar og eldra Whiskí.)
Þar sem hún treystir okkur hinum bændunum illa, ef sauðféð er annarsvegar, verður því að gera fleira en gott þykir um helgar þegar mikið stendur til og þarf að vanda sig. Dagurinn (hluti hans) var því tekinn í að bólusetja féð og gefa því ormalyf . Þetta er að vísu létt verk og löðurmannlegt þegar bústofninn er ekki stærri en þetta og ólíkt skemmtilegra en ýmislegt annað sem lagt er á mann í rolluharkinu. Heyin hefðu mátt vera aðeins minni að gæðum síðustu tvo mánuðina því ærnar eru orðnar fullmiklar um sig og þungar á sér núna, þegar þær þyrftu  aðeins að fara að bæta á sig fyrir burðinn.
 Nú er svo verið að plana hvenær stefnt skuli að dreifingu búfjáráburðarins sem á að nýta vel í ár vegna áburðarverðsins og það styttist óðfluga í akuryrkjuna og önnur vorverk enda vorblíðan í dag kærkomin eftir norðan belginginn undanfarið.
 Og það þyrfti að taka 10 daga törn í hundamálunum áður en tekið verður tveggja mánaða frí í þeim málaflokk.

05.04.2008 21:46

Boðsballið.

 Það mættu rúmlega 200 manns á ballið sem er mjög fínt.
Boðsballið er ævafornt fyrirbrigði og byggist á því að sveitafélögin ,Eyja og Miklaholtshreppur og Kolbeinsstaðarhreppur bjóða íbúum hvors annars á víxl. Það er ókeypis inn. flottur matur,skemmtiatriði og ball á eftir. Nú er Kolbeinstaðarhreppur orðinn hluti af Borgarbyggð en kerfið er samt óbreytt. Fyrst þegar ég fór að stunda boðsböllin  voru þetta "þurrar" samkomur en það hefur nú orðið " lítilsháttar "breyting á því í tímans rás. Á móti kemur svo að þeir sem reykja verða nú að fara út  til að fá sér frískt loft.
 Starfið í skemmtinefndinni komst fljótt í fastar skorður þegar líða tók að skemmtuninni.
Það voru  auðvitað konurnar sem sáu um framkvæmdina en við kallarnir reyndum að þvælast sem minnst fyrir. Reyndar vorum við ákaflega vel virkir á fyrsta nefndarfundinum og mun duglegri við að sinna veitingunum sem voru rausnalegar og urðum við því nokkuð tilllögugóðir þegar líða tók á fundinn. Einhverra hluta vegna fóru aðrir fundir fram með alvöruþrungnari hætti og nokkurs aðhalds gætt við veitingarnar.
 Veislustjórinn á ballinu var fyrrverandi Eyhreppingur, Þórólfur Árnason (sá eini sanni) og ég óttaðist að þakið myndi nú fjúka af húsinu þegar honum tókst sem best upp, við að lýsa því hvaða augum hann leit sveitungana og lífið og tilveruna svona almennt þegar hann var að alast upp í Söðulsholti. Ég ætla svo að reyna að skrapa saman myndum og koma inn í albúmið við tækifæri og ef fréttakona Skessuhorns kíkir hér á bloggið mætti hún alveg senda mér nokkrar til afnota.
 Það stendur svo til að slútta nefndarstörfunum á næsta föstudagskvöldi og nú er bara að vona að búið verði að aflétta  veitingaaðhaldinu.

03.04.2008 23:50

Boðsballið og Vestmanneyjar.

 Var ekki einhver að tala um vor í lofti og stillur framundan?

Vorloftið í dag var í kaldara lagi og á töluverðum hraða hér á Nesinu. eða ákaflega súrefnisríkt eins og maður segir. Nú lætur maður sig hlakka til spennufallsins sem verður um miðnætti annað kvöld en þá verður haldin mikil hátíð á vegum sveitarfélagsins hér,matur, skemmtiatriði og ball. Þar sem við hjónin erum í skemmtinefndinni hefur allt verið á útopnu þessa vikuna og nær stressið væntanlega hámarki á morgun.
 En það var farið til Eyja um síðustu helgi sem er alltaf dálítið sérstakt. Það er t.d. umhugsunarefni að til þess að vera örugg  að komast með bílinn með sér á föstudeginum, þurfti að panta fyrir hann í janúar. Síðast þegar við fórum var flogið frá Bakka. Þá var líka sérstakt að skutlast þarna yfir á nokkrum mínútum. Eyjamenn binda greinilega vonir við Bakkahöfn (þar til verður borað,náttúrulega) en þá myndi ferjuferðunum fjölga verulega sem yrði heilmikil breyting.Og þeir taka því alltaf jafnilla þegar ég  kalla þá útlendinga. En kíkið á myndirnar sem komnar eru inn frá ferðinni.
Flettingar í dag: 173
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419130
Samtals gestir: 38101
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 08:30:52
clockhere